Félagsbústaðir skráðu í dag fyrsta félagslega skuldabréfið á markað Nasdaq Iceland fyrir sjálfbær skuldabréf, samkvæmt tilkynningu frá Reykjavíkurborg. Skuldabréfið er um 6,4 milljarðar að nafnvirði og er verðtryggt til 47 ára. Tilgangurinn með útgáfunni er að fjármagna byggingu á leiguíbúðum Félagsbústaða, en markmiðið er að fjölga íbúðum um 500 fram til ársins 2022.
Félagslegu skuldabréf Félagsbústaða eru þau fjórðu sem skráð eru á markað Nasdaq Iceland fyrir sjálfbær skuldabréf. Sigrún Árnadóttir, framkvæmdastjóri Félagsbústaða og Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri hringdu inn fyrstu viðskipti við opnun markaða í morgun.
Félagsbústaðir er hlutafélag í eigu Reykjavíkurborgar. Félagið á og rekur félagslegar íbúðir og hefur að markmiði að veita einstaklingum og fjölskyldum tryggan aðgang að leiguhúsnæði á viðráðanlegum kjörum.
Undir lok ársins 2018 áttu Félagsbústaðir 2654 íbúðir. Félagsbústaðir hafa sett sér félagslegan skuldabréfaramma um útgáfuna (e. Reykjavik Social Housing Social Bond Framework) sem fylgir alþjóðlegum viðmiðum um félagsleg skuldabréf gefnum út af ICMA, Alþjóðasamtökum aðila á verðbréfamarkaði. Ramminn hefur hlotið óháða vottun frá Sustainalytics sem er leiðandi aðili í slíkri vottun á heimsvísu. Í vottuninni segir m.a. að rammi Félagsbústaða sé traustur, trúverðugur og áhrifamikill og að hann samræmist öllum fjórum meginþáttum alþjóðlegra viðmiða um félagsleg skuldabréf.
„Við erum mjög ánægð og stolt yfir því að vera fyrst til að skrá félagsleg skuldabréf á markað Nasdaq Iceland fyrir sjálfbær skuldabréf,” segir Sigrún Árnadóttir, framkvæmdastjóri Félagsbústaða. „Við erum einnig þakklát fyrir góð viðbrögð frá fjárfestum sem benda til mikils stuðnings við félagsleg verkefni okkar. Okkar verkefni og markmið er að veita öruggt leiguhúsnæði á viðráðanlegum kjörum, án tillits til félagslegrar stöðu. Skuldabréfaútgáfan mun gera okkur kleift að auka við félagslegt húsnæði á næstu misserum.“
„Skráning félagslegra skuldabréfa Félagsbústaða eru mikilvæg tímamót. Við bjóðum félagið velkomið á markað Nasdaq Iceland fyrir sjálfbær skuldabréf,“ segir Magnús Harðarson, forstjóri Nasdaq Iceland. „Þetta fyrsta félagslega skuldabréf á markaði er merki um þá auknu áherslu sem fjárfestar leggja á ábyrgar fjárfestingar, hvort sem um er að ræða í grænum eða félagslegum verkefnum.“
Fossar markaðir höfðu umsjón með útgáfu og sölu skuldabréfanna. Circular Solutions veitti ráðgjöf við gerð skuldabréfarammans um félagsleg skuldabréf.