fbpx
Laugardagur 23.nóvember 2024
Fókus

„Það er mjög auðvelt að detta niður í þunglyndi eftir Eurovision“

Lilja Katrín Gunnarsdóttir
Föstudaginn 28. febrúar 2020 19:00

Tom, lengst til vinstri, ásamt félgöum sínum í KEiiNO.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Við erum vön því að hafa nóg fyrir stafni og okkur fannst synd að fljúga til Íslands til þess eins að skemmta í fimm mínútur í beinni útsendingu þannig að það er svalt að við fáum að vera aðeins lengur,“ segir lagahöfundurinn og söngvarinn Tom Hugo, forsprakki norsku sveitarinnar KEiiNO. Sveitin sló rækilega í gegn í Eurovision í Tel Aviv í fyrra með slagarann Spirit in the Sky, þar sem hressu poppi var blandað við ljóðlist Sama, joik. KEiiNO sækir Ísland heim um helgina og treður ekki aðeins upp í úrslitum Söngvakeppninnar á laugardagskvöldinu heldur skemmtir einnig þyrstum partígestum á Euro-klúbbnum í Iðnó fram á rauðanótt eftir að úrslitin verða ljós.

Óvissa hjá EBU og NRK

Tom samdi lagið Spirit in the Sky með eiginmanni sínum, Alex Olsson, og var það aldalöng barátta minnihlutahópa fyrir jafnrétti sem veitti innblástur. Tom fékk síðar til liðs við sig Sama-rapparann Fred Buljo og söngkonuna Alexöndru Rotan, þau fóru alla leið í norsku Söngvakeppninni, Melodi Grand Prix, unnu hjörtu áhorfenda um gjörvalla Evrópu og enduðu í sjötta sæti í Eurovision. Það höfðu hins vegar ekki allir trú á að lagið kæmist svo langt.

Slógu í gegn Þríeykið á sviðinu í Tel Aviv.

„Fjölmargt fólk hjá EBU [Sambandi evrópskra sjónvarpsstöðva] og NRK [Norska ríkisútvarpinu] hafði sínar efasemdir um lagið. Þótt einhverjir telji lagið dæmigert Eurovision-lag þá er það ekki dæmigert akkúrat núna. Maður heyrir ekki marga poppslagara með joiki þessa dagana,“ segir Tom og hlær. „Við náðum hins vegar að túlka ákveðinn boðskap með laginu. Boðskap um að fagna fjölbreytileikanum og hvernig sameiningarmátturinn getur orðið til þess að við sköpum eitthvað stærra og meira.“

Platan tilbúin

Tom segir að það hafi vissulega verið draumi líkast að komast svo langt í stærstu söngvakeppni heims. Hann, Fred og Alexandra þekktust lítið áður en þau hófu þessa vegferð saman en ákváðu að þau þyrftu að vera með stærra plan eftir Eurovision.

„Það er mjög auðvelt að detta niður í þunglyndi eftir Eurovision. Allt í einu hefur enginn áhuga á að tala við þig eða horfa á þig. Maður fær mjög mikla athygli yfir stuttan tíma og það er ekki eðlilegt. Við ákváðum því að vera með plan þegar slökkt yrði á myndavélunum og það var að búa til plötu með öðrum frumbyggjalistamönnum um heim allan. Sú vinna hófst í maí á síðasta ári og platan fór í fjöldaframleiðslu á miðvikudaginn,“ segir Tom. Fyrsta lagið af plötunni, Black Leather, fer í spilun í dag, föstudag, og verður frumflutt í beinni útsendingu í Söngvakeppninni. Í því lagi nýtur þríeykið í KEiiNO liðsinnis kanadísku hálssöngkonunnar Charlotte Qamaiq.

Draumi líkast Tom samdi lagið Spirit in the Sky með eiginmanni sínum.

Margt líkt með Hatara

En aftur að Íslandsförinni. Tom lenti hér á landi í gær, fimmtudag, og eyddi gæðatíma með eiginmanni sínum áður en hinir tveir KEiiNO-liðarnir mættu á svæðið. Það stendur ekki á svörunum þegar hann er spurður hvers hann hlakkar mest til á Íslandi.

