fbpx
Föstudagur 17.janúar 2025
Fréttir

Annáll október – Misheppnuð endurreisn og leigustríð Lindu: „BÍDDU VÁÁ! má maður bara ekkert lengur“

Ritstjórn DV
Fimmtudaginn 31. janúar 2019 16:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Árið var viðburðaríkt – ekki síst októbermánuður eins og við sjáum hér fyrir neðan.

Sjá einnig: Annáll janúar / Annáll febrúar / Annáll mars / Annáll apríl / Annáll maí / Annáll júní / Annáll júlí / Annáll ágúst  / Annáll september

Flugævintýrið

ViðskiptaMogginn greindi frá því í byrjun október að þeir aðilar sem hygðust hefja flugrekstur á Íslandi, WOW 2 og WAB, sem síðar fékk nafnið Play, ætluðu að opna bókunarkerfi sín þann 15. október. Upphafleg áætlun WOW gerði ráð fyrir að flug hæfust um miðjan október en því var frestað til desember. Play, þá WAB, áætlaði að hefja flug í lok nóvember á þessum tímapunkti. Flugsérfræðingar voru ekki sannfærðir, enda hræðilegur árstími til að hefja millilandaflug. WOW 2 er ekki enn farið á flug en búast má við því að flugfélagið verði komið í góðan gír þegar nálgast vorið. Markmið um að endurvekja starfsemi WOW eru enn í fullu gildi á þeim bænum. Hvað varðar Play þá er alls kostar óljóst hvenær flug hefst þar. Enn hefur ekki verið hægt að bóka einn einasta flugmiða.

Michele Ballarin, konan á bak við WOW 2.

Sorg í Salahverfi

Karlmaður fannst látinn í Salahverfi í Kópavogi í lok október. Samkvæmt heimildum DV virtist maðurinn hafa fallið til jarðar eftir að hafa verið að klifra utan á fjölbýlishúsi. Lögreglan varðist frétta af málinu en íbúum var brugðið.

Má ekkert lengur?

Gísli Pálmi Sigurðsson, þekktur rappari, og vinkona hans, Ástrós Ósk Skaftadóttir, voru sökuð um innbrot og þjófnað á verðmætum í íbúðarhúsnæði í Árbæ í lok október. Kona sem tengist íbúum er urðu fyrir innbrotinu birti myndir af parinu á Facebook og staðhæfði að það hefði verið að verki. Gísli Pálmi tjáði sig um málið á Facebook: „BÍDDU VÁÁ! má maður bara ekkert lengur.. hahaha hva er að frétta.“ Málið fór sína leið hjá lögreglunni en ekki er ljóst hvort gefin hafi verið út ákæra.

Ástrós og Gísli Pálmi.

Reið Jóni Ársæli

Aðalmeðferð fór fram í máli Gyðu Drafnar Grétarsdóttur gegn Jóni Ársæli Þórðarsyni fjölmiðlamanni og RÚV. Málið varðaði umdeilt viðtal Jóns Ársæls við Gyðu í þáttunum Paradísarheimt. Í umdeilda þættinum ræddi Jón Ársæll við Gyðu Dröfn á meðan hún sat í afplánun inni á fangelsinu á Sogni. Ræddu þau meðal annars um erfið uppvaxtarár Gyðu og glímu hennar við fíkn. Snerist dómsmálið um það að Gyða hefði ekki fengið að gefa lokasamþykki fyrir þættinum eins og rætt var um við Jón Ársæl og RÚV. Svo fór að Gyða bar sigur úr býtum og fékk milljón króna í skaðabætur.

Gyða Dröfn.

Sakaður um gróft ofbeldi

Hlynur Kristinn Rúnarsson, fíkill í bata og stofnandi samtakanna Það er von, var sakaður um að beita fyrrverandi maka sína ofbeldi í umfjöllun Stundarinnar. Hlynur svaraði ásökunum á þá leið að hann hefði verið í neyslu. Viðmælendur Stundarinnar voru ósammála og sögðu hann einnig ofbeldisfullan edrú. Þá voru fagaðilar ekki sáttir við að Hlynur héldi fyrirlestra í skólum um neyslu og edrúmennsku. Meintir þolendur Hlyns birtu eftirfarandi varúðarorð á samfélagsmiðlum: „Þessi maður er hrottalegur ofbeldismaður. Hlynur hefur beitt alla sína fyrrum maka lífshættulegu ofbeldi og ekki enn tekið ábyrgð á því eða reynt að biðja þolendur sínar fyrirgefningar þrátt fyrir að vera veitt skýr tækifæri til þess nú í edrúmennskunni. Hið gagnstæða hefur átt sér stað og ennþá í dag segir hann þær hafa látið sig gera það (beita þær ofbeldinu). Hann er enn þá hættulegur einstaklingur, veikur í hugsun og þarf að fyrirbyggja að hann komist eitthvað nálægt börnum í menntaskóla eða öðrum viðkvæmum hópum.“

