Lilja Mósesdóttir, fyrrverandi þingmaður VG, greinir frá tíma sínum í þingflokknum á árunum 2009 – 2013 í bókinni „Hreyfing rauð og græn“ eftir Pétur Hrafn Árnason sagnfræðing, sem gefin er út í tilefni af 20 ára afmæli VG, hvar saga flokksins er rakin. Stundin greinir frá.
Lilja sagði sig úr þingflokknum ásamt Atla Gíslasyni um mitt kjörtímabilið, en hún greinir frá hvernig mórallinn var í þingflokknum á þessum tíma:
„Strax eftir kosningar, í stjórnarmyndunarviðræðum, birtist ákveðin leyndarhyggja og skortur á upplýsingum. Þá skynjaði ég einnig ákveðna forystudýrkun í hreyfingunni. Mér var boðin formennska í félags- og trygginganefnd sem ég hafnaði, taldi formennsku í viðskiptanefnd betur henta minni menntun en Álfheiður Ingadóttir átti að fá hana. Þá var Ögmundur sendur á mig, ég var „Ömmuð“, og lét undan þrýstingnum. Þegar Ögmundur hins vegar sagði af sér ráðherradómi haustið 2009 og Álfheiður tók við af honum varð ég formaður viðskiptanefndar,“
segir Lilja, sem er prófessor í hagfræði.
Hún er komin af sjálfstæðismönnum, en segist alltaf hafa verið vinstrisinnuð og að hvatning frá Ögmundi og Guðfríði Lilju Grétarsdóttur hafi fengið hana til að ganga til liðs við VG.
Hún segist fyrst hafa stutt aðildarumsókn Íslands í Evrópusambandið, en síðan skipt um skoðun eftir Icesave deiluna, þar sem ekki hafi verið hlustað á þá flokksmenn sem lögðust gegn samþykkt Icesave-samningsins, eða Svavarssamningsins svokallaða:
„En ég fékk snemma á tilfinninguna að vera afgangsstærð í VG, forystan leit á mig sem tæki í atkvæðasmölun sinni. Á flokksráðsfundi VG á Akureyri í janúar 2010 beindu margir harðri gagnrýni í garð okkar Ögmundar fyrir andstöðu við Icesave-samninginn og vísað var m.a. til fjölskyldutengsla minna við Sjálfstæðisflokkinn. Þingmenn VG áttu að kyngja samningnum til að tryggja að Sjálfstæðisflokkurinn kæmist ekki til valda.“
Lilja hætti í VG í mars árið 2011:
„Mér fannst eins og skipulögð hefði verið fyrirsát og þegar leið á árið gat ég ekki lengur sætt mig við persónuárásirnar, viðsnúning forystunnar varðandi niðurskurðarstefnu AGS og skilningsleysið á skuldavanda heimilanna. Árin á þingi voru eitt erfiðasta tímabil lífs míns með endalausum átökum innan og utan þings um Icesave, AGS, endurreisn bankakerfisins og skuldir heimilanna. Á sama tíma og gjáin milli mín og forystu VG breikkaði sífellt, fóru sögusagnir um meinta samstarfserfiðleika mína að birtast í fjölmiðlum. Ég gat varla sagt skoðun mína án þess að vera sökuð um samstarfserfiðleika. Þegar þingmennsku minni lauk ákvað ég að flytjast af landi brott til að eiga einhverja möguleika á að verða metin að verðleikum.“