Úttektir Ríkisendurskoðunar fyrir árið 2019 hafa reynst mun kostnaðarsamari en undanfarin ár vegna aukins álags. Meðal úttekta stofnunarinnar eru þær er sneru að Íslandspósti, Tryggingastofnun, RÚV og Ríkislögreglustjóra. Er kostnaðurinn vegna þeirra alls 72 milljónir króna, samkvæmt minnisblaði frá Skúla Eggert Þórðarsyni, ríkisendurskoðanda, til fjárlaganefndar Alþingis.
Fór hann fram á aukafjárveitingu og krafðist fjárlaganefnd frekari rökstuðnings. RÚV greinir frá.
Úttektir fyrir árið 2019 hafa kostað 72 milljónir sem fyrr segir, en í fyrra nam slíkur kostnaður aðeins 24 milljónum og 15 milljónum árið 2017.
Í vinnustundum mælt voru þær 10.300 í ár, rúmlega 3600 í fyrra og um 2400 þar áður.
Þá skal horft til þess að úttektum Ríkisendurskoðunar á Tryggingastofnun og Ríkislögreglustjóraembættinu er ekki lokið.