Hafrún Kristjánsdóttir, sálfræðingur og sviðsstjóri Íþróttasviðs HR lýsir svakalegum aðstæðum á bráðamóttöku landsspítalans í pistil sem hún birti á Facebook í dag. Hafrún notar orðið disaster til að lýsa ástandinu, en hún hefur farið á bráðamóttökuna í nokkur skipti með nánum ættingja undanfarið.
„Síðastliðna 12 mánuði hefur náinn ættingi lagst 5x inn á bráðamóttöku LSH og kjölfarið inn á mismunandi deildir. Ég er mjög þakklát fyrir það inngrip sem hann hefur fengið í þau skipti sem hann hefur komið. Líklega hefur það orðið honum til lífs oftar en einu sinni. Að því sögðu þá er skoðun mín eftir að hafa eytt mjög miklum tíma á Bráðamóttökunni að ástandið þar er best lýst með orðinu dísaster, fokking dísaster.“
Hafrún segir ástandið óboðlegt fyrir alla og að vandamálin séu mörg. Hún greinir frá því þegar að uppgefinn læknir gaf henni vitlausa sjúkdómsgreiningu, sem betur fer hafi Hafrún áttað sig á því að rangt væri farið með greininguna.
„Ástandið þarna er ekki boðlegt fyrir neinn, ekki starfsfólkið, ekki aðstandendur og alls ekki sjúklingana sjálfa. Það er ekkert eitthvað eitt sem er að það er bara alveg rosalega margt. Bið eftir alvöru aðstoð getur verið ótrúlega löng. Sem dæmi: Eitt skipti komum við þarna klukkan 8 um morgun. Teknar einhverjar blóðprufur og sýni. Klukkan 18.00 um kvöldið var ekkert komið í ljós, engar niðurstöður, ekkert. Ég sat fyrir lækninum (sem var ágætis maður b.t.w.) og bað hann vinsamlegast að upplýsa mig um stöðu mála. Hann opnaði tölvu þar sem ég gat séð niðurstöður rannsókna hjá fullt af fólki ef ég kærði mig um. Hann kíkti á niðurstöðurnar og sagði mér sjúkdómsgreiningu. Ég vissi að sú sjúkdómsgreining var ekki rétt, einkennin voru bara alls ekki í takt við þann sjúkdóm og benti lækninum á það. Júbb, þetta var rétt hjá mér, hann var að skoða prufur sem teknar voru 4 mánuðum fyrr. Alveg uppgefinn bað hann mig afsökunar. Starfsfólk virðist ekki hafa tíma til að skoða sjúkrasögu fólks almennilega, upplýsingaflæðið milli starfsfólks virðist vera mjög ábótavant á köflum sem lýsir sér m.a. í því að upplýsingar sem aðstandendur og sjúklingar fá stangast stundum á í megin atriðum. Allt þetta plús umræðan sem hefur átt sér stað að undanförnu leiðir til þess að maður bara treystir bara ekki alveg starfseminni þarna og finnst maður alltaf þurfa að vera á vaktinni og double tékka allt.“
Aðstaðan er einnig stórt vandamál að mati Hafrúnar, í pistlinum lýsir hún sjúkrastofu sem ætluð er níu manns, þó hún rúmi ekki svo marga. Á stofunni er enginn gluggi og fólk fær mikilvæg og persónuleg skilaboð frá læknum fyrir framan aðra sjúklinga.
„Svo er það aðstaðan, fárveikt fólk liggur á gögnum, fyrir allra augum undir skærum ljósum á sínum verstu stundum. Ein sjúkrastofan þarna er 9 manna og hún rúmar alla 9 bara alls ekki vel. Þar er fárveikt fólk í einni klessu og sjaldan er ljósin slökt og eðlilega mikill umgangur, það þarf að sinna og tala við veikt fólk og aðstandendur líka á nóttunni. Þarna liggur fólk jafnvel í marga sólahringa. Engin gluggi, ekkert. Inn á þessari stofu eru persónuverandarlög margoft brotin. Ég hef oftar en ég kæri mig um heyrt samtal læknis og sjúklings þar sem læknir er að gefa sjúklingi sjúkdómsgreiningu, oft er verið að færa sjúklingi og jafnvel aðstandendum slæmar fréttir, slæmar fréttir sem aðrir heyra.
Sumir þurfa að vera í einangrun, þeir eru settir í gluggalaus herbergi jafnvel í nokkrar nætur sem auka líkur á rugli – engin tilfinning fyrir degi eða nótt. Eitt sinn sá ég að sjúklingur sem augljóslega var í mikilli andlegri vanlíðan var lagður inn á lazyboy stól þar sem kaffi er í boði og hægt að horfa sjónvarp. Hjúkka í vonlausri aðstöðu var að tala við konuna í hálfum hljóðum. Ég stóð bara upp til að gefa þeim aðeins meira næði, sem var nú reyndar nánast ekkert.
Þegar sjúklingur kemst svo loksins upp á deild lagast ástandið töluvert. En um leið og sjúklingur er fær um að fara einn á klósettið er hann útskrifaður jafnvel þótt að læknarnir viti og viðurkenni að viðkomandi sé í engu ástandi til þess. Ástæðan, ástandið á bráðamóttökunni! Það er einhver þar sem er enn veikari. Eftirfylgd svakalega takmörkuð, það er bara búið að redda akútástandinu.“
Að mati Hafrúnar verður að ger eitthvað í ástandinu strax, ekki eftir einhver ár. Hún segir vandamálið vera kerfið, ekki starfsfólkið. Hún segir að þeir sem tengist skipulaginu á bráðamóttökunni að hysja upp um sig buxurnar.
„Ég er búin að heyra allar skýringar á því afhverju þetta er svona, oft. Fráflæðisvandi er helsta skýringin. Allt verður betra eftir tvö ár eða eitthvað þegar búið að er byggja fleiri hjúkrunarheimili. Líklega er það rétt að um fráflæðisvanda er að ræða, amk hlýtur það að skýra eitthvað en ég bara get ekki sætt mig við þetta. Húsið er byrjað að brenna og við horfum á og ætlum að hefja slökkvistörf þegar nýi brunabílinn kemur til landsins, eftir tvö ár! Við eigum ekki og getum ekki sætt okkur við þetta. Landspítalinn er eini staðurinn sem getur sinnt bráðveikum, gjörgæslu og slíku. Það verður bara að vera í lagi með þessa þjónustu. Það er hægt að sinna allskonar hlutum annarstaðar í kerfinu, fókusinn hlýtur að vera á þessa þætti. Þetta er bara fullkomlega óboðlegt.
Að endingu vil ég segja að ég er ekki að setja út á starfsfólkið, það er bara eins og hamstrar í hjóli virðist vera. Ég er að setja út á kerfið – skipulagið. Enn og aftur, ég get ekki sætt mig við þetta. Fullt af vinum mínum hér á Facebook hafa á einhvern hátt með málefni LSH að gera. Við ykkur segi ég, hysjið upp um ykkur og gerið eitthvað í þessu… núna, ekki eftir 2 ár.“