Hlemmur tekur stakkaskiptum á næstu árum samkvæmt nýju deiliskipulagi, sem greint er frá á vef Reykjavíkurborgar.
Meginmarkmið breytinganna er að skapa gott vistvænt umhverfi á Hlemmi fyrir gangandi vegfarendur og stað sem mun gegna mikilvægu hlutverki fyrir mannlíf og samgöngur á höfuðborgarsvæðinu.
Nýja deiliskipulagið, sem samþykkt var til auglýsingar í skipulags- og samgönguráði í dag, miðar að því að auka aðdráttarafl Hlemms sem staðar sem fólk sækist eftir að fara á.
Hlemmur verður kjörstaður fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur og góður staður fyrir fólk og viðburði, eftirsóttur bíllaus staður, grænn og lifandi en einnig byrjunarreitur fyrir þau sem ætla í bæinn. Mathöllin á Hlemmi er sá segull sem þarf til að gera Hlemm að því sem vænst er.
Í lok árs 2017 lagði Reykjavíkurborg af stað með hugmyndaleit að nýju skipulagi á Hlemmtorgi. Leitað var eftir hugmyndum um fyrirkomulag skipulags með tilliti til legu hágæða almenningssamgangna um svæðið ásamt nýrri nálgun á hönnun torgsvæðisins í kringum Hlemm.
Tillögur arkitektastofanna Mandaworks og DLD voru valdar til áframhaldandi þróunarvinnu við Hlemm fyrir endurhönnun svæðisins og gerð nýs deiliskipulags. Borgarráð þarf að staðfesta deiliskipulagstillöguna til auglýsingar.
Helstu breytingar framundan
Nýtt hlutverk sem opið svæði fyrir fólk
Hlemmur er nú þegar vinsæll staður meðal gangandi og hjólandi vegfarenda en talningar árið 2018 sýndu að 25 þúsund fóru um Hlemm. Í nýrri talningu í október 2019 kom fram að 70%, eða 17 þúsund manns, af heildarfjölda vegfarenda á Hlemmsvæðinu voru gangandi.
Endurskoða þurfti almenningsrými á svæðinu m.a. með tilliti til þess að mathöll hefur verið opnuð á Hlemmi. Áætlað er að almenningssvæðið gefi m.a. aukna möguleika á svæði fyrir útiveitingar og útimarkaði. Hlemmtorg mun því gegna nýju hlutverki sem opið svæði fyrir fólk og viðburði.
Mannvæn og lífvænni borgarbyggð
Hlemmtorg verður rammað inn af smærri byggingum sem afmarka nýtt almenningsrými í austurhluta miðborgarinnar. Umbreyting norðurhluta Hlemmtorgs felst m.a. í meiri gróðri en þar er nú og setbekkjum.
Í aðalskipulagi Reykjavíkur er Hlemmtorg skilgreint sem miðborgartorg. Það þýðir m.a. að sama starfsemi við torgið má að hámarki vera 50%, að smásöluverslun og veitingastarfsemi undanskilinni en sú starfsemi má fara yfir það hlutfall. Þetta styður markmið um fjölbreytta, þétta og mannvæna borgarbyggð sem stuðlar að góðu mannlífi og sambúð ólíkra hópa.
Hlemmur verður framtíðarsamkomustaður Reykvíkinga og allra landsmanna, miðborgartorg á mannlegum skala, svæði fyrir margvíslegar uppákomur og leik í öruggu umhverfi.
Breytingar á umferð og rútustæði
Góðar almenningssamgöngur munu áfram liggja um Hlemm enda er hann og mun áfram verða mikilvægur tengipunktur í borginni. Skipulagstillagan breytir hins vegar aðgengi bílaumferðar um Hlemm til auka rými og aðgengi fyrir virka ferðamáta (gangandi og hjólandi m.a.) og er gert ráð fyrir sérrými almenningssamgangna með stoppistöð á svæðinu. Sérleið fyrir hágæða almenningssamgöngukerfi er skilgreind í gegnum svæðið ásamt leiðbeinandi staðsetningu fyrir stoppistöðvar.
Tillagan gerir ráð fyrir að safnstæði fyrir hópferðabíla og leigubíla verði færð frá núverandi staðsetningu við Hlemm, Laugaveg og Rauðarárstíg. Gert er ráð fyrir nýjum göngugötum og talsvert stærra torgi.
Glæsilegur miðpunktur
Að loknum breytingum verður Hlemmur glæsilegur miðpunktur í austurhluta miðborgarinnar. Torgið verður miðstöð fjölbreyttra samgangna, samskipta og lífs. Það er fagnaðarefni að Hlemmur fái loksins verðskuldaða upplyftingu og að þetta mikilvæga svæði í austurhluta miðborgarinnar myndi nú sterka umgjörð utan um sögu svæðisins og það ríka mannlíf sem þar finnst.