Bókstafstrúarmenn hafa gripið til skemmdarverka til að mótmæla kvikmynd um ástarsamband síðasta keisara Rússlands og ballerínu
Miklar deilur hafa farið fram að undanförnu í Rússlandi um nýja kvikmynd, Mathilda, sem fjallar um ástarsamband Nikulásar II, síðasta keisara Rússlands, og ballerínunnar Mathildu Kshesinskayu.
Rússneskir þjóðernissinnar og bókstafstrúarhópar hafa mótmælt sýningu myndarinnar vegna þess að hún þykir vera móðgun við keisarann, sem var gerður að dýrlingi af rússnesku rétttrúnaðarkirkjunni í upphafi aldarinnar. Ofbeldi hefur verið hótað og skemmdarverk framin í mótmælaskyni.
Kvikmyndin, sem er eftir leikstjórann Alexei Uchitel, fjallar um pólsk-rússneska ballettdansarann Mathildu Kshesinskayu og ástarsamband hennar við Nikulás II Rómanov, síðasta keisara Rússlands, áður en hann tók við krúnunni. Sambandið varði í þrjú ár frá 1890 og allt þar til Nikulás kvæntist hinni þýskættuðu Alexöndru af Hesse árið 1894.
Áætlað er að myndin verði frumsýnd í Pétursborg 23. október og fari í almennar sýningar þremur dögum síðar. Fyrsta stiklan úr myndinni birtist í apríl í fyrra og hófust þá undireins harðorðar umræður um myndina. Það sem fór fyrir brjóstið á mörgum rétttrúuðum Rússum var ekki aðeins að myndin skyldi innihalda eldheit ástaratriði með keisaranum – sem var gerður að dýrlingi innan rússnesku rétttrúnaðarkirkjunni ásamt fjölskyldu sinni árið 2000 – heldur neita þeir yfirhöfuð (þrátt fyrir ríkulegar heimildir) að ástarsambandið hafi átt sér stað. Slíkt lauslæti myndi enda alls ekki hæfa ímynd dýrlingsins.
Einn háværasti gagnrýnandi myndarinnar er þjóðernissinnuð þingkona úr flokki Vladimírs Pútín forsætisráðherra, Natalia Poklonskaya. Poklonskaya hefur áður vakið alþjóðlega athygli, annars vegar fyrir forkunnarfagurt útlit sitt og svo fyrir það vera skipuð í einkar valdamikið embætti á unga aldri, sem saksóknari á Krímskaga. Hún er sérstaklega sanntrúuð á heilagleika keisarans og sagði meðal annars í mars að hún hafi orðið vitni að kraftaverki þegar hún sá myrru leka sem tár úr augum bronshöggmyndar af Nikulási.
Til að meta hvort bíómyndina mætti skilgreina sem guðlast skipaði Poklonskaya fjögurra manna nefnd til að skoða málið og varð niðurstaðan meðal annars að myndin hlyti að vera sögulega röng – enda gæti keisarinn aldrei hafa fallið fyrir svo ófríðri konu sem Mathilda var, að sögn nefndarinnar. Þá fordæmdi nefndin að þýski leikarinn Lars Eidinger fari með hlutverk keisarans en hann er sagður „klámmyndaleikari“ vegna þess að hann sást nakinn í kvikmynd nýlega. Poklonskaya hefur staðið fyrir undirskriftasöfnun gegn myndinni og skrifuðu hundrað þúsund manns undir skjalið áður en hún skilaði því inn í júlí til menningarmálaráðuneytisins, en þar var þess krafist að myndin yrði bönnuð enda myndu sýningar á henni særa tilfinningar trúaðra.
Í byrjun árs sendi hópur sem kallar sig Kristið ríki – heilagt Rússland bréf til fjölda kvikmyndahúsaeigenda í landinu með lítt duldum hótunum: „kvikmyndahús munu brenna, fólk mun jafnvel þjást.“ Þrátt fyrir að menn sem eru nátengdir Vladimír Pútín hafi gagnrýnt myndina gerði kvikmyndaeftirlit landsins hins vegar engar athugasemdir og hefur samþykkt að hún verði sýnd í kvikmyndahúsum landsins.
Bókstafstrúarmennirnir eru alls ekki sáttir við ákvörðun kvikmyndaeftirlitsins og hafa að undanförnu gripið til enn beinskeyttari aðgerða til að koma í veg fyrir að myndin verði sýnd. Í lok ágúst – á afmælisdegi Mathildu – var mólótovkokteilum hent inn í kvikmyndastúdíó leikstjórans. Í september héldu skemmdarverkin áfram þegar kveikt var í tveimur bílum í miðborg Moskvu í námunda við skrifstofu lögfræðings leikstjórans og miðum með slagorðum gegn myndinni dreift. Í nýjasta hermdarverkinu var ráðist á kvikmyndahús sem ætlaði að sýna myndina.
Kvikmyndahúsaeigendur eru margir hverjir uggandi og hefur stærsta kvikmyndakeðja Rússlands meðal annars ákveðið að sýna ekki myndina, enda treysti hún sér ekki til að vernda öryggi bíógesta sinna.
Leikstjórinn Alexei Uchitel hefur sagt að gagnrýnin hafi komið sér mikið á óvart og hann hafi alls ekki búist við því að myndin yrði umdeild. Hann hefur enn fremur kvartað yfir því að stjórnvöld grípi ekki í taumana og geri eitthvað varðandi hótanirnar. Það var ekki fyrr en um miðjan september sem menningarmálaráðherra Rússlands, Vladimír Medinsky, fordæmdi loks ógnanirnar og ofbeldisverkin. Hann sagðist sjálfur hafa séð myndina og fullvissaði fólk um að þar væri ekkert sem væri móðgandi við minningu Nikulásar eða sögu rússneska keisaradæmisins.
Þrýstingurinn frá aðgerðasinnum og viljaleysi stjórnvalda til að taka á þeim er aðeins eitt dæmi um það hvernig þjóðernisöfgamenn og bókstafstrúaðir aðgerðasinnar eru farnir að hafa áhrif í pólitísku lífi Rússlands. Frá falli Sovétríkjanna hefur rétttrúnaðarkirkjunni vaxið fiskur um hrygg og þá sérstaklega á valdatíma Vladimírs Pútín sem hefur hampað kirkjunni, tengt hana við þjóðernissinnaða orðræðu og áherslu á að endurvekja virðingu fyrir keisaradæminu.
Deilurnar munu eflaust halda áfram á næstunni, og eflaust vekja enn meiri athygli á myndinni en hún hefði annars fengið, en stiklur myndarinnar gefa ekki annað til kynna en að hér sé um nokkuð hefðbundið búningadrama að ræða – tiltölulega hallærislegt og melódramatískt.