Yrsa og Ragnar stofna til glæpasagnaverðlauna
Metsöluhöfundarnir Yrsa Sigurðardóttir og Ragnar Jónasson hafa stofnað til glæpasagnaverðlauna, Svartfuglinn, í samvinnu við Veröld. Vinningshafi þeirra gæti jafnvel orðið næsti metsöluhöfundur landsins.
Yrsa og Ragnar segjast með þessum nýju verðlaunum vilja hvetja höfunda til að spreyta sig á þessu bókmenntaformi, greiða þeim leið til útgáfu og stuðla að því að fleiri skrifi bækur á íslenskri tungu. Jafnframt vonast þau til að verðlaunin hjálpi nýjum höfundum að komast að hjá erlendum bókaforlögum.
Ragnar gefur í haust út sína níundu skáldsögu, en áður en hann fór að gefa út eigin bækur þýddi hann fjórtán glæpasögur Agöthu Christie. Bækur hans eru gefnar út á um tuttugu tungumálum. Verk hans hafa verið tilnefnd til fjölda verðlauna og hlaut hann Mörda-verðlaunin fyrir bestu þýddu glæpasöguna í Bretlandi í fyrra.
Yrsa gefur í haust út sína þrettándu glæpasögu. Bækur hennar koma út á yfir þrjátíu tungumálum. Hún hefur hlotið margvísleg verðlaun fyrir glæpasögur sínar, sem dæmi má nefna Blóðdropann – Íslensku glæpasagnaverðlaunin, Dönsku glæpasagnaverðlaunin og Petrona-verðlaunin fyrir bestu norrænu glæpasöguna í Bretlandi.
Svartfuglinn verðlaunin verða veitt fyrir handrit að áður óbirtri glæpasögu og er við það miðað að sagan komi út hjá Veröld í upphafi Viku bókarinnar í apríl ár hvert. Verðlaunin nema 500.000 krónum auk hefðbundinna höfundarlauna samkvæmt rammasamningi Félags íslenskra bókaútgefenda og Rithöfundasambands Íslands. Einnig fær sá sem ber sigur úr býtum sérstakan verðlaunagrip.
Yrsa og Ragnar skipa dómnefndina ásamt Bjarna Þorsteinssyni, útgáfustjóra Veraldar. Handritum skal skilað í þríriti til Veraldar að Víðimel 38, 107 Reykjavík, fyrir 1. janúar næstkomandi. Þau eiga að vera merkt dulnefni en rétt nafn höfundar fylgi með í lokuðu umslagi. Höfundurinn má ekki hafa gefið út glæpasögu áður. Komist dómnefndin að þeirri niðurstöðu að ekkert handrit uppfylli kröfur hennar getur hún ákveðið að veita ekki verðlaunin það ár.