Gunnar J. Árnason listheimspekingur skoðar hvernig listin birtist í kenningum helstu heimspekinga nútímans
Listin kemur okkur í tengsl við innsta eðli alheimsins. Listin sameinar þjóðina. Listin er yfirborðskennd froða og valdatæki borgarastéttarinnar. Listin er frjáls tjáning einstaklingseðlisins og æðsta merki mennskunnar. Listin er dauð!
Þeir hugsuðir sem hafa mótað hugmyndir okkar vesturlandabúa um manneskjuna, heiminn og tilveruna hvað mest á undanförnum þremur öldum hafa flestir fundið listinni einhvern stað í kenningum sínum. Sumir hafa álitið listina hafa mikið gildi og gefið henni miðlægt hlutverk í heimsmyndinni en aðrir hafa þvert á móti efast um gagn hennar og nauðsyn.
Í nýútkominni bók sinni skoðar Gunnar J. Árnason listheimspekingur hvernig listirnar birtast í kenningum þeirra heimspekinga sem hafa haft hvað mest áhrif á hugmyndaheim hins vestræna nútímamanns – til að mynda Kant, Hegel, Marx, Nietzsche og Freud svo örfáir séu nefndir.
Í bókinni Ásýnd heimsins – Um listir og fagurfræði í hugmyndaheimi nútímans er staða listarinnar í heimspeki nútímans könnuð. Leið Gunnars sjálfs að heimspekinni lá einmtt í gegnum listina og hefur það verið hans helsta umfjöllunarefni í gegnum tíðina. Hann nam myndlist við Myndlista- og handíðaskólann á því sem hann segir hafa verið miklir umbrotatímar, bæði innan skólans og listalífinu almennt. Hann hélt myndlistarnáminu áfram í School of Visual Arts í New York, en frammi fyrir því uppgjöri sem myndlistin stóð í á níunda áratugnum segist Gunnar hafa leitað æ oftar í heimspekina og þau svör sem hún reyndi að gefa á eðli listarinnar. „Það má eflaust segja að þetta tvennt hafi alltaf togast á í mér,“ útskýrir Gunnar. Eftir nám við Háskóla Íslands og heimspekideild Cambridge-háskóla hefur hann snúið sér alfarið að listheimspekinni. Í um þrjá áratugi hefur hann skrifað um myndlist í dagblöð, sýningarskrár og bækur, gagnrýnt og kennt.
Þú segir að þessar tvær aðferðir til að fást við heiminn – myndlistin og heimspekin – hafi togast á í þér. Þú myndir þá ekki segja að þær séu á einhvern hátt sami hluturinn fyrir þig, eða leið að sama markmiði?
„Ég myndi ekki segja að þetta tvennt sé það sama, nei. Þarna er þó vissulega ýmislegt sem skarast. Myndlistin getur til dæmis kallað á heimspekilegar vangaveltur og í heimspekinni er sett fram ákveðin sýn og dregnar upp myndir sem að maður getur séð hliðstæður við í myndlistinni. En ég myndi ekki ganga svo langt að segja að list væri leið til heimspekilegrar hugsunar. Í bókinni fjalla ég einmitt um það hvernig þessi tvö svið hafa tengst, bæði hvernig heimspekingar hafa leitað í listir að innblæstri en líka hvernig listin hefur reynt að eiga samleið með þeirri heimspekilegu hugsun sem hefur verið efst á baugi á hverjum tíma.
Að vissu leyti hafa þessi svið bætt hvort annað upp en það hefur líka verið ákveðin togstreita á milli þeirra. Listin hefur nefnilega ekki viljað verða of mikið handbendi einhverrar fyrirframgefinnar hugsunar – hún hefur viljað halda sjálfstæði sínu og feta sínar eigin leiðir. Og það er kannski einmitt það sem er spennandi frá sjónarhóli heimspekinnar, listin er þáttur í mannlegri hugsun sem er dálítið framandi og fer út á slóðir sem heimspekin á erfitt með að ná utan um.“
Bókin er ekki yfirlitsrit yfir helstu kenningar um listina heldur inngangsrit í nútímaheimspeki þar sem sérstök áhersla er lögð á stöðu og hlutverk listarinnar í hugmyndakerfum áhrifamestu heimspekinga síðustu þrjú hundruð ára eða svo – allt frá Hume til Baudrillard. Hvað kom til að þú ákvaðst að gefa út bók um þetta efni?
