Það virðist loða við borgarfulltrúa Reykjavíkurborgar að gleyma fíkniefnum í fórum sínum. Börkur Gunnarsson, varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, greinir frá því á Facebook að hann hafi smyglað hassi til Íslands. Að vísu var það óvart.
Hann segir að þetta hafi rifjast upp fyrir honum þegar hann las frétt DV um að Jón Gnarr hafi verið með fíkniefni á sér vikum saman sem borgarstjóri. „Við að lesa frétt af Gnarrinum sem var með dóp í vasanum á meðan hann starfaði sem borgarstjóri rifjaðist upp fyrir mér frekar óheppilegt atvik frá árum mínum í FAMU, í Prag í Tékklandi,“ segir Börkur og vísar þar í kvikmyndaskóla þar sem hann stundaði nám.
Börkur segist hafa verið einn fárra nemanda sem hafi ekki verið að neyta fíkniefna. „Ég var nánast eini nemandi skólans sem var aldrei í fíkniefna fikti. En félagar mínir voru alltaf að reyna að fá mig til að prufa sem ég afþakkaði. Ein vinkona mín úr leikstjóradeildinni gekk svo langt að gefa mér í afmælisgjöf hass og heimtaði að ég prufaði þetta. Ég hló bara, þakkaði fyrir gjöfina, stakk þessu í vasann og hélt mig við áfengið,“ segir Börkur.
Líkt og Jón Gnarr gleymdi Börkur dópinu í vasa sínum. „En ég var á leiðinni til Íslands nokkrum dögum seinna og uppgötvaði þegar ég var að leita að í vasanum mínum að lyklum heima hjá foreldrum mínum hassmolann. Ég hafði flutt hann til landsins. Eini nemandi listaskólans sem aldrei snerti fíkniefni hafði gerst eini eiturlyfjasmyglari skólans og flutt efnið alla leið heim til foreldra sinna sem eru heilbrigðasta og heiðarlegasta fólk landsins,“ segir Börkur.