Fram kom í hlaðvarpsþættinum, Steve Dagskrá í gær að möguleiki væri á því að Steven Lennon framherji FH væri á leið Í KR. Kristinn Kjærnested, formaður knattspyrnudeildar KR segir ekkert til í því.
,,Þetta hefur ekkert komið til umræðu hjá okkur eða á okkar borð, enda er þessi umræddi leikmaður samningsbundinn sínu félagi,“ sagði Kristinn við 433.is í dag.
Lennon hefur talsvert verið á milli tannana á fólki eftir pilluna sem hann sendi á FH í síðustu viku, þar talaði hann um að sonur hans væri að grafa eftir launagreiðslum sínum. Umræðan um vandræði FH að borga laun hefur verið talsverð.
Framherjinn knái hefur spilað með FH frá 2014 en hann hefur reglulega verið orðaður við önnur félög. Þannig hafði Valur áhuga á að kaupa hann í maí á þessu ári, þá hefur Breiðablik oftar en einu sinni freistað gæfunnar.
Lennon er með samning við FH út næstu tvö tímabil en hann fékk fjögurra ára samning hjá FH árið 2018 þegar Breiðablik sýndi honum áhuga. Lennon er 31 árs gamall skoskur framherji.