Mikið ófremdarástand hefur ríkt á tjaldsvæðinu í Laugardal síðustu misseri, en þar býr hópur fólks sem hefur síðustu vetur neyðst til að búa í húsbílum og hjólhýsum vegna hás leiguverðs á höfuðborgarsvæðinu. Óhreinindi, þjófnaður og skemmdarverk hafa verið gegnumgangandi á svæðinu samkvæmt heimildum vegna eftirlitsleysis, en nýverið tók gildi samningur um að Íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkur sæi um rekstur langtímasvæðisins í stað fyrirtækisins Farfuglar ses. DV náði tali af nokkrum íbúum svæðisins og fullyrða þeir að lífskjör þeirra hafa farið batnandi; girðing hefur afgirt svæði íbúa með harðara eftirliti og stendur til að stilla upp öryggismyndavélum ásamt því að lengja visttíma íbúa til að hægt sé að veita þeim heilsársstæði.