fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Eyjan

Framboðið yrði tímabundin nauðvörn – „Risastór ákvörðun – Gallarnir eru augljósir“

Ritstjórn Eyjunnar
Föstudaginn 10. janúar 2020 14:37

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR. Mynd Hanna/DV

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Líkt og Eyjan greindi frá í morgun myndi stjórnmálaafl verkalýðshreyfingarinnar fá 23% fylgi í næstu Alþingiskosningum ef slíkt afl myndi bjóða fram, líkt og Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR hefur talað fyrir.

Kom ekki á óvart

Samkvæmt mælingu MMR fyrir VR tæki slíkur stjórnmálaflokkur atkvæði frá öllum öðrum flokkum. Ragnar Þór segir við Eyjuna að útkoman hafi ekki komið honum stórkostlega á óvart:

„Nei í sjálfu sér kom þetta ekki á óvart miðað við viðbrögðin sem ég fékk frá fólki. Það bókstaflega rigndi yfir mig viðbrögðum þegar ég viðraði hugmyndina á sínum tíma. Viðbrögðum sem voru heilt yfir gríðarlega jákvæð. Þannig að niðurstaðan er í takti við það sem ég hafði á tilfinningunni.“

Engin ákvörðun tekin enn

Hann segir enn óákveðið hvort verkalýðshreyfingin láti verða af því að stofna slíkt stjórnmálaafl, þar sem það gæti orkað tvímælis:

„Í sjálfu sér verður að koma í ljós hvort hreyfingin sé almennt á því að fara þessa leið. Hún hefur ekki tekið neina formlega afstöðu til málsins. Þess vegna er næsta skref að kynna niðurstöðurnar fyrir ASÍ og taka svo boltann þaðan,“

segir Ragnar sem telur það ekki sjálfgefið að það skref verði stigið:

„Það er erfitt að segja til um á þessu stigi. Þetta er risastór ákvörðun að taka fyrir hreyfinguna ef af framboði yrði og ljóst að meta þarf kosti og galla og stuðning baklands aðildarfélaga ASÍ áður en lengra er haldið. Góð niðurstaða könnunarinnar þýðir ekki endilega skilyrðislausan stuðning hreyfingarinnar við málið. Það hreyfingin stígi fram með þessum hætti er sannarlega tvíeggja sverð og vonast ég til að kostir og gallar hugmyndarinnar verði ræddir á vettvangi miðstjórnar ASÍ. Ég hef þegar farið fram á við Forseta ASÍ að niðurstöður verði kynntar á næsta fundi miðstjórnar.“

Augljósir gallar

Ragnar telur sjálfur grundvöll fyrir slíku stjórnmálaafli, en óttast gamla fortíðardrauga:

„Gallarnir eru augljósir. Verkalýðshreyfingin hefur eflst gríðarlega undanfarin misseri þar sem traust til hennar hefur farið frá botni upp í hæstu hæðir samkvæmt mælingum. Þetta má rekja til mikilla breytinga sem hafa orðið á forystu hreyfingarinnar enda parast mælingarnar fullkomlega við þær breytingar sem átt hafa sér stað í forystunni. Fyrri forysta var í raun mjög flokkspólitísk og tel ég það vera mikill ókostur þar sem hreyfingin sækir styrk sinn og slagkraft úr öllum flokkum og litrófi samfélagsins, hefur að mestu verið laus við flokkspólitískar skotgrafir sem aftur hefur aukið fylgi og traust til hreyfingarinnar og gefið henni slagkraft í baráttunni fyrir bættum kjörum.

Með þeim orðum er mótsögnin sú að hreyfingin er orðin nú þegar mjög áhrifamikil í íslensku samfélagi. Hættan er vissulega sú að hún tapi því mikla trausti sem hún hefur áunnið sér og gæti mögulega lent í mótsögn við sjálfa sig eins og alltaf getur orðið þegar þú ert kominn báðum megin við borðið. Þetta þekkjum við með ítök hreyfingarinnar í lífeyrissjóðunum sem eru stærstu atvinnurekendur og fjármagnseigendur landsins,“

segir Ragnar.

Tímabundin nauðvörn

Hann telur þó að kostirnir vegi þyngra en ókostirnir:

„En vegferðina og hugmyndina tel ég vera nauðvörn. Nauðvörn almennings gegn spillingu sem pólitíkin virðist ekki ná utan um eða takast á við með nokkru móti. Að ofan sögðu sé ég ekki fyrir mér verkalýðshreyfinguna sem framtíðarafl í stjórnmálum heldur tímabundna nauðvörn gegn bitlausu stjórnvaldi.“

Sjá einnig: Stjórnmálaafl verkalýðshreyfingarinnar mælist stærsti flokkurinn á Alþingi -„Þetta hljóta að vera stórfréttir“

Sjá einnigVerkalýðshreyfingin útilokar ekki stofnun stjórnmálaflokks:„Veltur svolítið á hvernig kjarasamningar fara“

Sjá einnigRagnar Þór:„Ég hef engan áhuga á þessum vinnustað“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Ole Anton Bieltvedt skrifar: „Fake News“, „Fake Stories“, eru eitt stórfelldasta og hættulegasta vandamál okkar tíma

Ole Anton Bieltvedt skrifar: „Fake News“, „Fake Stories“, eru eitt stórfelldasta og hættulegasta vandamál okkar tíma
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 dögum

Ágúst Borgþór skrifar: Er hægt að létta þessari martröð af þjóðinni?

Ágúst Borgþór skrifar: Er hægt að létta þessari martröð af þjóðinni?
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Ragnar segir tíma til kominn að þora að spyrja stóru spurninganna um lífeyrissjóðina – „Við erum þrælar eigin kerfis“

Ragnar segir tíma til kominn að þora að spyrja stóru spurninganna um lífeyrissjóðina – „Við erum þrælar eigin kerfis“
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Brynjar átti ekkert mótsvar á Grund

Brynjar átti ekkert mótsvar á Grund