„Bílastæðasjóður vill vekja athygli á því að ný umferðarlög tóku gildi um áramótin. Helsta breytingin í nýjum lögum hvað varðar eftirlit stöðuvarða og lögreglu er sú að við ákvæðum sem áður voru sektir við skal nú setja stöðubrotsgjald,“
segir á vef Reykjavíkurborgar.
„Dæmi um þetta er þegar lagt er við brunahana, fyrir innkeyrslum og öfugt við akstursstefnu eða þegar bifreið er stöðvuð eða henni lagt á akbraut sem skipt er í akreinar með óbrotinni mið- eða deililínu. Stöðubrotsgjaldið er 10.000 kr.“
Lögreglan hefur ekki skipt sér mikið af því hingað til ef bílar leggja í öfuga akstursstefnu, til dæmis við Skólavörðustíginn, en nú gæti orðið breyting þar á.
„Stöðuverðir hafa hins vegar haft heimild frá árinu 1987 til að setja á stöðubrotsgjöld vegna bifreiða sem leggja til dæmis á gangstétt, of nálægt vegamótum, stæði sem ætluð eru fyrir fatlað fólk og innan við fimm metra frá gangbraut svo eitthvað sé nefnt,“
segir í tilkynningunni.
Einnig eru nokkur ný ákvæði í umferðarlögunum hvað varðar sérmerkt stæði eins og fyrir rafbíla en aðeins rafbílar mega leggja á merktu stæði ætluðu bifreið til rafhleðslu. Enn fremur mega til að mynda aðeins vörubifreiðar og hópbifreiðar leggja í stæði sem eru sérstaklega merkt slíkum bifreiðum.
Starfsfólk Bílastæðasjóðs hvetur alla til að kynna sér ný umferðarlög þar sem um töluverðar breytingar er að ræða. Sérstaklega má benda á 109. grein umferðarlaganna sem má skoða á vef Alþingis.