„Undanfarin ár hef ég verið að reyna að kynna nemendum heimspekilega hugsun og heimspekilegar kenningar um listir. Til að gera þetta hef ég oft reynt að gefa innsýn í kenningar helstu hugsuða um listina og tengja þær við þann hugmyndaheim sem að heimspekingarnir eru að fást við. Bókin vex upp úr þessum tilraunum.
Ef maður skoðar ekki bara það sem að listamenn gera heldur einnig það sem þeir segja og skrifa þá kemur í ljós að margir þeirra eru mjög uppteknir af heimspekilegum efnum. Þar eru þeir að reyna að ná utan um eitthvað sem þeir vilja að eigi sér farveg í listsköpuninni.
Ég hef sjálfur fundið fyrir því að það er áhugi hjá mörgum innan listarinnar á heimspekilegri hugsun en á sama tíma vex þetta mönnum oft í augum. Margir eru smeykir, finnst þetta óárennilegur og flókinn heimur sem er erfitt að komast inn í. Á sama tíma vilja aðrir passa að heimspekingarnir taki ekki hreinlega yfir og fari að segja listamönnum hvernig og hvað þeir eigi að hugsa. Maður þarf því að stíga svolítinn línudans þarna á milli.
Annað sem mig langaði að gera var að velta fyrir mér hvernig við getum metið þær hversdagslegu hugmyndir sem við höfum um listina og gildi hennar – að hún sé ómissandi, að hún birti okkur nýja sýn á tilveruna og svo framvegis – í gegnum kenningar þessara hugsuða.“
Hafa flestir helstu heimspekingar nútímans haft sterkar skoðanir á hlutverki listarinnar?
„Nei, alls ekki allir beindu sjónum sínum sérstaklega að listum. Flestir voru bara í uppgjöri við fortíðina, við heimsmynd kirkjunnar, og voru að reyna að skapa einhvern grundvöll fyrir framtíðina til að byggja á, að reyna að svara því hvernig við ættum að skipuleggja samfélagið og hugsa um siðferði okkar. Í þessu samhengi leiða þeir hins vegar oft hugann að hlutverki listarinnar. Þeir komast ekkert allir að þeirri niðurstöðu að listin gegni einhverju lykilhlutverki eða sé algjörlega ómissandi. Sumir sjá jafnvel í þeim hugmyndum sem er búið að búa til í kringum listina ákveðna sjálfsupphafningu sem þeim finnst ekki standast skoðun, þetta eru til dæmis hugsuðir á borð við Marx og Freud og svo síðar póstmódernistarnir – sem líta á listina sem einn anga af miklu stærra menningarfyrirbæri, hinni nýju fjölmiðla- og upplýsingaveröld.“
Þó að hugmyndirnar séu ólíkar og fjölbreyttar verð ég að segja að þeir hugsuðir sem eru teknir fyrir eru frekar einsleitur hópur, af þeim nöfnum sem nefnd eru í kaflaheitum eru sextán karlmenn og nánast allir frá Norðvestu-Evrópu. Voru konur og karlar utan Evrópu ekki að segja neitt áhugavert á þessum tíma?
„Það er rétt að þeir höfundar sem ég tek fyrir eru fyrst og fremst vestur-evrópskir karlmenn. Þetta er frekar hefðbundin sýn á þær hugmyndir sem hafa verið taldar veigamestar í okkar hugmyndaheimi og það hefur bara verið þannig að konur hafa ekki verið í jafn stóru hlutverki og við myndum vilja í dag. Ég gerði ekki sérstaka tilraun til að fjölga konum til að jafna þennan halla. Á tímabilinu frá miðri 18. öld og fram á seinni hluta 20. aldarinnar höfðu konur hreinlega ekki sama aðgang að þessum heimi – enda hefst háskólamenntun kvenna ekki af alvöru fyrr en á 20. öld. Ég tel mig nú ekki hafa verið haldinn einhverjum sérstökum fordómum eða tekið einhverja með þrátt fyrir að þeir hafi ekki átt heima þarna.
