Ég hef mjög gaman af að taka alls konar próf á netinu, allt frá þessum fáránlega einföldu skrýtnu, eins og til dæmis „hversu gömul ertu í alvöru?“ (ég er með fæðingarvottorð og Íslendingabók sem staðfestir það, samt tek ég prófið), yfir í alvöru próf sem krefjast tíma og athygli, eins og til dæmis greindarvísitölupróf eða Myers-Briggs persónuleikaprófið.
En fyrir nokkru rakst ég á mjög áhugavert próf sem ég gaf mér bessaleyfi til að þýða og ég vona að þér finnist það jafn gagnlegt og áhugavert og mér.
1) Nefndu 5 ríkustu menn í heimi.
2) Nefndu síðustu 5 sigurvegara Ungfrú Heimur.
3) Nefndu 10 einstaklinga sem hafa unnið Nóbels- eða Pulitzerverðlaun.
4) Nefndu síðustu 6 Óskarsverðlaunahafa fyrir aðalhlutverk karla og kvenna.
5) Nefndu 10 einstaklinga sem hafa unnið til gullverðlauna á Ólympíuleikum síðasta áratug.
Hversu mörg svör eru rétt hjá þér? Hversu hátt skoraðir þú á prófinu?
Niðurstaðan er sú að mörg okkar muna ekki eftir sigurvegurum gærdagsins. Einstaklingarnir sem eiga sætin hér að ofan eru samt engir aukvisar. Þau eru þau bestu hvert á sínu sviði. En fagnaðarlátum linnir. Árangur, verðlaun og viðurkenningar gleymast oft um leið og handhafi þeirra.
Tökum annað próf og sjáum hversu vel þér gengur í því:
1) Nefndu nokkra kennara sem höfðu áhrif á þig á þinni skólagöngu.
2) Nefndu 3 vini sem hafa hjálpað þér á erfiðum tímum.
3) Nefndu 3 einstaklinga sem hafa kennt þér eitthvað gagnlegt.
4) Nefndu nokkra einstaklinga sem hafa fengið þig til að líða vel og finnast þú einhvers virði.
5) Hugsaðu um 3 einstaklinga sem þér finnst gaman að verja tíma með.
6) Nefndu nokkra einstaklinga sem eiga sögu að baki sem hefur hvatt þig til dáða.
Var seinna prófið auðveldara?
Lærdómurinn: Fólkið sem hefur áhrif í lífi þínu er ekki fólkið með stærstu viðurkenningarnar, með mestu fjármunina eða flest verðlaunin. Heldur einfaldlega fólkið sem er annt um þig.
Kær kveðja,
Ragna
ragna@dv.is