„Við erum auðmjúk fyrir að hafa verið beðin um að spila, bæði á RÚV og í eftirpartíinu. Það verður æði og sérstaklega verður gaman að hitta Hatara aftur,“ segir Tom og bætir við að þau í KEiiNO hafi tengst meðlimum Hatara vináttuböndum í fyrra í Tel Aviv. „Þó að tónlistin okkar sé ekki alveg eins þá er ýmislegt sem við eigum sameiginlegt. Hatari tekur auðvitað allt skrefinu lengra en við,“ segir hann og hlær. „Við deilum samt sömu gildum, þótt við tjáum þau á mismunandi hátt. Svona eins og góð lögga, slæm lögga. Það er nauðsynlegt að hafa allan skalann til að breyta heiminum, sumir eru háværir á meðan aðrir læðast meðfram veggjum.“

Tom treystir sér hins vegar ekki til að spá fyrir um úrslit Söngvakeppninnar.

„Ég er búin að hlusta á öll lögin og eitt er í uppáhaldi hjá mér. Ég ætla samt að halda því fyrir sjálfan mig sem virðingarvott fyrir þá frábæru listamenn sem stíga á sviðið á laugardag. Sama hvernig fer, hvort sem það verður ballaða eða popplag, þá er ég viss um að Íslandi á eftir að ganga vel í Eurovision.“

Svart leður KEiiNO-liðar eru keimlíkir Hatara í klæðaburði.

Reyna að breyta heiminum

Nýja lag KEiiNO, Black Leather, er rokkaðra en Spirit in the Sky og minnir klæðaburður á kynningarefninu óneitanlega á Hatara. Það lag fjallar um framtíðarsýn þar sem fólk er ekki skilgreint eftir kyni og þar sem kyn ákvarðar ekki möguleika þína í þessum heimi. Tom segir afar mikilvægt fyrir KEiiNO að breiða út boðskap jafnréttis, sérstaklega í dag.

„Heimurinn er að verða meira pólaríserandi. Hægri öfgamenn búa til svæði í Evrópu þar sem hinsegin fólk er bannað, svo dæmi séu tekin. Þótt við hér á Norðurlöndunum séum heppnari en fólk annars staðar í heiminum þá þurfum við stanslaust að minna fólk á að allir eiga rétt á jafnrétti, sérstaklega á tímum þar sem kapítalismi egnir okkur gegn hvert öðru. Stundum virðist þessi barátta vonlaus, en þegar við horfum á stóru myndina þá verðum við að reyna að breyta hlutunum. Við í KEiiNO höfum tækifæri til að senda skilaboð til heimsins. Kannski virkar það ekki, en við reyndum allavega.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Sharon Osbourne dauðsér eftir Ozempic – „Þetta sýnir bara hætturnar við þessi lyf sem lofa árangri strax“

Sharon Osbourne dauðsér eftir Ozempic – „Þetta sýnir bara hætturnar við þessi lyf sem lofa árangri strax“
Fókus
Í gær

Simmi Vill segir að þetta sé stærsta kjarabótin fyrir íslenskar fjölskyldur – „Nú verð ég kallaður karlrembupungur“

Simmi Vill segir að þetta sé stærsta kjarabótin fyrir íslenskar fjölskyldur – „Nú verð ég kallaður karlrembupungur“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Segja atvikið í bardaganum sýna að úrslitin hafi verið fyrir fram ákveðin

Segja atvikið í bardaganum sýna að úrslitin hafi verið fyrir fram ákveðin
Fókus
Fyrir 3 dögum

Dómnefnd FKA skipuð fyrir árlega viðurkenningarhátíð 

Dómnefnd FKA skipuð fyrir árlega viðurkenningarhátíð 
Fókus
Fyrir 3 dögum

Kynlífsóðu klámstjörnunni sparkað úr landi

Kynlífsóðu klámstjörnunni sparkað úr landi
Fókus
Fyrir 4 dögum

„Konur sem sætta sig við framkomu sem þær eiga ekki skilið eru kannski í samböndum sem þeim líður ekki vel í“

„Konur sem sætta sig við framkomu sem þær eiga ekki skilið eru kannski í samböndum sem þeim líður ekki vel í“