fbpx
Sunnudagur 29.desember 2024
Fréttir

Gísli var pyntaður og barinn – Skothvellir á bráðamóttökunni – „Þeir beindu hríðskotabyssum að hausnum eða hálsinum á manni“

Máni Snær Þorláksson
Þriðjudaginn 14. janúar 2020 12:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í fjóran og hálfan mánuð var Gísli H. Sigurðsson, svæfinga- og gjörgæslulæknir, í lífshættu en hann starfaði sem yfirlæknir í Kúveit þegar Írak réðst inn í landið árið 1991.

Á Mubarak Al Kabeer-háskólasjúkrahúsinu var Gísli yfirlæknir svæfinga- og gjörgæsludeildar í rúmlega 5 ár. Í viðtali við Læknablaðið segir Gísli að síðustu mánuðirnir í starfinu hafi verið engu líkir. „Ég var margoft í lífshættu. Oft var ég með byssukjafta í andlitinu. Maður vissi aldrei hvernig það myndi enda,“ segir Gísli. „Í þessu áður friðsæla landi var fólk skotið á staðnum fyrir smáræði, hvort sem var inni á spítalanum eða fyrir utan. Tilviljun réði því iðulega hver var tekinn.“

Gísli segir frá því hvernig ástandið var á spítalanum í kjölfar innrásarinnar. „Inni á spítalanum var oft kaos þessa mánuði, sérstaklega þegar íraskir hermenn komu með yfirmenn sína sem höfðu orðið fyrir skoti frá leyniskyttum Kúveita,“ segir Gísli. „Stundum var skotið á bráðamóttökunni. Fyrst og fremst upp í loftið til að hræða okkur: Ef þið bjargið honum ekki þá verðið þið skotnir,“ segir hann og bætir við að sumir hafi verið látnir við komuna. „Þá urðum við að setja líkið á sjúkrabörur og fara með það í hvelli inn á skurðstofu og þykjast endurlífga þar til náðist í íraska herlækninn sem hafði verið skipaður sjúkrahússforstjóri.“

„Þeir voru oft mjög æstir og beindu hríðskotabyssum að hausnum eða hálsinum á manni.

Gísli fór til Kúveit á vegum Háskólasjúkrahússins í Lundi í Svíþjóð í gegnum starfssamning. Tveimur vikum eftir að ráðist var inn í landið var sjúkrahúsið sem Gísli starfaði á það eina í landinu með fulla starfsemi. Gísli var eini Vesturlandabúinn sem var eftir á sjúkrahúsinu. Hann hafði sérstakt skírteini frá íranska sjúkrahússforstjóranum sem fyrirskipaði að ekki mætti handtaka Gísla án þess að hafa fyrst samband við sig.

„Ég var samt 11 sinnum tekinn til fanga og yfirheyrður klukkutímum saman. Stundum pyntaður. Ef ég þurfti að fara eitthvað út fyrir spítalann voru allsstaðar eftirlitsstöðvar mannaðar lítt þjálfuðum hermönnum. Þeir voru margir ólæsir, óskrifandi og illa þjálfaðir en þeir vissu að taka ætti alla hvíta menn fasta. Þeir myndu fá verðlaun ef þeir fyndu slíka. Þeir voru oft mjög æstir og beindu hríðskotabyssum að hausnum eða hálsinum á manni. Maður vissi ekki nema þeir myndu í stressinu drepa mann óvart.“

Í viðtalinu lýsir Gísli óhugnanlegu atviki sem átti sér stað á einni eftirlitsstöðinni. „Vestræn hjón voru skotin til bana. Þau höfðu ekki áttað sig á að þau áttu að hægja á bílnum löngu áður en þau komu á stöðina. Þeir skutu bílstjórann, manninn, og síðan konuna þegar bíllinn kom rennandi inn á stöðina. Það voru mörg svipuð tilfelli.“

Deyfði sjálfan sig eftir pyntingarnar

Gísli segir hættuna hafa verið mesta í yfirheyrslunum þegar yfirmennirnir voru ekki á staðnum. „Ég var því oft laminn og barinn því hermennirnir á varðstöðvunum skildu mig ekki og gátu ekki lesið skírteinið mitt frá spítalanum. En þegar vel þjálfaðir og upplýstir leyniþjónustumenn komu að borðinu, greinilega breskþjálfaðir, varð hættan minni.“