Og já, þetta eru fyrst og fremst heimspekingar Vesturlanda. Þó það séu auðvitað fjölmargir aðrir höfundar sem ég hefði getað tekið fyrir tel ég þá standa okkur næst. Þar að auki hafa þær hugmyndir sem uxu út úr þessu tímabili í Evrópu náð fótfestu um allan heim. Ég sé ekki að sambærilegar hugmyndir sem eiga sér uppruna annars staðar hafi gegnt svipuðu hlutverki. En það er satt, það er verulegur halli og ekki algjörlega eins og menn myndu vilja hafa þetta í dag.“
Hugmyndin um list sem hefur annað eðli og hlutverk en önnur tæknileg kunnátta er tiltölulega ný af nálinni. Grikkir notuðu hugtakið tekne til að mynda um allt frá garðrækt til höggmyndalistar, tónlistar til læknislistarinnar. Síðan hafði listin fyrst og fremst trúarlegt hlutverk í heimsmynd kristninnar. En hvenær hefst þessi nútími sem þú ert að fjalla um og hvernig markar upphaf hans breytingar á listinni?
„Í bókinni nota ég hugtakið nútími á frekar lauslegan og kannski frekar ábyrgðarlausan hátt. En í víðum skilningi tala ég um nútíma frá og með 18. öld þegar menn voru að kasta af sér þeirri heimsmynd sem við kennum við kristna kirkju, reyndu að endurskilgreina heimsmyndina og velta fyrir sér stöðu mannsins í heiminum. Með tilliti til listarinnar verða líka ákveðin táknræn skil á 18. öldinni, þá verður til það kerfi listgreina sem við styðjumst við í dag og líka ákveðin hugmynd um fagurfræði, ákveðið viðfangsefni, sýn á listirnar og gildi þeirra. Eftir þennan tíma koma fram ýmsar tilraunir til að reyna að endurskilgreina listirnar, nýjar kenningar sem að fjarlægja sig algjörlega þeim skýringum sem menn gáfu áður – sérstaklega trúarlegum skýringum og kreddum kirkjunnar.“
Á sama tíma eru líka að fæðast margar þær stofnanir sem eru enn í dag í miðju listheimsins. Hefur þetta eitthvað með þessa nýju heimsmynd að gera?
„Já, það verða til listasöfn þar sem að listum ákveðinna tímabila eða svæða er safnað saman og fólk getur skoðað þau út frá öðrum forsendum en bara þeim hlutverkum sem þau gegndu í trúarlífinu.
Þarna verður til hugmyndin um listasögu, listrænt mat og gagnrýni, þar sem listamennirnir og listaverkin eru skoðuð sem algjörlega sjálfstæð fyrirbæri, metin út frá listrænum forsendum frekar en út frá trúarlegum, guðfræðilegum eða öðrum slíkum sjónarmiðum.“
Þú segir að fagurfræði verði til á þessum tíma. Fóru heimspekingar að fást við fegurðina og listina á einhvern annan hátt en þeir höfðu gert áður?
„Já, frekar en að líta á fegurðina sem einhvern eiginleika guðdómsins eins og fólk hafði gert áður fór það að líta á hana sem eitthvað sem tilheyrir sálinni. Það er á þeim forsendum sem heimspekingar fóru að skoða fegurðina, sem eina hlið á mannlegri reynslu.
Í upphafi tímabilsins er þetta oft nátengt hugmyndum um siðferði en í auknum mæli er listin bara tengd við ákveðna fegurðarreynslu, sem er aðgreinanleg frá skynseminni, þekkingunni og siðferðinu. Nútímalegar kenningar um listir reyna að ná utan um þennan tiltekna þátt í mannlegri reynslu, oft alveg óháð því hvernig hann tengist heiminum. Þeirri hugmynd er hafnað að það sem sé fallegt í listinni sé það sem eigi sér samsvörun í einhverju guðdómlegu og fullkomnu sem tilheyrir innri gerð heimsins.
Menn fara hins vegar að tengja listræna reynslu við ánægju og þá koma fram hugmyndir um smekk og smekkvísi. Menn fara líka að spyrja sig hvort það sé eitthvað til sem heiti sérstakt fagurfræðilegt eða listrænt mat. Hvað er það sem menn eru að gera þegar þeir eru að leggja mat á gildi listaverka? Hvernig stendur á því að mönnum finnst sú fegurð sem þeir sjá í listaverkum sé eitthvað sem er algjörlega sígilt, augljóst og bjargfast, á sama hátt og önnur þekking sem við höfum á heiminum?“
Nálgun manna á list tekur sem sagt miklum breytingum með vísindabyltingunni, upplýsingaröldinni og minnkandi áhrifum hins kristilega hugmyndaheims. En er einhver línuleg eða skýr þróun í hugmyndum manna um eðli og stöðu listarinnar í heiminum síðan þá, frá 18. öld og til dagsins í dag?
