Lögreglan í Suffolk birti myndina nýlega og sagði þá að líklega hafi einn og sami maðurinn myrt allt fólkið. Táknið er af svörtu belti sem lögreglan telur að tilheyri morðingjanum. Á fréttamannafundi sagði Geraldine Har, lögreglustjóri, að ekki sé talið að beltið hafi verið í eigu fórnarlambanna.
Táknið sýnir WH eða HM, allt eftir því hvernig er horft á það. Hart sagði lögregluna vonast til að einhver kannist við táknið og búi yfir upplýsingum um beltið sem það gæti hafa verið á. Lögreglan hefur opnað sérstaka vefsíðu þar sem skýrt er frá framvindu málsins.
Konurnar, sem voru myrtar, störfuðu við vændi. Lík þeirra fundust þegar leitað var að Shannon Gilbert sem hvarf 2010. Hún var 24 ára vændiskona sem hvarf eftir að hún fór frá heimili viðskiptavinar við ströndina. Lögreglan hóf þá leit á svæðinu og fann líkamsleifarnar sem höfðu legið þar lengi. Ári síðar hafði lögreglan fundið líkamsleifar átta kvenna, eins manns og stúlku. Líkamshlutar sömu fórnarlamba fundust einnig annarsstaðar á Long Island. Lík Gilbert fannst ekki fjarri 2011.
FBI hefur nú fengið lífsýni úr þeim fórnarlömbum, sem ekki hefur tekist að bera kennsl á, til rannsóknar. Vonast er til að hægt verði að kortleggja erfðamengi þeirra og finna ættingja þeirra á þann hátt.