Það er fátt meira svalandi en frostpinnar og skiptir þá engu máli hvort sólin lætur sjá sig eða ekki. Þessir ávaxtapinnar eru ekki bara fallegir á að horfa, þeir eru líka hollir og hjálpa til við að nýta það sem til er í ísskápnum og koma þannig í veg fyrir matarsóun.
Mango, drekaávöxtur, papaya, kiwi og rifsber eru innihaldið í þessum frostpinnum, en í raun má nýta hvaða ávexti sem er, jafnvel afganga sem eru til í ísskápnum, þar sem að stundum dugar jafnvel einn biti fyrir hvert lag. Ekki er ráðlegt að nota frosna ávexti, þar sem endurfrysting dregur úr hollustunni.
Hverjum ávexti fyrir sig er skellt í matvinnsluvél og svo skammtað í ísformin, lag eftir lag þar til hvert form er fullt. Til að leki ekki á milli laga, þá má frysta í stuttan tíma eftir hvert lag. Best er að setja álfilmu yfir íspinnaboxið áður en það er sett í frysti svo auðveldara sé að ná þeim úr boxinu. Gott er að dýfa síðan boxinu í heitt vatn í stutta stund til að ná íspinnunum úr og pakka þeim í plast hverjum fyrir sig ef geyma á þá lengur í frysti.
Endilega leyfið börnunum að vera með við íspinnagerðina, þau hafa bara gaman af því.