Við höldum áfram að birta valda kafla úr völvuspá DV og er nú komið að ferðamönnum, auðmönnum og flugi.
Sjá einnig: Völvuspá DV – Líf Þorsteins Más eins og hann þekkir það er búið – „Jóhannes spjarar sig“
Útlendingar gleypa Ísland
Völvan sér miklar sviptingar í ferðaþjónustunni sem hún er „fyrir löngu komin með leiða á. Við þurfum ekki alla þessa ferðamenn. Við þurfum ekki fleiri lundabúðir,“ segir hún er hún kveikir sér í annarri sígarettu. Það tekst rétt svo. Kveikjarinn er að syngja sitt síðasta.
„Ferðaþjónustan tengir sig við samnorrænt kerfi þannig að allt bókunarferlið gerbreytist og á eftir að hafa mikil áhrif á ferðamannastrauminn til lengri tíma litið. Það sýnist mér vera hið besta mál,“ segir hún. „Ferðamannastraumurinn minnkar þó heldur, en ég sé marga koma frá löndum eins og Kína og Japan. Þetta er auðugt fólk sem eyðir miklum fjármunum hérlendis. Stórt fyrirtæki mun hasla sér völl hér og útrýma litlu aðilunum. Það er vont mál og stjórnvöld neyðast til að grípa inn í.“
Þá segir hún erlenda auðjöfra svífast einskis í viðskiptum.
„Erlendir laxveiðimenn skjóta aftur upp kollinum, enda meiri veiði í ám en verið hefur, er það helst vegna þess að þurrkar verða ekki miklir, allt sumarið verður nokkuð mátuleg úrkoma fyrir alla,“ segir hún. „Erlendir auðjöfrar sýna bújörðum á Íslandi mikinn áhuga og fá valda Íslendinga í lið með sér til kaupanna. Ég sé þónokkrar jarðir komast þannig í eigu útlendinga. Athygli vekur að eftirsóttastar eru þær sem hafa nóg af köldu rennandi vatni og uppsprettur á landareigninni. Ekki endilega laxveiðiár.“
Í tengslum við erlend umsvif hér á landi sér hún þó einnig örla á jákvæðum hliðum þess.
„Ný búgrein skýtur upp kollinum, tengist jarðhita, á eftir að vaxa hratt og örugglega. Mér finnst þetta vera eitthvað heilsutengt, að þessu koma margir karlar og konur. Þetta fyrirtæki er staðsett á landsbyggðinni og kemur sem vítamínsprauta inn í byggðarlagið.“
Bæ, Skúli
„Það verður einnig erlendur auðmaður sem festir kaup á glæsihýsi Skúla Mogensen, fyrrverandi forstjóra WOW. Skúli lætur lítið fyrir sér fara í íslensku þjóðlífi. Mér sýnist hann flytja af landi brott fljótlega á nýju ári. Hann verður einn á ferð og ætlar að einbeita sér að því að koma hausnum og sálinni í lag. Hann hefur ekki tíma fyrir neitt nema sig og börnin framan af ári. Seinnipart árs fáum við stórar fréttir af honum utan úr heimi.
Erfið fæðing verður hjá nýja flugfélaginu Play. Ég sé ekki að greiðist úr því fyrr en á vordögum en ekki er bjart yfir því félagi. Einhverjir maðkar í mysunni. Ég veit ekki nákvæmlega hve stórir og skítugir þessir maðkar eru.
Völvuspána í heild sinni má lesa í Völvublaði DV.