Tómas Guðbjartsson, skurðlæknir og náttúruverndarsinni, segir það góðar fréttir fyrir íslenska náttúru að Rio Tinto í Straumsvík hafi ákveðið að minnka framleiðslu sína á þessu ári, en fyrirtækið hyggst aðeins framleiða 184 þúsund tonn af áli á þessu ári samanborið við 212 þúsund tonn í fyrra.
Segir hann álverið í „líknandi meðferð“ og gæti nýst við „líffæragjöf“ en fyrirtækið hefur átt í miklum rekstrarvanda á síðustu árum.
Formenn verkalýðsfélaga hafa lýst yfir áhyggjum af stöðunni sem kunni að snerta sína félagsmenn ef til uppsagna komi, en Tómas segir þetta góðar fréttir fyrir komandi kynslóðir, þar sem álverið muni kaupa 15% minna af orku frá Landsvirkjun:
„Þetta er engin smá orka sem um ræðir – eða í kringum 50 MW – sem jafngildir nánast allri þeirri orku sem Hvalárvirkjun á að skila inn í raforkukerfið – kerfi sem þegar er ofalið. Þessar fréttir eru því góðar fréttir fyrir íslenska náttúru – og þá sérstaklega fossa og jarðhitasvæði sem vonandi fá að vera í friði fyrir komandi kynslóðir.“
Tómas var gestur Silfursins á RÚV í gær hvar hann ræddi þetta einnig:
„Komst ég þannig að orði að Straumsvík sé sennilega komin á líknandi meðferð. Þetta þýðir á læknamáli að lækning sé ekki lengur í boði. Starfsmenn verksmiðjunnar og bæjaryfirvöld í Hafnarfirði þurfa því að búa sig undir það að hvorki verði beitt hjartahnoði né adrenalíni við frekari hjartsláttaróreglu,“
segir Tómas og er óspar á læknasamlíkingarnar.
Hann segir þetta eflaust snerta suma illa, en vonandi verði það aðeins tímabundið og engin ástæða sé til að örvænta. Hann telur ýmsa möguleika á annarri starfsemi á svæðinu:
„Þarna geta leynst miklu meiri möguleikar og ábatasamari en að bræða ál. Lóðin er einhver sú dýrmætasta á höfuðborgarsvæðinu og nú getur Landsvirkjun beitt sér fyrir sölu á raforku til annarrar og uppbyggilegri starfsemi, t.d. grænmetisbænda og flýtt fyrir rafvæðingu bíla- og skipaflotans. Um leið ætti Landsvirkjun að lækka verð á toppafli til HS Orku – sem um leið yrði líkkistunagli í þá annars óhagstæðu og gerræðislegu framkvæmd. Straumsvík, sem nú er farin að lýjast en var kláralega framfaraskref fyrir hálfri öld – gæti því orðið eins konar líffæragjafi fyrir aðrar atvinnugreinar og sérstaklega víðerni landsins.“
Sjá einnig: Óttast uppsagnir:„Auðvitað ber maður kvíðboga gagnvart stöðu starfsfólks“