Ragnar Jónasson: Hvíti dauði
Spennusaga
Útgefandi: Veröld
256 bls.
Hvað þarf til að setja saman snjalla fléttu í sakamálasögu? Líklega einhverja blöndu af sköpunargáfu og rökhugsun. Þá þarf persónusköpun að falla vel að fléttunni þannig að athafnir sögupersóna og þáttur þeirra í myrkraverkum sögunnar verði trúverðugur. Eflaust skapar síðan æfingin meistarann og það er kannski æfingin sem hefur skapað fléttumeistarann Ragnar Jónasson sem hefur gefið út glæpasögu á hverju ári í langan tíma við sívaxandi velgengni. Það leiðist engum yfir fljótlesnum bókum Ragnars og frá upphafi verður lesandinn sólginn í að vita lausn ráðgátunnar.
Ragnari er helst áfátt um stílbrögð því stíll flestra sagna hans er flatur og stundum staglkenndur. Það er þó ekki hægt að saka hann um klaufaskap eða í raun einhver mistök í þeim efnum því Ragnar gerir ekki minnstu tilraun til að lyfta texta sínum upp hvað þetta snertir, með ráðnum hug virðist hann afar þurr og fátækur af myndrænum smátriðum. En söguþráðurinn sjálfur, vendingar hans og eftirvæntingin eftir því sem ekki hefur verið gefið upp, halda lesanda áhugasömum.
Hvíti dauði er nokkuð margslungin saga, ekki síst þegar haft er í huga að hún er aðeins um 250 blaðsíðna löng. Tímasviðin eru þrjú og nær sagan allt aftur til 1950 og fram til 2012. En að mestu leyti gerist hún til skiptis árið 2012 í Reykjavík og 1983 á Akureyri. Eldra sögusviðið er vettvangur hræðilegra glæpa sem framdir eru á berklahæli á Akureyri en árið 2012 tekst ungur, verðandi rannsóknarlögreglumaður á við þessa óleystu ráðgátu í lokaritgerð sinni í afbrotafræði.
Söguheimur Ragnars er myrkur og þar getur venjulegt fólk gerst sekt um óhæfuverk. Erfiðar aðstæður draga fram breyskleika manneskjunnar, til dæmis ósannsögli, undirferli og hefnigirni. Persónusköpunin í Hvíta dauða er sannfærandi þó að í flestum tilvikum nái hún skammt. Fléttan er afar snjöll og úrvinnsla ráðgátunnar prýðileg.
Afar velframsett og dularfull hliðarsaga af heimilisböli unga rannsakandans, Helga, er síðan sérstakt krydd í sögunni og vekur vonir um að Helgi eigi eftir að koma meira við sögu í bókum Ragnars.
Mér fannst Ragnar ná ákveðnum hátindi í síðustu tveimur bókum sínum, Mistri og Þorpinu. Einstaklega myrkt sögusvið vakti lesandanum innilokunarkennd og sögurnar eru á köflum beinlínis taugatrekkjandi. Hvíti dauði er ekki alveg jafn ógnvekjandi og þessar tvær síðustu bækur en engu að síður vel heppnuð spennusaga.