fbpx
Fimmtudagur 21.nóvember 2024
Eyjan

Brauðveðrið mikla – og líka ljúfar minningar frá því þegar skólum bernskunnar var lokað vegna veðurs

Egill Helgason
Föstudaginn 14. febrúar 2020 14:55

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Gárungar segja að það hafi verið (b)rauð viðvörun í gær, því þegar tilkynnt var að skólum yrði lokað og ýmsum vinnustöðum, strætó myndi ekki ganga, þusti fólk í búðir og keypti matvöru í gríð og erg. Brauð seldist víða upp – þetta var líkt og því að fólk byggist við margra daga inniveru og einangrun vegna veðursins. Svo verður víst ekki, að minnsta kosti ekki hér í borginni. En þetta er vægt afbrigði af þvi sem kallast á amerísku doomsday prepping.

Það er líka farið að tala um „brauðveðrið“ mikla. Svona leit hilla í kjörbúð út – myndin er fengi að láni hjá Þóru Kristínu Ásgeirsdóttur. Mætti jafnvel halda að borgarbúar hafi ætlað að nota inniveruna til að útbúa brauðrétti – brauðtertur, smurbrauð, réttinn sem nefnist „heitt í ofni“, grillaðar samlokur.

Svona óveður eru auðvitað ekki gamanmál, víða urðu talsverðar skemmdir og það er sjálfsagt að hafa varann á. Veðrið varð þó ekki mjög fárslegt hér í vesturborginni þar sem ég bý, þetta var austanrok og þá hef ég talsvert skjól af Skólavörðuholtinu og byggðinni þar. Suðvestan- og norðanáttirnar eru verri en hér.

Kári sonur minn hefur lengi kvartað undan því hversu sjaldgæft sé að skólar loki vegna veðurs. Það er býsna fátítt, en ég held að ein skýringin séu „hjól atvinnulífsins“, ef börnin fara ekki í skóla komast foreldrarnir, a.m.k. ekki báðir, ekki í vinnu og þá hægist verulega á samfélaginu. Það þykir ekki gott.

Þetta er dálítið öðruvísi í minningunni. Mér finnst að skólahald hafi fallið býsna oft niður þegar ég var krakki. Ef veðurspáin var sérlega vond beið maður í ofvæni eftir tilkynningu í útvarpinu – því það var eina leiðin til að koma fregnum til fólks með skjótum hætti. Og gleðin var mikill ef varð að loka skólanum – það eitthvað í barnshuganum sem veldur því að fátt er betra en óvænt skólafrí, kannski tengist það aðallega því að þetta er uppbrot á rútínu sem getur orðið dálítið sligandi.

Ég man sérstaklega eftir einum degi. Það hefur verið kringum 1970 Um kvöldið sagði í útvarpinu að skólum yrði lokað. Um nóttina og morguninn kyngdi niður snjó svo annað eins hafði vart sést. En milli tíu og ellefu hætti snjókoman, það lægði, kom bjartviðri og sama og enginn vindur. Börnin þustu út til að leika sér í snjónum.

Við Landakotstúnið – sem þá var miðsvæði fyrir leiki – voru svo miklir skaflar að það var hægt að grafa snjóhús í þá og snjógöng milli húsanna. Þetta iðjuðu börnin allan daginn og komu heim, sjálfsagt blaut og köld, en líka fjörmikil og sæl.

Þetta var ógleymanlegur og frábær dagur og ég held ekki að neinn hafi skaðast af því þótt kennsla félli niður. Ég er ekki með dagsetninguna – kannski getur einhver fundið hana út?

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt