Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri í Bolungarvík, gagnrýnir Mjólkursamsöluna harðlega fyrir að bjóða upp á þrjár laktósafríar mjólkurvörur til höfuðs Örnu, sem er staðsett í Bolungarvík og hefur sérhæft sig í laktósafríum mjólkurvörum frá árinu 2013.
Arna kynnti nýlega nýjar umhverfisvænar umbúðir með 85% minna plasti og segir Jón Páll að MS hafi markaðssett keimlíkar vörur í kjölfarið, sem í krafti stærðar MS sé mikið ábyrgðarmál:
„Það er ekki eðlilegt að aðili sem er með 95% markaðshlutdeild geti hagað sér á þennan hátt. Nýjar vörur sem eru mjög líkar vörunum hjá Örnu eru settar á markað. Þetta lítur að minnsta kosti þannig út fyrir mér að þeir séu að fara í harða og beina samkeppni við Örnu og nýti sér yfirburðar stærð sína og kraft til þess,“
sagði Jón Páll við Eyjuna.
Jón birti færslu á Facebook með viðlíka gagnrýni á MS, sem hann segir bera mikla ábyrgð:
„Er þetta tilviljun? Eða getur það verið að það sé búið að taka ákvörðun að keyra af fullum krafti inn á markað Örnu og láta kné fylgja kviði? MS ber mikla ábyrgð með algjöra yfirburði á markaði fyrir mjólkurvörur verandi sá aðili sem selur okkur neytendum 95% af öllum mjólkurvörum. Það er þekkt staðreynd að markaðsráðandi aðilar geta drepið minni aðila í krafti stærðar sinnar.“
Hann segir Örnu vera afar mikilvægt fyrirtæki, ekki bara fyrir Vestfirði heldur Ísland allt:
„Við berum líka ábyrð sem neytendur og það er einmitt þeim að þakka að Arna – laktósafríar mjólkurvörur er á þeim stað sem þau eru í dag. Arna er gríðarlega mikilvægt fyrirtæki. Ekki bara fyrir Bolungarvík og Vestfirði, heldur líka fyrir Ísland. Við þurfum á svona fyrirtækja að halda til að sýna öðrum fram á að það er hægt að reka framúrskarandi matvælafyrirtæki á landsbyggðinni! Ég tek fram að ég er eins langt frá því að vera hlutlaus eins og hægt er. Ég hef hagsmuni af því að Arna eflist og dafni,“
segir Jón sem situr í stjórn Örnu.
Hér að neðan má sjá nýjar vörur fyrirtækjanna.