Hlynur Kristinn Rúnarsson

Sagt upp á þremur mínútum

Uppsagnir héldu áfram á Sýn og var íþróttafréttamaðurinn Hörður Magnússon látinn taka pokann sinn eftir tuttugu ára starf hjá fyrirtækinu. „Á 3 mínútna fundi var mér fyrirvaralaust sagt upp störfum eftir tæplega 20 ár,“ sagði hann, en uppsögn hans reitti marga til reiði.

Hörður Magnússon.

Gulldrengirnir

Eigið fé úr sjóðum GAMMA þurrkaðist út á einu ári. Voru gulldrengirnir í GAMMA sakaðir um að fegra stöðu félagsins og rannsóknar á rekstri sjóðsins var krafist úr ýmsum áttum.

GAMMA.

Stormur í vatnsglasi

Femínistar brjáluðust yfir pistil Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra um eflingu á rannsókum kynferðisbrota og bætt viðmót við þolendur. Allt út af því að hún notaði orð sem þóknaðist ekki femínistum.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir. Mynd Eyþór Árnason

Eltihrellir á Akranesi

DV sagði einnig frá eltihrelli sem gekk laus á Akranesi. Alma Dögg Torfadóttir var ein af þeim sem stigu fram en maðurinn hefur áreitt hana í tæpan áratug. Það tók Ölmu fimm ár að fá lögregluna á Akranesi til að taka mark á henni en enn hefur ekki náð að stöðva manninn. „Ég er svo reið að þetta skuli viðgangast,“ sagði Alma meðal annars.

Alma Dögg Torfadóttir. Mynd: Eyþór Árnason

Vafasöm heimsfrægð

Facebook-síðan 9 to 5 Life deildi myndbandi frá Íslandi þar sem maður sést ganga berserksgang í einni af verslunum Hagkaupa. Búið er að horfa á myndbandið rúmlega sjö milljón sinnum.

Leigustríð Lindu

Sagt var frá deilum Lindu Pétursdóttur, athafnakonu og fegurðardrottningar, við fyrrverandi leigjanda sinn. Deilurnar vörðuðu lengd uppsagnarfrests, ástand húsnæðis við skil og tryggingarfé. Linda lokaði á samskipti við leigjandann en hann sagði Lindu hafa hótað honum. Við nánari skoðun DV virtist leigusamningur hafa verið ógildur frá upphafi, því Linda er ekki eigandi hússins, heldur barnsfaðir hennar.

Linda Pétursdóttir.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 16 klukkutímum

Tvíburasynir Rannveigar og Birgis Þórs fæddust eftir 25 vikna meðgöngu – „Við þurfum að vera til staðar fyrir litlu hetjurnar“

Tvíburasynir Rannveigar og Birgis Þórs fæddust eftir 25 vikna meðgöngu – „Við þurfum að vera til staðar fyrir litlu hetjurnar“
Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Sigmundur Davíð – „Gervigreindin að minnsta kosti var með það á hreinu og skilaði því svari að Ísland hefði slitið viðræðunum“

Sigmundur Davíð – „Gervigreindin að minnsta kosti var með það á hreinu og skilaði því svari að Ísland hefði slitið viðræðunum“
Fréttir
Í gær

Íslenskir viðskiptavinir NOVIS varaðir við fjárhagslegu tjóni

Íslenskir viðskiptavinir NOVIS varaðir við fjárhagslegu tjóni
Fréttir
Í gær

Senda þriggja ára stúlku úr landi rétt fyrir lífsnauðsynlega aðgerð – „Mikil hætta er á að Emma verði alvarlega fötluð“

Senda þriggja ára stúlku úr landi rétt fyrir lífsnauðsynlega aðgerð – „Mikil hætta er á að Emma verði alvarlega fötluð“