fbpx
Sunnudagur 24.nóvember 2024
Eyjan

Ráðning Stefáns sögð pólitísk flétta og blekkingarleikur -„Sjálfstæðisflokkurinn vinnur“

Ritstjórn Eyjunnar
Miðvikudaginn 29. janúar 2020 09:54

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ráðning Stefáns Eiríkssonar í starf útvarpsstjóra hefur vakið mikla athygli. Stefán fær almennt góðar viðtökur, en svo eru þeir sem vilja meina að ráðningin sé pólitísk.

Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins reið á vaðið í gær og sagði að hlutleysi fréttastofu RÚV væri ógnað í umfjöllun um borgarmál, þar sem Stefáni og borgarstjóra væri vel til vina. Virtist sem hún málaði Stefán Samfylkingarlitum.

Engin tilviljun

Gunnar Smári Egilsson, fjölmiðlamaður og sósíalistaforingi, telur hinsvegar að Stefán sé gerður út af Sjálfstæðisflokknum í pólitískri fléttu og það hafi ekki verið tilviljun hvaða þrír einstaklingar hafi komist lengst í ráðningarferlinu:

„Þið sem viljið trúa á tilviljanir, að það sé ætíð tilviljun að Sjálfstæðisflokksmaður sé ráðinn útvarpsstjóri, hvað finnst ykkur um þessa tilviljun: Þegar látið var sem valið um stöðuna stæði milli þriggja umsækjenda voru þessi eftir: Kolbrún Halldórsdóttir, fyrrum þingmaður VG, Karl Garðarsson, fyrrum þingmaður Framsóknar, og Stefán Eiríksson, sonarsonur Stebba Mogga á Akureyri, Vökustaur og augasteinn Björns Bjarnasonar þegar þeir voru í dómsmálaráðuneytinu. Til að hjálpa ykkur minni ég á að í ríkisstjórn eru áðurnefnt VG, áðurnefndur Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkurinn, sem margt fólk hér á Facebook vill halda fram að Stefán tengist bara ekki neitt,“

segir Gunnar Smári.

Samsæri hægri manna

Gunnar segir það enga tilviljun að umrætt fólk hafi valist til úrslita:

„Hugsið þetta aðeins. Hvað gerðist frá því að þessi þrjú voru ein eftir af umsækjendum og þangað til Stefán var valinn?“

Gunnar segir að fulltrúar annarra flokka í útvarpsráði hafi fallið fyrir „uppgerðargagnrýni“ Sjálfstæðisflokksins á RÚV, en sem kunnugt er hafa sjálfstæðismenn á borð við Björn Bjarnason, Óla Björn Kárason, Davíð Oddsson og Hannes Hólmstein verið virkir í gagnrýni sinni á RÚV í gegnum árin, ásamt öðrum. Það virðist hinsvegar vera eitt stórt samsæri, að mati Gunnars Smára.

Kartöflutrixið

Gunnar segir hina flokkana líka hafa fallið fyrir kartöflutrixinu svokallaða:

„Svo féllu þau líka fyrir sama trixi og notað er til að fá börn til að borða kartöflur, hvort viltu fá þessa (stór kartafla) eða þessa (miðlungs kartafla)? Hvort viljið þið Svanhildi Hólm eða Stebba? Stebba! hrópuðu hin hugumhryggu og gengu frá borði og sigurreif. Sjálfstæðisflokksfólkið hló hins vegar alla leiðina upp í Valhöll,“

skrifar Gunnar og útskýrir nánar:

„Líklega var Svanhildur stóra kartaflan sem heimsku flokkarnir í stjórnarandstöðunni áttu að hafna, benda svo á miðlungs kartöfluna sannfærð um að þeir hefðu sjálfir valið hana. Markmiðið var að láta þá borða kartöflu.“

Þarna vísar Gunnar til þess að á tímabili var talið að Svanhildur Hólm Valsdóttir, aðstoðarmaður Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, myndi hljóta starfið, þar sem hún væri í réttum flokki, hefði reynslu af fjölmiðlum, væri af réttu kyni og staðfesti að hún hefði sótt um stöðuna.

Flokkspólitísk atkvæðagreiðsla útvarpsráðs

Gunnar segist hafa heimildir fyrir því hvernig atkvæði féllu um ráðninguna í útvarpsráði og þar hafi flokkapólitíkin ráðið för:

„Samkvæmt mínum heimildum var valið fyrst og fremst milli Stefáns Eiríkssonar og Kolbrúnar Halldórsdóttur. Þegar atkvæði voru greidd féllu þau þannig:

Kolbrúnu völdu fulltrúar VG (Jón Ólafsson og Elísabet Indra Ragnarsdóttir), fulltrúi Samfylkingar (Mörður Árnason) og fulltrúi Pírata (Lára Hanna Einarsdóttir). Þetta er vinstri hluti útvarpsráðs,“

segir Gunnar og nefnir að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Jón Jónsson (varamaður Ragnheiðar Ríkharðsdóttur) og Brynjólfur Stefánsson, sem og Kári Jónasson, fulltrúi Framsóknar og líka fulltrúi Viðreisnar, BIrna Þórarinsdóttir hafi kosið með Stefáni. Fulltrúi Miðflokksins hafi setið hjá:

