Stefán Eiríksson, borgarritari og fyrrverandi lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu er meðal umsækjenda um starf útvarpsstjóra. Þetta fullyrðir Kjarninn eftir sínum heimildum, en Stefán sjálfur neitar að tjá sig um málið.
Er Stefán sagður í fámennum hópi fólks umsækjenda sem komnir eru áfram í ráðningarferlinu, en alls sótti 41 um starfið.
Þá segir Kjarninn að Þorsteinn Gunnarsson, fyrrverandi íþróttafréttamaður á Stöð 2 og nú sveitarstjóri í Skútustaðarhreppi, sé einnig meðal umsækjenda.
Búist er við að ráðningarferlið klárist í næstu viku, en lagt var upp með að því yrði lokið um mánaðarmótin, samkvæmt Capacent, sem heldur utan um ráðningarferlið.
Brugðið var út af þeim lögbundna vana að birta nöfn umsækjenda, með því markmiði að fá betri umsækjendur. Hins vegar var ákveðið að framlengja umsóknarfrestinn um viku, þegar sá fyrri rann út þann 2. desember.
Meðal staðfestra umsækjenda eru Svanhildur Hólm Valsdóttir, aðstoðarmaður Bjarna Benediktssonar fjármála- og efnahagsráðherra, Kristín Þorsteinsdóttir, fyrrverandi ritstjóri Fréttablaðsins, Elín Hirst, fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokks og fréttastjóri RÚV, Herdís Kjerulf Þorgeirsdóttir, doktor í lögum, Baldvin Þór Bergsson, Kolbrún Halldórsdóttir, fyrrverandi þingmaður VG og umhverfisráðherra, Baldvin Þór Bergsson, dagskrárstjóri númiðla hjá RÚV og Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, leikkona og fyrrverandi ritstjóri Kvennablaðsins.
Þá hefur Karl Garðarsson, framkvæmdastjóri Frjálsrar fjölmiðlunar og fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins einnig verið orðaður við stöðuna, en hann vildi ekki staðfesta það við Kjarnann.