fbpx
Miðvikudagur 01.janúar 2025
Fréttir

Rannsakaði glæpi Stalíns og var ákærður fyrir vörslu barnakláms

Fundu fjöldagrafir í skógi – „Pólitískur fangi,“ segja stuðningsmenn

Kristinn H. Guðnason
Laugardaginn 19. ágúst 2017 17:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Árið 1937, fyrir 80 árum, var það blóðugasta á ferli sovéska einræðisherrans Jósefs Stalín. Það ár voru um 1.000 manns myrt af stjórnvöldum á hverjum degi í hreinsunum sem nefndar hafa verið „ógnin mikla“. Fólk var sent í útlegð, fangelsað í gúlaginu, dæmt til þrælavinnu, rekið landshorna á milli, það missti heimili sín og réttindi. Þetta fólk var nefnt „óvinir fólksins“ ásamt mökum, börnum og fjölskyldum þess.

Sigdældir vísuðu veginn

Í Karelíuhéraði í norðvesturhluta Rússlands, milli Onegavatns og finnsku landamæranna, liggur risavaxinn skógur sem nefnist Sandarmokh. Árið 1997 fundust þar fjöldagrafir fórnarlamba Stalíns fyrir tilstuðlan samtakanna Memorial. Fólkið í samtökunum hefur rannsakað voðaverk Stalíns og berst fyrir því að halda minningu fórnarlamba hans á lofti.

Það voru Yuri Dmitriev og Irina Flige sem fundu grafirnar á sínum tíma. Vísbendingar leiddu þau til Sandarmokh og það eina sem þau þurftu að gera var að finna ílangar dældir í landslaginu. Öryggislögregla Stalíns, NKVD, lét grafa ílangar holur í skóginum. Þá voru fórnarlömbin flutt í þangað, látin krjúpa við bakka holunnar og skotin í hnakkann. Loks var grafið yfir og gröfin skilin eftir ómerkt því að ódæðið átti aldrei að komast upp. En þegar lík byrja að rotna og brotna upp í jarðveginum myndast dæld í landslaginu.

Alls hafa fundist líkamsleifar um 9.500 fórnarlamba Stalíns í Sandarmokhskógi. Þetta er fjölbreyttur hópur af alls 60 þjóðernum. Fólkið var flutt úr Solovkigúlaginu sem staðsett var á hinum afskekktu Solovetskyeyjum í Hvítahafi, árin 1937 og 1938. Samtökin Memorial minnast þessara fórnarlambanna árlega, þann 5. ágúst, og komið var upp minnisvarða með áletrun Dmitrievs; „Fólk, ekki drepa hvert annað!“

Sovétnostalgía Pútíns

Dmitriev, sem er sagnfræðingur, hefur rannsakað hreinsanir Stalíns í þrjá áratugi. Hann hefur gefið út bækur með nöfnum 13.000 fórnarlamba en þar koma einnig fram dagsetningar aftaka og aftökustaðir. Þá kom hann á laggirnar gagnagrunni þar sem finna má nöfn 40.000 útsendara Stalíns sem báru samanlagt ábyrgð á einni milljón morðum. Hann segir störf sín og Memorial-samtakanna mikilvæg fyrir samtíðina. „Við verðum að fræða fólkið til þess að stjórnvöld taki ábyrgð á gjörðum sínum.“

Yan Rachinsky, félagi hans hjá Memorial segir: „Ef einhver minnist á þessi fórnarlömb í dag, er talað eins og þau hafi farist í einhverjum náttúruhamförum. Jarðskjálfta eða flóðbylgju.“ Rússland hafi aldrei axlað ábyrgð á þessum glæpum líkt og Þjóðverjar gerðu með helförina eftir sameiningu Þýskalands. Hann segir að fjölskyldur fórnarlambanna lifi enn þá í skömm. „Eins og fórnarlömbin hljóti að hafa átt þetta skilið.“

„Ef einhver minnist á þessi fórnarlömb í dag, er talað eins og þau hafi farist í einhverjum náttúruhamförum. Jarðskjálfta eða flóðbylgju.“

Þegar Nikita Khrushchev tók við völdum í Sovétríkjunum árið 1953 hóf hann að vinda ofan af stalínismanum og lét rannsaka umfang hinna miklu hreinsana. Hann gagnrýndi meira að segja stefnu Stalíns í ræðu en sú ræða var flutt á lokuðu þingi kommúnistaflokksins. Sjaldan var talað hátt um glæpi Stalíns á meðan Sovétríkin lifðu.

Eftir að Sovétríkin liðuðust í sundur varð Stalín táknmynd hins mikla oks sem íbúar Rússlands voru lausir undan. En eftir að Vladimír Pútín komst til valda hefur þjóðerniskennd og sovétnostalgía skipulega verið efld og Stalín sýndur sem mikill leiðtogi sem sigraði Hitler og iðnvæddi landið.

