Hagfræðingurinn Jeffrey D. Sachs skrifar grein á vefinn Project Syndicate og segir að í augum Wall Street sé Bernie Sanders hræðilegur ógnarbíldur, algjörlega ókjósanlegur, hann sé boðberi hruns – og hann segir að þessi málflutningur endurómi í meira að segja í frjálslyndum blöðum eins og New York Times og Washington Post.
Séð úr forréttindastöðu Wall Street í bandarísku samfélagi kunni þetta að líta svona út. Þar séu völd, auðfengið fé, hlutabréfamarkaðir sem hafi verið á flugi – gagnrýnendur þessa hljóti að vera óvinurinn sjálfur eða fábjánar.
Sachs segir að þegar hann nefni Bernie Sanders á nafn í slíkum hópum bregðist menn við eins og talað sé um skrattann sjálfan.
En, segir Sachs, í Evrópu yrði Sanders ekki talinn annað en hefðbundinn sósíaldemókrati – austan megin hafsins þykja sósíaldemókratar ekkert sérlega róttækir.
Stefnumál hans séu almennt heilbrigðiskerfi, laun sem eru yfir fátæktarmörkum, fæðingarorlof, launað sjúkraleyfi, menntun sem steypir námsmönnum ekki í ævilangar skuldir, kosningar sem milljarðamæringar geta ekki keypt og stjórnarfar þar sem vilji almennings ræður en ekki ítök stórfyrirtækja – hann nefnir að þau hafi eytt 3,5 milljörðum dollara í lobbíisma á síðasta ári.
Og það sem meira er, segir Sachs, meirihluti Bandaríkjamanna er samþykkur þessum stefnumálum – og sé líka hlynntur því að leggja meiri skatta á auðmenn. Samt sé sífellt klifað á því að Sanders sé öfgamaður.