fbpx
Sunnudagur 24.nóvember 2024
Fókus

Hin guðdómlega Sarah

Sarah Bernhardt er ein frægasta leikkona allra tíma

Kolbrún Bergþórsdóttir
Mánudaginn 7. ágúst 2017 15:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sarah Bernhardt var í lifanda lífi sögð frægasta kona í sögu Frakklands, fyrir utan Jóhönnu frá Örk. Í byrjun fyrri heimsstyrjaldar var hún beðin um að yfirgefa Parísarborg því menn stóðu í þeirri trú að Þjóðverjar myndu leggja allt kapp á að taka hana sem gísl. Aðdáendur hennar kölluðu hana „hina guðdómlegu Söruh“. Þegar hún lá fyrir dauðanum safnaðist alþýða Parísarbogar saman fyrir utan heimili hennar og kraup í strætinu og bað fyrir lífi hennar.

Íhugaði að gerast nunna

Sarah Bernhardt fæddist í París árið 1844. Hún var dóttir vændiskonu sem virtist alla tíð standa á sama um dóttur sína. Sarah var heilsuveil sem barn og skortur á umhyggju og ástúð setti varanlegt mark á skapgerð hennar sem þótti bera vott um ójafnvægi og óöryggi.

Eina ástúðin sem Söruh hlotnaðist í æsku kom frá abbadís í klausturskóla þar sem hún stundaði nám. Sarah var hinn mesti vandræðanemandi og var þrisvar sinnum rekin úr skóla fyrir óknytti. Kynnin af abbadísinni sem sýndi henni móðurlega umhyggju höfðu svo mikil áhrif á Söruh að hún sagði að minningin um þessa góðu konu hefði gert sig að betri manneskju en hún hefði annars orðið. Um tíma íhugaði hún jafnvel að gerast nunna. Í stað þess steig hún á svið átján ára gömul. Með árunum óx frægð hennar jafnt og þétt og um þrítugsaldur var hún í sýningarferðum um heiminn. Hún var orðin ein dáðasta kona heims.

Málverk eftir Georges Clairin.
Leikkona sem allir dáðu Málverk eftir Georges Clairin.

Henti hundi sínum út um glugga

Sarah eignaðist son utan hjónabands. Milli þeirra mæðgina ríkti alla tíð gagnkvæm ástúð en sonurinn varð auðnuleysingi sem lifði alla tíð á móður sinni og varð ekki til mikils gagns í þessum heimi. „Hann er slæmur strákur en mér líkar vel við hann,“ sagði hin umburðarlynda móðir. Sarah giftist einu sinni, grískum aðalsmanni og eiturlyfjaætu, Damala að nafni, sem í hjónabandi niðurlægði hana opinberlega á allan hátt. Hún sagðist hafa gifst honum vegna þess að gifting væri það eina sem hún hefði átt eftir að reyna. Hjónabandið var átakamikið og þótt þau væru löngum aðskilin voru þau enn gift þegar hann lést 34 ára gamall vegna ofneyslu morfíns og kókaíns. Sarah virtist syrgja einlæglega mann sem hafði reynst henni mjög illa. Eftir dauða hans undirritaði hún öll opinber skjöl: Sarah Bernhardt, ekkja Damala.

Slúðurberar höfðu nóg við að iðja þegar Sarah átti í hlut. „Ég virðist laða að mér alla geðsjúklinga heimsins,“ sagði hún. „Ég held að engin kona hafi orðið fyrir meiri rógi og níði.“ Meðal þeirra sagna sem um hana gengu voru þær að hún svæfi í líkkistu sem fóðruð væri með bréfum frá elskhugum hennar en þeir áttu samkvæmt „áreiðanlegum heimildum“ að hafa orðið þúsund áður en yfir lauk. Meðal þeirra voru sagðir vera Napóleon III, Rússakeisari og sjálfur páfinn. Hún átti reyndar líkkistu og lét mynda sig í henni enda var hún bæði sérvitur og uppátækjasöm.

Hneykslishellur fengu aldrei nóg af því að fylgjast með þessari óvenjulegu konu.
Umtöluð Hneykslishellur fengu aldrei nóg af því að fylgjast með þessari óvenjulegu konu.

