fbpx
Þriðjudagur 28.janúar 2025
Fréttir

Grímur rak fimm veitingastaði í þrot í Noregi á einu ári

Kennir norsku dagblaði um ófarirnar og hótar lögsókn

Björn Þorfinnsson
Föstudaginn 1. september 2017 08:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Íslenskum athafnamanni hefur á rúmu ári tekist að reka fimm veitingastaði í þrot í Noregi. Þetta kemur fram í umfjöllun héraðsblaðsins Glåmdalen AS. Umræddur maður, Grímur Vilhelmsson, flúði frá Íslandi eftir að hafa skilið eftir sig sviðna jörð í tengslum við veitingarekstur á Suðurnesjum.. Sagan hefur nú endurtekið sig í Noregi. Grímur kennir norskum fjölmiðli um ófarir sínar.

Sviðin jörð á Reykjanesi

Í byrjun október í fyrra fjallaði DV um opnun Gríms á veitingastað í Skarsnes Noregi. Fékk staðurinn nafnið Tveir vitar sem var sama nafn og veitingastaður sem Grímur rak við Garðskagavita bar. Gríðarleg óregla var á rekstrinum hér á landi og sveik Grímur marga starfsmenn um laun og stóð ekki skil á opinberum gjöldum. Vanefndirnar urðu til þess að verkalýðsfélag í Reykjanesbæ fór fram á persónulegt gjaldþrot Gríms. Það gekk í gegn og í kjölfarið flúði Grímur til Noregs þar sem hann hélt veitingarekstrinum áfram. DV hafði aðeins upplýsingar um þennan eina veitingastað en í umfjöllun norsks héraðsblaðs kemur fram að Grímur hafi verið með puttana í rekstri fjögurra annarra veitingastaða í bænum Halden, skammt frá Fredrikstad. Þeim hefur öllum verið lokað.

Veðjaði á kóreska ferðamenn

Héraðsblaðið Glåmdalen AS, sem er á Skarsnesi, stutt frá Kongsvinger, hefur skrifað nokkrar fréttir um málið. Í þeirri fyrstu kemur fram að forsvarsmenn fyrirtækisins Slomarka Eiendom AS, sem á fasteignina sem Grímur hafði leigt undir veitingastaðinn í Skarsnesi, hafi fengið nóg af af vangoldinni húsaleigu og því sé áframhaldandi rekstur Gríms í uppnámi. Fram kemur að vanefndirnar hafi hljóðað upp á rúmlega 168 þúsund norskar krónur eða rúmlega tvær milljónir íslenskra króna. Grímur hafði gert tíu ára samning um húsnæðið og því voru um níu ár eftir af leigutímanum.

Veitingastaður Gríms er hluti af stórri ferðaþjónustueiningu sem heitir Slobrua Gestegård. Þar er rekið gistiheimili og vinsæll baðstaður. Í frétti Glåmdalen AS kemur fram að rekstraraðilar á svæðinu hafi verið afar ósáttir við þá stefnu Gríms að einbeita sér að því að sinna kóreskum ferðamönnum. Hann hafi tilkynnt norskum gestum að allt væri fullbókað og að ekki væri pláss fyrir þá. Kóresku gestirnir hafi ekki skilað miklu í kassann fyrir aðra rekstraraðila á svæðinu. Þá kemur fram að Grímur hafi ekki fengið vínveitingaleyfi frá sveitarfélaginu og að umsóknum um það hafi ítrekað verið hafnað.

Líkti hann norska blaðinu við klósettpappír og lýsti því yfir að hann myndi lögsækja það fyrir fréttaflutning sinn.

Of margir starfsmenn

Í viðtali við Glåmdalen viðurkenndi Grímur að hann skuldaði húsaleiguna en fullyrti að hún yrði gerð upp, en þó aðeins að hluta. Þá viðurkenndi hann rekstrarerfiðleika og að hann hafi tilkynnt starfsmönnum að uppsagnir séu framundan. „Starfsmennirnir eru of margir til þess að viðskiptin geti orðið arðbær,“ var haft eftir Grími. Hann kvaðst þó bjartsýnn á að reksturinn myndi halda áfram í óbreyttri mynd.

Nokkrum dögum síðar birtist önnur frétt í Glåmdalen AS um að eigandi húsnæðisins hafi lokað veitingastað Gríms skyndilega þann 15. ágúst. Þá hefði blaðið heimildir fyrir því að kröfuhafar biðu í röðum eftir greiðslum frá Grími og að einn hafi farið fram á gjaldþrot hans ytra. Beiðnin var lögð fram þann 20. júlí síðastliðinn og átti að taka hana fyrir í Héraðsdómi Glåmdal þann 24. ágúst síðastliðinn. DV hefur ekki fengið staðfest hvort af því hafi orðið.

