Nú styttist heldur betur í jólin og margir sem búa til konfekt fyrir jólahátíðina. Þessir nammibitar hér fyrir neðan eru sjúklega einfaldir því aðeins þarf þrjú hráefni til að töfra þá fram. Svo ekki sé minnst á að þeir eru hollir líka. Algjör snilld!
Hráefni:
11–12 döðlur, án steins og látnar liggja í bleyti í 5 mínútur
1½ bolli hnetur að eigin vali
1 bolli dökkt súkkulaði, brætt
Aðferð:
Klæðið form sem er sirka 20×20 sentímetra stórt með smjörpappír. Setjið döðlur og hnetur í matvinnsluvél og vinnið þar til blandan verður klístruð og glittir í hnetubita hér og þar. Dreifið úr blöndunni í formið og þrýstið henni vel út í alla kanta. Hellið bræddu súkkulaði yfir herlegheitin. Setjið stykkin í frysti í 10 mínútur eða ísskáp í 20 mínútur svo súkkulaðið harðni. Skerið síðan í bita og njótið.