Í bókinni 300 stærstu sem kom út í vikunni kennir ýmissa grasa en þar er meðal annars að finna upplýsingar um hæstu launin, stærstu vinnuveitendurna, mesta hagnaðinn og mestu veltuna.
Athygli vekur að lítið og tiltölulega óþekkt fyrirtæki borgar hæstu launin hér á landi en það er útgerðarfyrirtækið Runólfur Hallfreðsson ehf. Hver starfsmaður þar er með 2.084.809 krónur að meðaltali á mánuði. Starfsmenn fyrirtækisins eru að meðaltali tólf talsins.
Mannlíf birti listann yfir þau tíu fyrirtæki sem greiða hæstu launin samkvæmt bókinni, en um er að ræða fyrirtæki sem eru með tíu starfsmenn eða meira. Í næstu sætum á eftir Runólfi Hallfreðssyni ehf. eru Gamma Capital Management hf. (2.050.231 krónur), Stefnir hf. (1.861.242 krónur) og Landsbréf hf. (1.763.732).
Stofnendur Runólfs Hallfreðssonar hf. voru hjónin Runólfur Hallfreðsson og Ragnheiður Gísladóttir en eftir fráfall þeirra áttu börn þeirra meirihluta í félaginu. Í dag er Síldarvinnslan skráð fyrir rúmlega 75 prósenta hlut í félaginu.