fbpx
Þriðjudagur 24.desember 2024
Eyjan

Ragnar Þór: „Ég hef engan áhuga á þessum vinnustað“

Ritstjórn Eyjunnar
Þriðjudaginn 26. nóvember 2019 12:30

Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, hefur viðrað hugmyndir sínar um að verkalýðshreyfingin stofni pólitískt framboð. Voru hugmyndir hans skotnar niður, ef svo má segja, af lögspekingum í Fréttablaðinu í morgun, sem töldu að félagafrelsisákvæði stjórnarskrárinnar og 11. grein mannréttindasáttmálans um félagafrelsi færi gegn slíkum hugmyndum þar sem dómar hefðu fallið gegn Íslandi hjá Mannréttindadómstólnum í Strassborg á þeim forsendum.

Sjá nánar: „Verkalýðshreyfingin ætti að fara varlega í að stofna stjórnmálaflokk“

Stenst ekki skoðun

Ragnar Þór sagði hinsvegar við Eyjuna að hann gæfi lítið fyrir slík varnaðarorð:

„Hvað með tengsl Verkamannaflokksins í Bretlandi við verkalýðhreyfinguna þar? Hvað með áherslur verkalýðshreyfingarinnar í skattamálum og þær breytingar sem við vildum þar? Hvað með tengsl verkalýðshreyfingarinnar í Skandinavíu sem er sumstaðar beintengd pólitískum stjórnmálaflokkum? Hvað með Alþýðuflokkinn? Stríða pólitískar áherslur verkalýðshreyfingarinnar gegn lögum eða reglugerðum Evrópusambandsins? Erum við þannig að brjóta lög með því að fara fram með pólitísk mál á borð við breytingar á innviðum eins og húsnæðiskerfinu og heilbrigðiskerfinu, vaxtaumhverfi og skattkerfi? Það held ég ekki. Málið er að þessi málflutningur stenst enga skoðun. Það liggur fyrir og það er ekkert í lögum sem bannar okkur að fara í þessa vegferð,“

segir Ragnar og nefnir að hann hafi sjálfur látið skoða lagalegan grundvöll málsins:

„Ég hef láið skoða þetta og það er ekkert, ekkert sem ætti að koma lagalega í veg fyrir það að hreyfingin komi að framboði eða beiti sér með einhverjum slíkum hætti. Hver er til dæmis munurinn á því að hreyfingin markaðssetji kröfur sínar fyrir kjarasamninga eða markaðssetji kröfur sínar á pólitískum vettvangi?“

Hyggst ekki bjóða sig fram

Ragnar segist ekki vilja bjóða sig fram sjálfur til Alþingis ef til slíks framboðs komi:

„Ég hef hugleitt það og mér finnst skrýtið að enginn hafi spurt mig um þetta áður. En ég hef engan áhuga á þessum vinnustað. Ég reikna ekki með að gefa kost á mér í slíkt framboð þó svo að ég myndi styðja það.“

Aðspurður hvort hugmyndir hans um framboð séu langt komnar, segir hann svo ekki vera:

„Ég er ekki kominn langt og þetta hefur ekkert verið formlega rætt innan okkar raða. Ég er að þreifa fyrir mér svona maður á mann. Ég er líka að ræða við fólk úr öðrum flokkum sem er orðið langþreytt á því sama og við. Það kemur væntanlega í ljós fljótlega hvort einhver flötur er á þessu en eitt er víst að ég hef aldrei fengið önnur eins viðbrögð við neinu sem ég hef gert. Það er hvatningu og jákvæð viðbrögð. Mér finnst greinilegt að fólk sé að kalla eftir einhverju svona. Svo verður að koma í ljós hvað gerist.“

Aðspurður hvort framboðið myndi bjóða fram í næstu Alþingiskosningum sagði Ragnar.

„Ég hef ekki skoðað tímaramman sérstaklega. En þetta er hægt með tiltölulega stuttum fyrirvara.“

Digrir sjóðir

Ragnar hefur verið gagnrýndur fyrir að ætla að notast við sjóði verkalýðsfélaganna til fjármögnunar slíku framboði. Sem kunnugt er þá fá stjórnmálaflokkar Alþingis vegleg framlög frá ríkinu á hverju ári, en það framlag hefur farið síhækkandi undanfarin ár.

