Svona til að vera með í gleðinni á sprengidag fann ég upp þessa snilld í fyrra en ég dýrka baunasúpu og þessi huggar mig í stað kolvetnasprengjunnar. Í hana nota ég Daikon radísu, eða kínahreðku, sem er lág í kolvetnum og stútfull af næringu. Það er ekkert afgerandi bragð af henni þannig að hún er góður grunnur í súpu sem þessa.
Hráefni:
1 stór Daikon radísa
½ laukur
1 ½ grænmetisteningur
1 stór biti saltkjöt
½ tsk. túrmerik
Aðferð:
Radísan og laukur skorin í teninga og sett í pott ásamt einum bita af saltkjöti og grænmetistening. Vatn sett yfir þannig hylji. Soðið saman í ca. klst. á lágum hita.
Þá er soðið sigtað frá og saltkjötsbitinn veiddur uppúr. Radísan og laukurinn maukuð með töfrasprota og síðan ca. 2 dl af soðinu bætt aftur út í, eða bara eins og þið viljið hafa súpuna þykka eða þunna. Ég vil mína frekar þykka. Þá er bara að brytja kjötið út í og bæta ½ grænmetistening við ef vill og leyfa að malla í smástund. Ég set líka ½ tsk. af túrmerik út í fyrir lit og ekki skaðar að túrmerik er gott fyrir mann.
Verði ykkur að góðu!