Már Kristjánsson, yfirlæknir smitsjúkdómalækninga Landspítalans, segir að stórslys sé í aðsigi á bráðamóttöku Landspítalans. Már er býsna þungorður í viðtali í nýjasta tölublaði Læknablaðsins og óhætt að segja að hann láti mjög ákveðin varnaðarorð falla um stöðuna. Hann bendir á að fjöldi inniliggjandi sjúklinga á bráðamóttökunni hafi þrefaldast á tveimur árum og mikill þrýstingur sé á að útskrifa sjúklinga.
„Ég hef miklar áhyggjur af vetrinum. Það er stórslys í aðsigi,“ segir hann í viðtali í nýjasta tölublaði Læknablaðsins. Hann segir að ef sókn sjúklinga á bráðamóttökuna þróast eins og síðastliðin þrjú ár geti bráðamóttakan ekki tekið á móti þeim öllum þegar inflúensan stendur sem hæst. Deildin sé yfirfull og ef hópslys yrði gæti deildin ekki með góðu móti tekið á móti sjúklingum.
„Það er vont að vera settur í ómögulega stöðu. Mér finnst staðan á bráðamóttöku Landspítala vera ómöguleg,“ segir hann og bætir við að engar aðgerðir til að breyta stöðunni séu í augsýn.
„Undir þessum kringumstæðum skapast ófaglegar aðstæður, heilbrigðisstarfsfólki verður á og sjúklingar gjalda fyrir það,“ segir hann í viðtalinu.
Már segir ástandið hafa versnað mikið síðustu þrjú ár og fram heldur sem horfir muni það halda áfram að versna. Staðan á deildinni sé óboðleg; sjúklingar, gestir og starfsmenn í litlu rými og sýkingavarnir brostnar.
„Staðan er mjög ógnvekjandi þar sem við erum að fara inn í öndunarsýkingartímabil ársins, inflúensutímann,“ segir hann í viðtalinu og vísar í tölur um sókn sjúklinga á bráðamóttökuna máli sínu til stuðnings.
„Alls 226 dagar eru skráðir vegna innlagnar sjúklinga á bráðadeildina í október árið 2017. Þeir eru 417 í október árið 2018 og 573 nú í október.“ Uppreiknuð jafnast aukningin á við ígildi einnar legudeildar á Landspítala. Þrátt fyrir þennan fjölda hafa aðstæður á deildinni ekkert breyst; aðbúnaðurinn er sá sami en sjúkrarúmum á Landspítalanum í heild fækkað um 43 frá árinu 2014 til loka árs 2018.
„Ég hef miklar áhyggjur af vetrinum. Ég tel stórslys í aðsigi. Það er fyrirsjáanlegt að þetta getur ekki farið vel. Það er full ástæða til að vara við því,“ segir Már.