Hafrún Kristjánsdóttir, sálfræðingur og deildarforseti hjá Háskólanum í Reykjavík, varar við fúskurum sem leitast eftir að taka í meðferð fólk með sálrænan vanda án þess að hafa til þess menntun, þekkingu og réttindi. „Verst er að þetta fólk sem hefur hvorki menntun né reynslu til að meðhöndla sálrænan vanda virðist upp til hópa með sérstakan áhuga á að meðhöndla áfallastreitu. Það er sérstaklega vont því að ef réttum aðferðum er ekki beitt er mikil hætta á að gera vanda þess sem þjáist af áfallastreitu enn verri síðar meir,“ skrifar Hafrún í löngum pistli á Facebook.
Hafrún segir að grundvallaratriði sé að sá sem fólk leitar meðferðar hjá vegna sálræns vanda sé heilbrigðisstarfsmaður. Þá sé a.m.k. tryggt að viðkomandi starfi undir Landlækni og siðareglum stéttarinnar. Ekkert eftirlit sé með þeim sem ekki hafi réttindi sem heilbrigðisstarfsmenn og því geti skjólstæðingar þeirra ekki leitað réttar síns ef brotið er á þeim. Hafrún skrifar síðan:
„Það að vera heilbrigðisstarfsmaður er þó engin trygging fyrir því að geta meðhöndlað sálrænan vanda á árangursrikan hátt. Þrjár stéttir hafa sérmenntun og þjálfun í að meðhöndla geðraskanir. Klínískir sálfræðingar, geðlæknar og geðhjúkrunarfræðingar. Heimilislæknar fá líka flestir held ég menntun og þjálfun í meðferð geðraskanna. Aðir heilbrigðisstarfsmenn geta haft þekkingu og reynslu líka en sumar heilbrigðisstéttir vita lítið sem ekkert um geðrænan vanda. Þótt að fólk hafi sérmenntun í geðheilbrigði þýðir það ekki að það geti gert allt. Ég t.d. hef tekið marga kúrsa í barnasálfræði og veit hitt og þetta um klíníska barnasálfræði en ég hef mjög litla þjálfun í að veita meðferð eða stunda flóknar mismunagreiningar (sem eru oft forsenda fyrir meðferð). Ég veit ekki nægilega mikið um greiningu á einhverfu fullorðina og svona gæti ég lengi haldið áfram. Kannski ættu viðvörunarbjöllur á klingja í hausnum á manni ef fólk segist geta meðhöndlað hvað sem er, sérstaklega ef það er ekki hokið af reynslu.“
Hafrún ráðleggur öllum sem leita sér meðferðar vegna sálræns vanda að vera gagnrýnin við val sitt á meðferðaraðila. Enginn myndi ráða sálfræðing til að hanna burðarþolið heima hjá sér. Rafvirki myndi ekki hlusta á ráðleggingar sálfræðings um hvernig best sé að setja upp rafmagnstöflu.
Við mælum með lestri pistilsins í heild. Smellið á hér fyrir neðan: