Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, hefur skipað nefnd um vandaða starfshætti í vísindum á grunni laga nr. 70/2019. Meginhlutverk nefndarinnar er að upplýsa stjórnvöld, almenning og vísindasamfélagið um vandaða starfshætti í vísindum og um vísindasiðfræði og hafa eftirlit með því að siðferðileg viðmið séu í heiðri höfð í starfi vísindamanna, samkvæmt tilkynningu.
Að mati Kára Stefánssonar, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar, eru lögin um vandaða starfshætti í vísindum „innihaldslaust þvaður” líkt og hann fjallaði um í grein sinni fyrr í vetur, þar sem engin eiginleg skilgreining væri til yfir það sem gæti kallast vönduð vinnubrögð í vísindum:
„Síðan ég frétti af lagasetningunni hef ég spurt um það bil 50 vísindamenn og konur hvað átt sé við með vönduðum vinnubrögðum í vísindum og enginn átti svar. Ég var ekki að spyrja um smáatriði heldur um grundvallarhugmyndina: Vönduð vinnubrögð í vísindum. Lögunum er sem sagt ætlað að sjá til þess að við gerum eitthvað sem enginn veit hvað er. Það má að vísu leiða að því rök að höfundar laganna hafi gert sér grein fyrir þessum galla af því að það eru engin viðurlög við því að brjóta þau.“
Þá fór Kári háðslegum orðum um Vilhjálm Árnason siðfræðing, sem hann sagði hafa átt hugmyndina að frumvarpinu, en hann var áður ráðgjafi Katrínar Jakobsdóttur. Sagði hann Vilhjálm vera rugludall og haft „um árabil reynt að fylla upp í það ginnungagap sem varð til í íslenskri menningu við það að kaþólska lagðist af í landinu og það var enginn eftir til þess að segja okkur hvað væri sómasamleg hegðun á öllum sviðum mannlífs.“
Sjá nánar: Kári segir Vilhjálm siðfræðing vera rugludall – „Hefur nákvæmlega enga reynslu í vísindum“
Fjórir af sjö nefndarmönnum eru skipaðir samkvæmt tilnefningu Samstarfsnefndar háskólastigsins. Auglýst var í fjölmiðlum eftir tilnefningum í þrjú sæti og var skipað úr hópi þeirra nafna sem bárust. Við skipun nefndarinnar var 5. gr. laganna höfð til hliðsjónar en þar segir að þess skuli gætt að í nefndinni sé fyrir hendi þekking á vísindasiðfræði, lögfræði og ólíkum rannsóknarsviðum, þ.m.t. rannsóknum í atvinnulífinu.
Nefndina skipa:
Aðalmenn:
Sigurður Kristinsson, prófessor í heimspeki og siðfræði við Háskólann á Akureyri, formaður,
Björg Thorarensen, prófessor við Lagadeild Háskóla Íslands,
Eyja Margrét Brynjarsdóttir, prófessor í heimspeki og hagnýtri siðfræði við Háskóla Íslands,
Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, aðstoðarrektor vísinda og prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands,
Haukur Logi Karlsson, nýdoktor í lögfræði við Háskólann í Reykjavík,
Hilma Hólm, yfirmaður hjarta- og æðarannsókna hjá Íslenskri Erfðagreiningu og
Runólfur Pálsson, prófessor í læknisfræði við Háskóla Íslands.
Varamenn:
Ása L. Aradóttir, prófessor í vistheimtarfræðum við Landbúnaðarháskóla Íslands,
Hafsteinn Þór Hauksson, dósent við Lagadeild Háskóla Íslands,
Ingileif Jónsdóttir, prófessor í ónæmisfræði við Háskóla Íslands og deildarstjóri hjá Íslenskri erfðagreiningu,
Ólöf Gerður Sigfúsdóttir, doktorsnemi í safnafræðum við Háskóla Íslands,
Róbert H. Haraldsson, sviðsstjóri kennslusviðs og prófessor við Hugvísindasvið hjá Háskóla Íslands,
Skúli Skúlason, prófessor í vistfræði við Háskólann á Hólum og
Þórdís Ingadóttir, dósent við Lagadeild Háskólans í Reykjavík.