Sarah bjó yfir miklum persónutöfrum og gnægð af hjartahlýju. Hún málaði myndir, skrifaði rómantískar skáldsögur og safnaði bókum sem hún las sjaldnast. Hún hafði enga ánægju af tónlist sem hún sagði vera hávaða en samdi þó að minnsta kosti eitt píanóverk. Hún sankaði að sér dýrum og á einu ferðalagi sínu teymdi hún á eftir sér ljónsunga en neyddist til að láta hann frá sér þegar hótelin neituðu að hýsa hann. Hún var mikil skapkona og henti hundi sínum eitt sinn út um hótelglugga í bræðiskasti. Hún iðraðist þess samstundis, teygði sig út um gluggann meðan vinnukona hélt um fætur hennar þar til henni tókst að handsama hundinn sem lent hafði á sillu. Í annað skipti réðst hún inn í íbúð konu sem hafði skrifaði um hana níð, lamdi hana með svipu og gekk berserksgang um íbúð hennar.

Talaði máli Dreyfusar

Hún var einlægur friðarsinni, en dáði Napóleon. Allt frá byrjun sýndi hún mikið hugrekki í Dreyfusmálinu. Hún var aldrei í vafa um sakleysi Dreyfusar og hvatti rithöfundinn Emile Zola til að tala máli hans. Dagblöð birtu flennistórar fréttir á forsíðu: „Sarah Bernhardt fylgir Zola að málum. Hin mikla listakona stendur með gyðingum gegn hernum.“

Sarah var skapandi listamaður, sífellt í leit að nýjum víddum í leik sínum. Hún var ekki laus við sviðsskrekk og varð skelfingu lostinn ef hún taldi áhorfendur vera sér fyrirfram vinsamlega. Ef hún hafði grun um að áhorfendur væru tortryggnir í hennar garð þá var hún ákaflega yfirveguð og hin rólegasta. Þegar henni hafði tekist sérlega vel upp í leik sínum þá gaf hún jafnan sömu skýringuna: „Guð var þar“.

Taka varð af henni annan fótinn en hún lét það ekki aftra sér frá því að leika.
Á efri árum Taka varð af henni annan fótinn en hún lét það ekki aftra sér frá því að leika.

Mynd: © National Portrait Gallery, London

Hún skrifaði um leiklist og lagði mikla áherslu á mikilvægi þess að nota röddina rétt, það væri röddin sem tengdi saman áhorfendur og leikara. Sömuleiðis taldi hún líkamshreyfingu á sviði lykil að árangri. Frægustu hlutverk hennar voru í Phaedru og Kamelíufrúnni. Hún lék oft karlmannshlutverk og var 56 ára þegar hún spreytti sig á hlutverki Hamlet. Hún sagði karlmannshlutverk vera bestu hlutverkin. Umtalað var hversu fljót hún var að læra hlutverk sín utan að, en hún sagðist gleyma textanum um leið og hún væri hætt að leika viðkomandi hlutverk.

Hún var um sjötugt þegar taka þurfti af henni annan fótinn vegna veikinda en hún lét fötlunina ekki hamla sér og hélt á vesturvígstöðvarnar til að skemmta hermönnum um leið og hún var útskrifuð af spítalanum. Hún hélt áfram að leika fram í andlátið árið 1923 og var með fyrstu leikkonum til að leika í kvikmyndum.

Hún sagði eitt sinn: „Við eigum sjaldnast að hata því það útheimtir of mikla orku, láta okkur oftast standa á sama, fyrirgefa oft og gleyma engu.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Nicole Kidman sögð ljúga um frægu ljósmyndina

Nicole Kidman sögð ljúga um frægu ljósmyndina
Fókus
Fyrir 2 dögum

Dularfull dagsetningardeiling sjónvarpsstöðvanna veldur netverjum heilabrotum – „Hvað er í gangi? Samruni?“

Dularfull dagsetningardeiling sjónvarpsstöðvanna veldur netverjum heilabrotum – „Hvað er í gangi? Samruni?“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Jólalag Klöru verður einkennislag pakkasöfnunar í ár

Jólalag Klöru verður einkennislag pakkasöfnunar í ár
Fókus
Fyrir 4 dögum

Sölvi hugrakkari, opnari og vinafleiri en áður – Flestir þögðu þegar stormurinn gekk yfir

Sölvi hugrakkari, opnari og vinafleiri en áður – Flestir þögðu þegar stormurinn gekk yfir