„Þetta er hægri hluti útvarpsráðs. Atkvæði féllu því þannig að Kolbrún fékk fjögur frá vinstri og Stefán fjögur frá hægri. Þá gildir atkvæði formanns sem oddaatkvæði og formaðurinn er framsóknarmaðurinn Kári Jónasson. Þegar þetta lá fyrir komst ráðsfólk að því að þetta væri ekki góð staða fyrir Ríkisútvarpið að þessir flokkadrættir yrðu opinberir og ljóst væri að Stefán hefði verið ráðinn með veiku umboði hægri flokkanna. Til skaðaminnkunar féllst fólk því á að samþykkja ráðningu Stefáns með nýrri atkvæðagreiðslu þar sem hún var samþykkt mótatkvæðalaust.“

Gunnar segir því engan vafa um að Stefán sé á vegum Sjálfstæðisflokksins í Efstaleitinu:

„Það ætti því enginn að velkjast í vafa um á hvaða vegum Stefán kemur upp á Ríkisútvarp. Sjálfstæðisflokkurinn vinnur enn einu sinni stól útvarpsstjóra, hefur haldið honum frá 1985. Kolbrún hefði verið eins og ferskur vindur eftir öll þau ár. En því miður er vinstrið bara ekki sterkara en þetta. Sjálfstæðisflokkurinn vinnur.“

Kjaftaklöppin

Guðmundur Andri Thorsson, þingmaður Samfylkingarinnar, tekur lítið mark á slíkum kenningum um meinta flokkadrætti:

„Ég hef lesið margt hér á Kjaftaklöppinni um Stefán Eiríksson væntanlegan útvarpsstjóra – hann sé „innmúraður Sjálfstæðismaður“ – hann sé Framsóknarmaður – hann sé af Brekkunni á Akureyri – hann sé í klíkunni eða „eigi frænku í hirðinni“ og fái starfið þess vegna. Ég held að stjórn Ríkisútvarpsins standi að þessari ráðningu af heilindum, svo vel þekki ég til starfa Kára Jónassonar fyrrum fréttastjóra útvarps að ég veit að fyrir honum vakir að fá mann sem stendur vörð um sjálfstæði stofnunarinnar gagnvart ásælni stjórnmálamanna.“

Guðmundur telur að Stefán hafi margt til brunns að bera sem stjórnandi og óskar honum velfarnaðar, en finnur það helst að ráðningu Stefáns að hann sé ekki kona og hafi ekki þekkingu á starfsemi RÚV:

„Ég verð samt að játa að ég held að ráðningarfræðin geri of mikið úr „stjórnun“ sem sérstöku fagi en líti að sama skapi framhjá þekkingu á eiginlegri starfsemi stofnunarinnar. Og óneitanlega er viss kynjahalli í sögu þessa starfs: átta eða níu karlar og engin kona.“

Fyrsti lögfræðingurinn

Björn Bjarnason, sem lengi hefur gagnrýnt RÚV, óskar Stefáni velfarnaðar í starfi og telur menntun hans sem lögfærðings til tekna:

„Stefán Eiríksson borgarritari er nýr útvarpsstjóri. Í fyrsta sinn í 90 ára sögu ríkisútvarpsins situr lögfræðingur á stóli útvarpsstjóra. Þar að auki lögfræðingur með langa reynslu af framkvæmd stjórnsýslulaga auk þess að hafa stjórnað lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og reynt á eigin skinni hve viðkvæmt og erfitt ástand skapast innan stjórnsýslunnar vegna óvandaðs fréttaflutnings, til dæmis í ríkisútvarpinu sem hreykir sér af því að njóta mesta trausts íslenskra fjölmiðla.“

Þá hnýtir Björn í dagskrárgerðarmann á RÚV og virðist mana hann til að halda því fram að Stefán sé Sjálfstæðismaður:

„Eiríkur Guðmundsson, dagskrárgerðarmaður á ríkisútvarpinu, boðaði á Facebook að til uppreisnar kæmi innan opinbera hlutafélagsins, RÚV ohf., ef sjálfstæðismaður yrði ráðinn útvarpsstjóri. Nú reynir á Eirík og aðra uppreisnarsinna. Til hvaða stjórnmálaflokks telja þeir Stefán?“

 

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Arion banki sá að sér eftir að upp úr sauð á Fjármálatips

Arion banki sá að sér eftir að upp úr sauð á Fjármálatips
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Gunnar bendir á sláandi staðreynd um stýrivextina – „Hvergi í veröldinni er auður hinna ríku varinn af eins miklum ákafa“

Gunnar bendir á sláandi staðreynd um stýrivextina – „Hvergi í veröldinni er auður hinna ríku varinn af eins miklum ákafa“