Þegar kólnar í veðri er fátt betra en að ylja sér með góðri súpu. Við rákumst á þessa uppskrift að gulrótar- og kóríandersúpu á matarvefnum Delish og bara urðum að deila henni með lesendum.
Hráefni:
900 g gulrætur, skornar í litla bita
4 msk. ólífuolía
1 tsk. þurrkaður kóríander
salt og pipar
1 stór rauðlaukur, saxaður
2 hvítlauksgeirar, smátt saxaðir
1 jalapeño, smátt saxaður
¼ bolli ferskur kóríander – skerið lauf frá stilkum en geymið stilkana
6 bollar grænmetissoð
chili flögur
læmsneiðar, til að bera fram með
Aðferð:
Hitið ofninn í 220°C. Blandið gulrótarbitum saman við 2 matskeiðar af olíu, þurrkaðan kóríander, salt og pipar. Dreifið úr þessu á ofnplötu sem klædd er með smjörpappír. Bakið í um þrjátíu mínútur. Hitið restina af olíunni í stórum potti yfir meðalhita. Bætið rauðlauk út í og eldið í um fimm mínútur. Bætið hvítlauk, jalapeño og kóríanderstilkum saman við. Eldið í um mínútu. Bætið soði, kóríanderlaufum, chili flögum og gulrótarbitum saman við. Náið upp suðu, lækkið síðan hitann og látið malla í korter. Notið töfrasprota til að mauka súpuna. Skreytið með kóríanderlaufum og læmsneiðum og berið fram.