Í nýjasta DV er að finna umfangsmikla völvuspá þar sem spákona blaðsins rýnir í komandi ár. Eftirfarandi er stuttur bútur úr þeirri spá, kafli er varðar verkalýðshreyfinguna sérstaklega.
Hrun af öðrum toga
„Atvinnuleysi eykst jafnt og þétt á árinu og margir huga að búferlaflutningum til annarra landa. Við missum þar margt vel menntað fólk, sem kemur ekki til vinnu á landinu aftur. Þar á meðal eru vel menntaðir læknar og annað fagfólk og erfitt verður að fylla stöður þess,“ segir völvan og sýpur af sykruðum gosdrykk – raunar klárar dósina í einum rykk. Það færist þungi yfir andlit hennar er hún heldur áfram.
„Bilið milli fátækra og ríkra eykst enn á árinu – því miður,“ segir völvan. „Viss þjóðfélagshópur og yfirvöld vilja ekki horfast í augu við þennan vanda sem fer sístækkandi með hverju árinu. Við stefnum í óefni ef við grípum ekki í taumana. Ekkert er gert fyrir fátækasta fólkið og fleiri neyðast til að grípa til vafasamra úrræða til að sjá fyrir sér og sínum. Fleiri lenda á götunni og úrræðum fjölgar ekki, nema síður sé,“ bætir hún við. Ritstjóri sver að völvan klökknar er hún talar um fátæka og ríka fólkið, þótt hún myndi aldrei viðurkenna það. Heimili hennar er fábrotið og húsgögnin gömul. Það þarf engan snilling til að sjá hvorum hópnum hún tilheyrir.
„Heilbrigðiskerfið ræður ekki við þann straum veiks fólks sem við höfum ekki hjálpað. Hér verður hrun – en af allt öðrum toga en fyrr.“
Hvar er Sólveig Anna?
Völvan tekur sér stutta pásu, kveikir í sígarettu – Lucky Strike. Kveikjarinn er skreyttur kisum og framandi plánetum. Gasið farið að dvína og sífellt erfiðara að ná eldinum upp. Hún tekur tvo smóka, trekk í trekk, og heldur áfram.
„Verkalýðshreyfingin er í mjög erfiðri stöðu, óhæft fólk í brúnni, þannig að lítið virðist gott gerast. Mér finnst ég skynja upplausn þar á árinu sem ekki verður séð fyrir endann á. Það er einhvers konar klofningur, en því má hreyfingin síst við,“ segir völvan.
„Sólveig Anna Jónsdóttir kom eins og stormsveipur inn í Eflingu og hverfur jafn hratt aftur út í tómið. Það mun enginn sakna hennar. Kannski meinti hún vel í upphafi, en hún hefur ekkert gert nema tala. Hún hefur komið fleirum í klandur en hún hjálpar og hún gerir sér loksins grein fyrir að verkefnið sem hún tók sér fyrir hendur er alltof stórt. Við heyrum aldrei um hana meir. Það er líkt og hún hafi aldrei verið til,“ segir völvan og bætir við að málefni Rúmenanna leysist, þótt það verði ekki Eflingu að þakka. „Rúmensk yfirvöld eiga þar hrós skilið. Þau stíga fast til jarðar og ná fram réttlæti fyrir sitt fólk.
Ragnar Þór Ingólfsson slítur á tengslin við Sólveigu Önnu, enda afburðagreindur maður. Hann heldur sínu striki og nær fram tveimur stórum málefnum fyrir sína félagsmenn. Varðandi stjórnmálaaflið sem hann hefur talað um sé ég það ekki gerast fyrr en um miðbik árs. Þá verður þetta afl til, en eins og með flest þá skapast um það miklar deilur. Þar verður Ragnar Þór í hringiðunni og þarf að taka stóra ákvörðun – hvort hann viji vera verkalýðsforingi eða fara á þing. Hann velur hið síðarnefnda.“
Í þessum ólgusjó sér hún Drífu Snædal, forseta ASÍ, rísa upp.
„Hún er hörkukvendi og ekkert lamb að leika sér við. Hún hefur margt til síns máls og á sviðið þegar Sólveig Anna og Ragnar Þór halda sig til hlés. Kemur í ljós að Drífa er hinn eini, sanni verkalýðsforingi og verður mikil sátt um það sem hún snertir.“
Völvuspána í heild sinni má lesa í Völvublaði DV.