„Það er svolítið flókið að stilla þessu upp sem einfaldri línulegri frásögn. Það má frekar segja að þetta séu fylkingar, nokkrar ólíkar nálganir sem eru að takast á, svipaðar hugmyndir sem spretta ítrekað upp í nýjum búningi og nýju samhengi. Ef ég reyni að einfalda þetta niður þá eru fjórar meginhugmyndir um hlutverk og gildi listarinnar sem ég tel að gangi í gegnum allt tímabilið, hugmyndir sem byrja að mótast á 18. öld og mér sýnist enn eiga talsverð ítök í okkar hugmyndaheimi í dag.
Í fyrsta lagi hafa menn skoðað það sálræna og félagslega hlutverk sem að listin er álitin hafa. Þá horfa menn á það hvernig listirnar veita okkur ánægju, höfða til tilfinninga og hvernig listirnar uppfylla einhverja þörf hjá okkur og hafa áhrif á mannleg samskipti. Í öðru lagi hafa menn lagt áherslu á fagurfræðilegu reynsluna sem slíka. Þeir segja að þetta sé svo sterk upplifun að það geti ekki verið að hún byggist bara á ánægju einstaklingsins heldur hljóti hún að byggja á því hvernig við skynjum heiminn. Samkvæmt þessu finnum við í listum samkennd og samhljóm með tilverunni. Þarna er því eitthvað sem listirnar uppgötva um samband mannsins við heiminn sem þær reyna að varðveita í gegnum listræn form.
Í þriðja lagi hefur verið mjög rík sú hugsun að listirnar séu farvegur fyrir sjálfstjáningu. Einstaklingurinn er álitinn hafa þörf fyrir að setja mark sitt á heiminn, finna að hann sé einstakur og sérstakur og deila því með öðrum. Þetta nýja og sérstaka sem listamaður skapar endurspeglar það hvernig hann sem einstaklingur upplifir heiminn, og myndar um leið tengsl milli manna. Í verkum listamanna sjá einstaklingar eða jafnvel heilar þjóðir eitthvað sem þeir geta sjálfir samsamað sig við. Þetta er hugmyndin um að í listinni geti falist eitthvað algjörlega nýtt sem brýtur upp það sem áður þótti eðlilegt, hæfilegt og rétt.
Í fjórða lagi er það svo hugmynd sem snýr þeirri síðastnefndu við. Við erum álitin vera afsprengi menningarinnar – menningin er sjálfstæður veruleiki sem við fæðumst inn í. Listin er þá ein leið og jafnvel helsta leið okkar til þess að takast á við menninguna, átta okkur á henni, gagnrýna hana og jafnvel brjótast út úr henni. Það er því stöðug togstreita milli einstaklingsins og menningarinnar sem hann er fæddur inn í. Samkvæmt þessu viðhorfi eru listirnar og hinn mikli listamaður alltaf í miklu stríði við sinn samtíma. Listamaðurinn þarf að svara kalli síns tíma, afhjúpa það sem er úrelt, úrkynjað og spillt og varpa ljósi á það hvert við erum að stefna.“
Er eitthvað þessara viðhorfa meira áberandi en annað í samtímanum – hvaða augum sýnist þér fólk almennt líta listina í dag?
„Mér sýnist við vera mjög jarðbundin í dag. Það virðist vera mjög ríkt í okkur í dag að horfa á manninn fyrst og fremst sem hluta af náttúrunni og þar af leiðandi er gerð tilraun til að fella listina inn í almenna náttúruvísindalega sýn á manninn. Listirnar eru þá álitnar hafa félagslegan tilgang og gegna ákveðnu hlutverki fyrir sálarlíf manneskjunnar – ánægjan sem við fáum af því að njóta lista á sér ákveðnar skýringar í hugarstarfseminni. Ein birtingarmyndin er sú tilhneiging að meta gildi listar eftir uppboðsvirði og aðgöngumiðasölu.