Menn írönsku leyniþjónustunnar voru vel að sér en þeir komust að því að Gísli hafi stundað nám í Bandaríkjunum nálægt stað þar sem sérsveitarmenn bandaríska landhersins voru þjálfaðir. „Þeim fannst það skrýtin tilviljun,“ segir Gísli. „Þeir voru með afrit af skólapassanum í fyrstu yfirheyrslunni og þar stóð að ég væri með lífstíðarvegabréfsáritun til Bandaríkjanna,“ segir hann en leyniþjónustumennirnir höfðu ekki séð það áður.

Gísli fékk áverka eftir pyntingarnar. „Stundum rifbrot. Svo var ég að sprauta staðdeyfilyfi sjálfur í brotin, því ég varð að sjást á spítalanum án veikleika og gat ekki látið vita að ég væri í vandræðum. Erfiðast var að sauma sjálfur gat á hausnum á mér með því að horfa í spegil.“

Þegar Gísli hafði verið tekinn þrisvar í yfirheyrslu á þremur dögum fann hann að það væri bara tímaspursmál hvenær hann yrði látinn hverfa, hann vissi of mikið. Hann var eini Vesturlandabúinn sem hafði orðið vitni að mörgu sem íraska setuliðið hafði gert við almenna borgara á svæðinu. Hann var orðinn verulega smeykur og fékk aðstoð sænska sendiherrans til að komast frá Kúveit.

„Við urðum að taka stórar ákvarðanir, hverjum við gætum bjargað og hverjum ekki“

Gísli segir frá því að hann hafi getað farið fyrr frá landinu en hann kaus frekar að hjálpa til. „Margir hjúkrunarfræðingar og læknar frá Miðausturlöndum og Asíu, sem störfuðu á háskólaspítalanum, máttu yfirgefa landið, en vildu vinna áfram meðan ég, yfirmaður þeirra, var þar. Tryggð við yfirmann var ótrúlega sterk á deildinni. Ég vissi að ef ég færi myndu flestir starfsmenn þessarar lykildeildar á spítalanum einnig yfirgefa landið.“

Á þessu ófriðartíma gat spítalinn haldið áfram að veita faglega þjónustu og er Gísli stoltur af því. „Við vorum vel undirbúin fyrir hópslys og gátum tekið á móti allt að 32 illa slösuðum í einu án meiriháttar vandræða,“ segir hann. „Það þykir mikið fyrir hvaða spítala sem er.“

Þó höfðu orðið miklar breytingar á vinnu spítalans. Gísli þurfti að taka erfiðar ákvarðanir ásamt öðru starfsfólki. „Við urðum að taka stórar ákvarðanir, hverjum við gætum bjargað og hverjum ekki. Hverjir fengju verkjalyf, súrefni og frið til að deyja á meðan við þjónuðum þeim sem áttu séns á að lifa af.“

Viðtalið við Gísla í Læknablaðinu í heild sinni.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Mótmælir lokun áfengisnetsölu – „Lögreglan hefur beitt okkur óhóflegu valdi“

Mótmælir lokun áfengisnetsölu – „Lögreglan hefur beitt okkur óhóflegu valdi“
Fréttir
Í gær

Tilkynnti Hákoni óvænt að hann þyrfti að segja upp störfum – „Honum var refsað fyrir að taka of stór skref“

Tilkynnti Hákoni óvænt að hann þyrfti að segja upp störfum – „Honum var refsað fyrir að taka of stór skref“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Steingrímur rifjar upp örlagaríka för á hamfarasvæði – „Og ekkert varð aftur eins“

Steingrímur rifjar upp örlagaríka för á hamfarasvæði – „Og ekkert varð aftur eins“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Þyrla kölluð til vegna áreksturs í Öræfum – Tveir með áverka

Þyrla kölluð til vegna áreksturs í Öræfum – Tveir með áverka
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Björguðu þaki á hlöðu á bæ rétt suður af Hvolsvelli

Björguðu þaki á hlöðu á bæ rétt suður af Hvolsvelli
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Tókst að koma bát aftur að bryggju í hvassviðrinu

Tókst að koma bát aftur að bryggju í hvassviðrinu