Gæti fetað í fótspor Fúsa og Hross í oss
Kvikmyndin Hjartasteinn eftir Guðmund Arnar Guðmundsson er ein fimm kvikmynda sem eru tilnefndar til kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs 2017. Myndin er fyrsta kvikmynd Guðmundar í fullri lengd og eru allar myndirnar fimm raunar fyrstu kvikmyndir leikstjóranna, en þær eru finnska myndin Tyttö nimeltä Varpu (e. Little Wing) eftir Selma Vilhunen, danska myndin Forældre (e. Parents) eftir Christian Tafdrup, norska myndin Fluegangere (e. Hunting flies) eftir Izer Aliu og sænska myndin Sameblod (e. Sami blood).
Vinningshafinn verður tilkynntur við hátíðlega athöfn miðvikudaginn 1. nóvember 2017 í tengslum við þing Norðurlandaráðs í Helsinki. Verðlaunaupphæðin nemur 350 þúsund dönskum krónum og skiptist jafnt milli handritshöfundar, leikstjóra og framleiðanda.
Í fyrra var það kvikmyndin Louder Than Bombs í leikstjórn Joachim Trier sem hlaut verðlaunin. Íslenskar kvikmyndir hafa tvisvar sinnum hlotið verðlaunin en það eru Fúsi í leikstjórn Dags Kára sem hlaut verðlaunin 2015 og Hross í Oss í leikstjórn Benedikts Erlingssonar sem hlaut þau árið 2014.