Jólin eru tími fjölskyldu, ástar, friðar og hamingju. Á móti er þó manndýrið ekki alltaf með rökhugsunina í lagi og tíðkast fátt meira en gremja á milli fólks. Því er upplagt að skoða hina hliðina og huga að gjafahugmyndum fyrir fólk sem eldar grátt silfur en hefur þó enn löngun til að gefa um hátíðirnar. Eins og sagt er, sælla er að gefa en þiggja kjaftshöggið.
Glimmer-sprengja
Það er örugg og fljótvirk ávísun upp á drasl og tiltekt þegar viðkomandi opnar glimmer-sprengju. Þegar viðkomandi býst ekki við henni getur hann fljótt orðið styggur á því sem í fyrstu virtist vera saklaus opnun gjafar. Glimmer á það einnig til að festast alls staðar og við hvað sem er. Grikkurinn magnast ef fjölmennt er í kringum þiggjandann og allir í sínu fínasta pússi. Eitt-núll fyrir þér.
Gjafabréf í „óvissuferð“
Í gegnum árin hefur það verið vinsælt að búa til handskrifaða miða, eða notast við létta Paint- eða Photoshop-takta og búa til heimagerð gjafabréf. Innistæða slíkra getur verið upp á nuddtíma, dekur, tiltekt, óvissuferð eða allt sem ímyndunaraflinu dettur í hug. Það er fátt sem segir „mér er sama“ jafnfljótt og klínísk nálgun, en þar kemur sterkt inn að smíða stórkostlegt gjafabréf upp á (hvað annað?) óvissuferð, eða einfaldan ratleik. Þá er gefandi búinn að panta tíma hjá fjármála- eða tryggingaráðgjafa, svo dæmi sé nefnt. Á gjafabréfinu kæmu fram skýr skilaboð um götuheiti og tímasetningu. Hvað er meira gefandi en að láta óvininn hlaupa yfir þröskuld? Möguleikarnir eru endalausir.
Notuð fullorðinsleikföng
Hin ýmsu fullorðinsleikföng verða seint tilefni í slæmar jólagjafir, en ef einstaklingur opnar jólapakka þar sem slík tæki blasa við óinnpökkuð getur ímyndunaraflið farið á milljón. Enn betri yrðu aðstæður ef gefandi hefði fórnað tíma í að merkja tækin með tússpenna sem eign annarra, ekki síður ef ein uppblásin dúkka gæti fylgt með. Viðkomandi einstaklingur gæti þá rekið upp stór augu og spurt: „Til hvers?“ áður en hann velti fyrir sér öllum notkunarmöguleikum sem tólin byðu upp á. Vertu bara viss um að gjöfin sé merkt frá jólasveinum.
Kerti og búið spil
Kerti og spil hafa lengi verið fastur fylgihlutur jólahefða. Góður útúrsnúningur á þessa formúlu getur aftur á móti vakið mikla kátínu hjá gefandanum í garð óvinar síns. Ein hugmyndin væri að finna einhvern sem tilheyrir bíllausum lífsstíl og gefa viðkomandi bílakerti. Til að kóróna þessa gjöf skal gott og plastpakkað púsluspil fylgja með, en það sem þiggjandinn veit ekki er að gefandi hefur fjarlægt hátt í tíu einingar úr púsluspilinu. Martröðin og áráttuþráhyggjan hefst með litlum skrefum.
Kassi með brotnum loforðum
Snilldin liggur oft í einfaldleikanum. Það er yfirleitt gaman að fá sendan veigamikinn jólapakka sem gæti innihaldið allan andskotann. Þess vegna er sniðugur leikur að finna stærsta kassann (til dæmis í Bónus), fylla hann af krumpuðum dagblöðum, jafnvel þykkum og þungum steinum – til að gefa í skyn að innihaldið kunni að vera brothætt, sem er ávallt spennandi. Gættu þess líka að pakka kassanum inn minnst fjórum sinnum til að tryggja frekari tímaeyðslu hjá þiggjandanum.