Aðspurður hvort framboð verkalýðshreyfingarinnar myndi þiggja slík framlög, í ljósi sterkrar fjárhagsstöðu hreyfingarinnar, sagðist Ragnar ekki reikna með því, án þess að útiloka það beint:

„Ég hef svo sem ekki velt því fyrir mér, annað en það að hreyfingin sé almennt það fjárhagslega sterk að hún þarf ekki að reiða sig á stuðning sérhagsmunaafla. Það er ekkert heldur víst að sjóðir yrðu notaðir. Mér lýst til dæmis ágætlega á hugmynd Katrínar Oddsdóttur um hópfjármögnun. Það þarf hinsvegar að fara að öllum reglum og lögum sem gilda um framboð í slíkri vegferð. Framboðið færi fram eftir þeim reglum og lögum sem þar um gilda og fjármagnar sig einnig eftir því. Það er svo sjálfstæð ákvörðun hvers lögaðila eða félags hvort það komi að þessu eða styrki.“

Stefnir að þverpólitískri sátt

Önnur gagnrýni sem heyrist í kjölfar hugmyndar Ragnars er að ekki myndu allir félagsmenn verkalýðsfélaganna vera sammála um þá pólitík og þær hugmyndir sem slíkt framboð hefði fram að færa.

Ragnar svarar því þannig að nú þegar séu pólitískar blokkir innan hreyfingarinnar, en sú hugmyndafræði sem slíkt framboð myndi setja fram yrði á grundvelli þverpólitískrar samstöðu:

 „Ég er að tala um þverpólitískt afl um ákveðnar grundvallarbreytingar sem þjóðin er að kalla eftir. Ekkert ósvipað uppsett og kröfugerð hreyfingarinnar gegn stjórnvöldum í síðustu kjarasamningum, nema þetta yrðu aðrar kröfur. Auðvitað eru ekki allir sammála um allt en ég er að tala fyrir því að koma okkur saman um stuttan verkefnalista sem við getum öll sætt okkur við, þverpólitískt.“

Óhræddur

Ragnar Þór sagðist að lokum óhræddur við að setja fram hugmyndir sínar, enda hefðu þær hlotið mikinn stuðning:

„Ég er ekki hræddur við að hafa skoðanir eða koma með hugmyndir, því þó ekki séu allir sammála þá hefur það hingað til ekki haft nein önnur áhrif á VR en gríðarlega aukningu félagsmanna. Ef ég hugsaði um það öllum stundum að stuða einn eða tvo með hugmyndum að lausnum fyrir betra samfélagi, gæti ég allt eins setið heima hjá mér og gert ekki neitt. Ég vil frekar standa og falla með því sem ég geri. Ef það er ekki eftirspurn eftir mínum kröftum þá tekur bara einhver annar við kyndlinum og gerir betur.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Segir 10 Prís verslanir opna á næsta ári

Segir 10 Prís verslanir opna á næsta ári
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Afhjúpar lævíst plott Sjálfstæðisflokksins til að tryggja sér fjárhagslega yfirburði – Svona reyndi hann að veikja samkeppnina

Afhjúpar lævíst plott Sjálfstæðisflokksins til að tryggja sér fjárhagslega yfirburði – Svona reyndi hann að veikja samkeppnina
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Halla endurnýjar listaverkin á Bessastöðum

Halla endurnýjar listaverkin á Bessastöðum
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu: Góð verslun fyrir jólin – sprenging í netverslun í nóvember

Framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu: Góð verslun fyrir jólin – sprenging í netverslun í nóvember
Eyjan
Fyrir 1 viku

Björn Leví skrifar – Verri niðurstaða

Björn Leví skrifar – Verri niðurstaða
Eyjan
Fyrir 1 viku

Sigmundur um vöruhúshneykslið – „Ekki skipulagsslys heldur skemmdar­verk”

Sigmundur um vöruhúshneykslið – „Ekki skipulagsslys heldur skemmdar­verk”