Þetta er ólíkt þeirri hugsun sem var mjög rík á 20. öldinni, til dæmis innan módernismans, að listirnar hefðu ákveðna sérstöðu – að þær væru að uppgötva eitthvað og þess vegna skiptu þær máli. Maður tekur ekki jafn mikið eftir slíkum hugmyndum í dag. Á sama tíma sýnist mér hugmyndin um hinn sjálfstæða listamann sem er að skapa eitthvað algjörlega nýtt hafi líka hörfað.“
Áttu þá við hugmyndina um listamanninn sem einstakan snilling?
„Já, þá hugmynd að listamaðurinn geti brotist út úr aðstæðum sínum og á einhvern undraverðan hátt skapað verk sem eiga sér engar hliðstæður og geta vísað okkur veginn – þetta er hugmyndin um listamanninn sem kyndilbera og sjáanda sem að leiðir okkur inn á nýjar brautir. Ég held að fólk í dag hafi ekki jafn mikla trú á þessu og áður.
Í dag er það hins mjög útbreidd hugmynd að það sé eitthvað í listinni sem sameinar okkur. Kannski tengist það þeirri þjóðerniskennd sem er mjög rík í okkur að tungumálið og listirnar sé eitthvað sem skilgreinir okkur sem manneskjur.
Ef maður skoðar svo áherslurnar í skólakerfinu þá er sú hugmynd mjög áberandi að hvert barn sé sérstakt, en þurfi að geta þroskað sín eigin sérkenni á algjörlega frjálsan hátt, og í því samhengi er listsköpun álitin mjög mikilvæg. Þannig að viðhorf okkar til listarinnar í dag er alls ekki einfalt.“
Hin heimspekilega orðræða er gríðarlega áberandi í listheiminum víða erlendis og í auknum mæli hér heima. Hins vegar hafa Íslendingar í gegnum aldirnar ekki haft mikil tækifæri til að kynna sér og tileinka hina vestrænu heimspekihefð – heimspekideild var til að mynda ekki stofnuð við Háskóla Íslands fyrr en á áttunda áratugnum og fá heimspekirit komu út á íslensku fyrr en undir lok síðustu aldar. Hefur þessi heimspekihefð haft jafn mikil áhrif á umræðuna um listir hér á landi og annars staðar í Evrópu?
„Nei, alveg örugglega ekki. Það er ekki mjög rík heimspekihefð yfirleitt á Íslandi og miðað við það sem hefur tíðkast víða annars staðar í Evrópu – til dæmis Frakklandi – er þetta því tiltölulega nýtt af nálinni.
Þegar ég var sjálfur að byrja að skrifa í kringum 1990 þá fór ég til dæmis að tala um „listheimspeki“ – til aðgreiningar frá fagurfræði – en þetta hugtak hafði ekki verið til í íslensku áður. Mörgum fannst framandi að skrifað væri um listir út frá heimspekilegu sjónarhorni og ekki allir voru sérstaklega hrifnir. Þeir vildu þá bara hafa þetta eftir bókinni, álitu að það væru ákveðnir þættir í listaverkinu sem ætti að skrifa um – en allar aðrar hugmyndir væru hálfgert blaður sprottnar úr hugarheimi höfundarins.
Um miðja síðustu öld var einblínt á formræna þætti, stílbrögð, efni, aðferðir og ákveðna tegund listasögu, um það hvernig listin þróast innan frá, um áhrif listamanna hverja á aðra og innbyrðis átök ólíkra strauma og stefna. Frá níunda áratugnum hefur þessi hugmynd hins vegar riðlast og mér finnst þetta hafa breyst umtalsvert síðan þá.
Menn eru í auknum mæli farnir að líta á myndlistina sem leið til að koma á framfæri hugmyndum, þeir horfa meira á hugmyndirnar frekar en að velta stöðugt fyrir sér hvort þessi listamaður sé að gera eitthvað sérstakt með tiltekna tækni eða efnivið.
Listamennirnir sjálfir eru orðnir frjálslegri í því hvernig þeir vinna en leggja hins vegar þeim mun meiri áherslu á að skapa ákveðna sýn og fást við tilteknar hugmyndir – og eru orðnir ófeimnari við að tala um að þær. Hér áður fyrr var svolítil feimni við að tala á fjálglegan hátt um einhverjar háleitar hugmyndir og jafnvel tortryggni í garð þeirra sem voru háskólamenntaðir og vildu fjalla um list á fræðilegan hátt – en þetta hefur verið að breytast.“