Dagur B. Eggertsson borgarstjóri var gestur Silfursins á RÚV í gær hvar hann ræddi kjaradeilur Eflingar við Reykjavíkurborg.
Dagur nefndi nokkuð sem virðist hafa komið mörgum vinstrimönnum í opna skjöldu, að launamunur milli ófaglærðra og háskólamenntaðra væri nauðsynlegur, þar sem rík krafa væri í þjóðfélaginu um að menntun væri metin til launa hér á landi.
Óhætt er að segja að samfélagsmiðlar hafi logað eftir þetta, þar sem borgarstjóri fær á baukinn fyrir orð sín.
„Flokkur Dags kallar sig „Jafnaðarmannaflokk Íslands“. Mér sýnist að Dagur ætti að sækja um inngöngu í Sjálfstæðisflokkinn, alveg eins og Katrín Jak,“
segir Einar Steingrímsson stærðfræðingur, sem er afar virkur í þjóðmálaumræðu sem og í athugasemdakerfum alnetsins, ekki síst á Pírataspjallinu.
Efling hefur einnig tjáð sig á Facebook um orð borgarstjóra og sakar hann um að tala út og suður:
„Telur borgarstjóri yfirleitt hægt að hækka lægstu laun umfram önnur laun, eins og lífskjarasamningurinn gerir ráð fyrir? Eða telur borgarstjóri það fyrirframgefinn ómöguleika sökum þess að hærra launaðir muni ávalt krefjast óbreytts launabils?Þetta eru áleitnar spurningar og svör borgarstjórans benda sitt í hvora áttina. Borgarstjóri gagnrýnir aðra fyrir forystuleysi. Kanski veltur svarið við þessum spurningum einmitt á því hvort að þeir sem gera kjarasamninga eru tilbúnir að taka forystu.“
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreininga, tjáði sig einnig í athugasemd á Pírataspjallinu um málið og segist ósammála borgarstjóra:
„Tilvist manna í skóla er sjaldan merkilegri en tilvist manna utan skóla og reynsla sem menn öðlast í skóla er sjaldan mikilvægari en sú sem fæst utan skóla,“
segir Kári og leggur til að nemendum verði greidd lágmarkslaun meðan þeir eru í háskólanámi og síðan verði laun ekki lengur tengd menntun, heldur ábyrgð og afköstum.
Ingibjörg nokkur, samflokkskona borgarstjóra, taggar borgarstjóra í færslu sinni og segir að hann sé ófær um að vinna sína vinnu:
„Segðu mér Dagur B. Finnst þér þú eiga skilið tvær milljónir á mánuði fyrir allt klúðrið hjá Reykjavíkurborg í þinni stjórnartíð? og hvern andskotann hefur þú og stjórnmálamenn almennt að gera við svona há laun, en þurfa aðstoðarmenn hægri vinsti sem skattgreiðendur borga fyrir og svo nýjasta hneykslið. RÁÐGJÖF hjá hinum ýmsu prelátum. Til hvers eruð þið að bjóða ykkur fram til verka sem þið eruð fullkomlega ófær um að ynna af hendi. Ég vona að þessum reiðilestri mínum verði dreift sem víðast og þú sem vinur minn hér á FB og flokksfélagi svarir heiðarlega.“