Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, sagði í viðtali við Morgunblaðið í síðustu viku að hann saknaði þess að ekki væri tekin „dýpri“ umræða um Landspítalann og rekstrarvanda hans.
„Það má vel vera að um sé að ræða raunverulegan söknuð af þinni hálfu en hann kemur skringilega fyrir sjónir ef horft er til þess sem á undan er gengið,“
segir Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, sem tekur Bjarna á orðinu í pistli í Fréttablaðinu í dag, hvar hann fer yfir vanda Landspítalans og setur fram fjögur skilyrði sem hafa þurfi í huga við einkarekstur í heilbrigðiskerfinu.
Hann minnir á að árið 2016 hafi 85 þúsund íslendingar skrifað undir áskorun á stjórnvöld að auka framlög til heilbrigðismála, eða 11 prósent af vergri landsframleiðslu:
„Nú þremur árum síðar eyðum við ívið minni hluta af vergu landsframleiðslunni í heilbrigðismál en við gerðum árið 2016. Í þessu felst hluti af vanda Landspítalans. Þjóðin hefur ákveðna skoðun á heilbrigðiskerfinu og hefur til þess væntingar sem ríma engan vegin við þau fjárlög sem Alþingi hefur samþykkt á undanförnum árum,“
segir Kári og bætir við:
„Undirskriftasöfnunin hefði átt að vera þér Bjarni, sem fjármálaráðherra, full ástæða til þess að hefja umræðuna djúpu um Landspítalann í stað þess að halda áfram að standa fyrir því að honum var skammtað fé langt undir þörfum þannig að hann hlaut að skila tapi. Svo ertu pirraður á því að skýringin á tapi spítalans í hittiðfyrra hafi verið ein, í fyrra önnur og í ár sú þriðja.“
Langir biðlistar eftir liðskiptiaðgerðum myndu hverfa ef Bjarni myndi aðeins láta meiri pening í Landspítalann segir Kári:
„Staðreyndin er sú að Landspítalinn fær ákveðna upphæð á fjárlögum og ef hann gerði mikinn fjölda liðskipta núna yrði að taka peninga af annarri grundvallarþjónustu sem spítalinn á að sinna lögum samkvæmt. Ef Svíþjóð eða Klíníkin gera svona aðgerðir er peningurinn tekinn úr allt öðrum sjóði. Skynsamlega leiðin til þess að leysa liðskiptaáþján þjóðarinnar væri að veita sérstöku fé til Landspítalans til þess að leysa þennan vanda. Landspítalinn gæti þá annað hvort gert aðgerðirnar sjálfur eða falið Klíníkinni að sinna þeim alfarið eða að hluta á því verði sem samræmist kostnaði á spítalanum.“
Kári segir stefnu Bjarna hingað til ekki góða fyrir Sjálfstæðisflokkinn:
„Bjarni, þjóðin vill betra heilbrigðiskerfi og er reiðubúin til þess að eyða í það mun stærri hundraðshluta af þjóðartekjum en gert hefur verið upp á síðkastið. Ég hef það á tilfinningunni að þú sért mér sammála um flest af því sem ég hef skrifað hér að ofan en þú ert með einhvers konar skatta- og veiðigjaldalækkunaráráttu sem gerir þér erfitt um vik að viðurkenna það og er að smækka flokkinn þinn niður úr öllu valdi. Með þessu ertu að halda andstæðingum Sjálfstæðisflokksins veislu. Kannski þú sért kominn með leið á pólitísku brölti og lítir svo á að auðveldasta leiðin út úr því sé að Sjálfstæðisflokkurinn hverfi bara fyrir fullt og allt.“
Kári segir allt tal Bjarna um að einkarekstur gæti bætt bölið sé rammfölsk tónlist og hafnar slíkum hugmyndum, en þó ekki alfarið. Hann setur fram fjögur skilyrði sem þyrfti að hafa í huga við einkareknar einingar innan heilbrigðiskerfisins: