Það er víða hnýttar flugur þessa dagana fyrir næsta sumar, hægt að komast á námskeið og læra að hnýta eða bara horfa á menn hnýta flugur og læra það í rólegheiltum. Ármenn og Stangveiðifélag Hafnarfjarðar bjóða uppá svoleiðis list og svo flýtur ein og ein veiðisaga með. Það þarf ekkert að örvænta. Íslenska fluguveiðiakademían kynnir námskeið í hnýtingu á klassískum laxaflugum. Á námskeiðinu ætlar hinn kunni fluguhnýtari Bjarni Róbert Jónsson að miðla reynslu sinni.
Staðsetning: Húsakynni Stangaveiðifélags Hafnarfjarðar, Flatahrauni 29, Hafnarfirði. Tímasetning: 20., 21. og 22. janúar 2020, kl. 19:00-23:00.
Athugið að námskeiðið er ekki fyrir byrjendur í fluguhnýtingum og gert er ráð fyrir að nemendur hafi náð tökum á hefðbundnum fluguhnýtingum.Námskeiðið er þrjú kvöld, fjórar klukkustundir í senn. Nemendur fá allt efni á staðnum en gert er ráð fyrir að allir mæti með eigin væs og verkfæri.Verð: 22.000 kr. námskeiðið sem er samtals tólf klukkustundir.
Bjarni Róbert er einn af þekktari fluguhnýturum landsins og hefur m.a. skrifað bækur um fagið. Hann hefur unnið til nokkurra verðlauna á þessu sviði og hefur um fjörtíu ára reynslu af flugugerð. Hann var atvinnuhnýtari í tvö ár og hélt sýningu á klassískum laxaflugum árið 1998.
Fluguhnýtingarnámskeið fyrir byrjendur
Íslenska fluguveiðiakademían kynnir byrjendanámskeið í fluguhnýtingum. Á námskeiðinu ætlar hinn kunni fluguhnýtari Sigurberg Guðbrandsson að miðla reynslu sinni. Staðsetning: Húsakynni Stangaveiðifélags Hafnarfjarðar, Flatahrauni 29, Hafnarfirði. Tímasetning: Þriðjudagana 28. janúar og 4. febrúar, kl. 19:00-21:30
Námskeiðið er tvö kvöld, 2,5 klukkustundir í senn. Þar mun Sigurberg kenna helstu handtökin við hnýtingar og nemendur munu læra að hnýta ákveðnar flugutegundir.
Sigurberg Guðbrandsson lærði sjálfur að hnýta þegar hann fór sjö ára gamall á fluguhnýtingarnámskeið og hefur hnýtt mikið alla tíð síðan. Hann fer erlendis á sýningar þar sem hann sýnir listir sínar í fluguhnýtingum og hefur hann mikla sérstöðu þegar kemur að hnýtingum á litlum laxaflugum. Hann vinnur sem leiðsögumaður í laxveiði á sumrin og eru fluguveiðar og fluguhnýtingar mikil ástríða hjá honum.
Mynd: Bjarni Róberts.