Pútín hefur sagt að þeir sem geri of mikið úr voðaverkum Stalíns séu að ráðast á Rússland og minningu Sovétríkjanna. Ný minnismerki um Stalín hafa risið víða í Rússlandi og í nýlegri könnun var einræðisherrann fyrrverandi valinn „mest framúrskarandi maður allra tíma“. Samtök eins og Memorial eru fyrirstaða í þessari minningarherferð og því hafa margir meðlimirnir verið stimplaðir sem útsendarar erlendra ríkja.

Myndaði dóttur sína

Yuri Dmitriev missti af minningarathöfninni í Sandarmokhskógi í fyrsta sinn nú í ágúst. Ástæðan er sú að hann situr bak við lás og slá, grunaður um vörslu barnakláms. Dmitriev var handtekinn 13. desember síðastliðinn og kærður 21. apríl. Réttarhöldin hófust þann 1. júní en þau eru lokuð almenningi og erfitt að fá vitneskju um hvað fer þar fram.

Dmitriev er sakaður um að hafa tekið níu ósæmilegar ljósmyndir af 12 ára gamalli fósturdóttur sinni, Natöshu, sem hann og eiginkona hans ættleiddu af munaðarleysingjaheimili þegar hún var þriggja ára. Þá er hann einnig sakaður um að hafa haft í fórum sínum ólöglegt skotvopn, 60 ára gamlan, ónýtan veiðiriffil sem hann fann við rannsóknir sínar.

Að sögn Dmitrievs eru ljósmyndirnar alls ekki klámfengnar. Þegar hjónin ættleiddu Natöshu var hún mjög vannærð og heilsulítil. Hjónin voru beðin um að fylgjast vel með henni og Yuri hélt nákvæmar skýrslur um heilsufar hennar. Myndirnar sem lagt var hald á fundust í möppu sem bar heitið „Heilsa barnsins“. Ásamt myndunum voru þar upplýsingar um hæð hennar, þyngd og almennt heilsufar yfir margra ára skeið. Yuri tók ljósmyndirnar fyrir fundi með félagsráðgjöfum sem höfðu eftirlit með ættleiðingunni.

Undirskriftasöfnun

Skömmu eftir að Dmitriev var handtekinn birtust fréttir víða á netsíðum og samfélagsmiðlum um að hann væri barnaníðingur. Fjöldi þeirra og tímasetningar þykja benda til þess að um skipulagða ófrægingarherferð sé að ræða og þá væntanlega af hálfu rússneskra stjórnvalda.

Dmitriev hefur þó einnig sína stuðningsmenn sem hafa látið í sér heyra varðandi mál hans og þeir eru sannfærðir um að hann sé pólitískur fangi. Safnast hafa rúmlega 30.000 undirskriftir honum til stuðnings á síðunni change.org. Þar segir:

Minningunni haldið á lofti.
Stalín Minningunni haldið á lofti.

Mynd: EPA

„Lög voru þverbrotin við rannsókn þessa máls. Yuri Dmitriev og lögfræðingur hans fengu ekki að sjá niðurstöður rannsóknarinnar og þeir fengu ekki að kalla til eigin sérfræðinga til að meta gögnin. Aðkoma þeirra sérfræðinga sem valdir voru af ákæruvaldinu vekur upp grunsemdir um hlutdrægni. Þeir sem mátu gögnin voru stærðfræðingur, barnalæknir og listasögufræðingur. Enginn kynfræðingur, sálfræðingur eða ljósmyndafræðingur var valinn. Samkvæmt sjálfstæðri sálfræðirannsókn á Dmitriev sjálfum kom í ljós að hann ber engar girndir til barna.“

Áætlað er að dómur verði kveðinn upp í málinu þann 1. september næstkomandi. Verði Dmitriev fundinn sekur gæti hann átt allt að 15 ára fangelsisdóm yfir höfði sér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Völva DV – Íþróttasigrar, hlé á eldgosum og vinsælar valkyrjur

Völva DV – Íþróttasigrar, hlé á eldgosum og vinsælar valkyrjur
Fréttir
Í gær

Dreifa gjafabréfum til barna fyrir hlífðargleraugum

Dreifa gjafabréfum til barna fyrir hlífðargleraugum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Byggingaráform Samkaupa valda ólgu á Siglufirði – „Óafturkræft skipulagsslys“

Byggingaráform Samkaupa valda ólgu á Siglufirði – „Óafturkræft skipulagsslys“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Íbúar í Garði uggandi vegna framkvæmdar í Gaukstaðalandi – Óttast annað „Árskógaslys“

Íbúar í Garði uggandi vegna framkvæmdar í Gaukstaðalandi – Óttast annað „Árskógaslys“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Maciej var brosmildur og hjartahlýr drengur úr Árbænum – Hann lést í hræðilegu umferðarslysi á Ítalíu

Maciej var brosmildur og hjartahlýr drengur úr Árbænum – Hann lést í hræðilegu umferðarslysi á Ítalíu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Jimmy Carter látinn

Jimmy Carter látinn