Líkti blaðinu við klósettpappír

Í skriflegri kveðju á Facebook-síðu veitingastaðarins segist Grímur harma niðurstöðu málsins en að hann væri feginn að vera „laus við þetta rugl.“ Sagði hann að ósanngjörn umfjöllun norska blaðsins hafi gert það að verkum að veitingastaðnum hafi verið lokað. Líkti hann norska blaðinu við klósettpappír og lýsti því yfir að hann myndi lögsækja það fyrir fréttaflutning sinn. Í athugasemdum við færsluna fær Grímur það óþvegið frá viðskiptavinum staðarins sem bera veitingastaðnum ekki vel söguna. Þá tjáir starfsfólk sig í þræðinum um vangoldin laun.

Sagan lyginni líkust

Saga Gríms Vilhelmssonar er lyginni líkust. Hann komst fyrst í fréttirnar á haustmánuðum 1994 þegar DV birti fréttir um meintan kynferðisbrotamann sem framvísaði fölsuðum prófgráðum þegar hann sótti um störf hjá menntastofnunum um allt land. Var maðurinn grunaður um brot gegn eigin börnum og var hann ­úrskurðaður í gæsluvarðhald í Noregi vegna málsins. Grímur svaraði fyrir sig í viðtali skömmu síðar þar sem hann sagði að fréttaflutningurinn væri skipulagðar persónulegar ofsóknir gegn sér. Hann hlaut ekki dóm vegna málsins.

Tæpu ári síðar birti Helgarpósturinn umfjöllun um Grím þar sem hann var sagður vera dæmi um mann sem „lýgur, eingöngu lyginnar vegna“ og vísaði í þá staðreynd að Grímur hafði sprottið fram á sjónarsviðið sem sérfræðingur í fíkniefnamálum og slegið um sig með ýmsum prófgráðum. Í mars 1999 birtir DV frétt um að Grímur hafi „enn einu sinni“ verið dreginn fyrir dómstóla í Noregi. Hafði hann þá fengið vinnu sem sálfræðingur á sjúkrahúsi í Kirkenesi í Norður-Noregi án þess að hafa til þess tilskilin leyfi. Hlaut hann stuttan dóm fyrir.

Grímur missti bæði handlegg og fætur eftir alvarlegt slys. Hann hefur verið nokkuð duglegur að ræða slysið í sænskum og íslenskum miðlum en ­dagsetningarnar eru mjög á reiki. Hann hefur sagt opinberlega að slysið hafi átt sér stað. Í frétt DV frá 1999 kemur fram að Grímur hafi orðið 100 prósent öryrki eftir slys í skipasmíðastöð. Það stangast á við ­dramatíska frásögn Gríms í sænska dagblaðinu Tidningen Ångermanland þar sem hann sagði að slysið hefði átt sér stað árið 2003 um borð í bát í hans eigu sem var við veiðar í Norðursjó. Átti hann að hafa flækst í stálvír með fyrrgreindum ­afleiðingum. Þessar tvær ­sögur eru síðan í hróplegu ósamræmi við Mannlífsviðtal árið 2003 þar sem Grímur segir slysið hafa átt sér stað í olíubirgðaskipi árið 1998.

Í lok árs 2013 opnaði Grímur veitingastað í bænum Sollefteå í Svíþjóð. Hann virðist hafa komið við kauninn á röngum aðilum því 9. nóvember var kveikt í íbúðarhúsi hans á svæðinu og brann það til kaldra kola. Blessunarlega urðu engin slys á fólki. Aðfaranótt annars í jólum sama ár varð Grímur fyrir grófri líkamsárás á veitingastaðnum. Hann var laminn með hafnaboltakylfu en árásarmennirnir komust undan. Málið vakti talsverða athygli og var fjallað um það ­þáttunum „Efterlyst“ á sjónvarpstöðinni TV3 þar ytra. Grímur flúði til Íslands í kjölfarið.

Við tók veitingarekstur á Íslandi en hvorki birgjar né starfsmenn staðanna sem Grímur rak fengu greitt sem skyldi. Stöðunum, sem voru við Garðskagavita og síðar í Reykjanesbæ, var lokað og var fyrir­tæki Gríms og hann persónulega úrskurðuð gjaldþrota. Í kjölfarið flutti hann til Noregs ásamt fjölskyldu sinni þar sem hann hefur nú rekið fimm veitingastaði í þrot.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Piltur úr tálbeituhópnum ræðir við DV: Segir þingmenn og aðra broddborgara klæmast við börn á netinu

Piltur úr tálbeituhópnum ræðir við DV: Segir þingmenn og aðra broddborgara klæmast við börn á netinu
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Friðjón minnist baráttu SUS fyrir réttindum hinsegin fólks – „Grunnstef bæði Sjálfstæðisstefnunnar og frjálshyggjunnar“

Friðjón minnist baráttu SUS fyrir réttindum hinsegin fólks – „Grunnstef bæði Sjálfstæðisstefnunnar og frjálshyggjunnar“