fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Eyjan

Umhverfisstofnun svarar Sigríði – Stofnunin stendur á sínu

Máni Snær Þorláksson
Fimmtudaginn 21. nóvember 2019 13:28

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Umhverfisstofnun hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna orða Sigríðar Á. Andersen en hún sakaði stofnunina um falsfréttir.

„Enn og aftur er Umhverfisstofnun uppvís að því að afneita eigin tölfræði,“ sagði Sigríður í pistlinum sínum. Hún talaði um tilkynningu sem stofnunin sendi frá sér í síðusttu viku en tilkynningin fjallaði um losun Íslendinga á gróðurhúsalofttegundum. „Þar er því haldið fram að hlutur vegasamgangna í losuninni sé 34%. Það er bara ekki rétt því eins og gögn sem Umhverfisstofnun sjálf leggur fram er þessi hlutdeild vegasamgangna ekki nema 6%.“

Umhverfisstofnun svaraði þessu í tilkynningu til fjölmiðla í dag. Þar útskýrir stofnunin hvernig Sigríður og aðrir hafa misskilið orð stofnunarinnar.

„Losun frá vegasamgöngum var 975 kt árið 2017. Hlutfallslega er það 34% af þeirri losun sem á sér stað innanlands en undanskilur viðskiptakerfi Evrópusambandsins (aðallega stóriðju og flug frá og til Evrópu), alþjóðaflug og millilandasiglingar,  sem og landnotkun, breytta landnotkun og skógrækt (LULUCF).“

Stendur að fullu við yfirlýsinguna

Í tilkynningunni kemur fram að þetta sé sú losun sem kallast „losun á beinni ábyrgð stjórnvalda“ en hugtakið kemur frá aðgerðaáætlun í loftslagsmálum sem gefin var út í fyrra af Umhverfis- og auðlindarráðuneyti. „Ef bætt er við losun frá viðskiptakerfi ESB, LULUCF, alþjóðaflugi og millilandasiglingum þá verður hlutfallsleg losun vegasamgangna 6%,“ segir einnig í tilkynningunni.

„Þegar rætt er um uppsprettur gróðurhúsalofttegunda miðar Umhverfisstofnun oft við losun sem fellur undir ábyrgð stjórnvalda, það er aðra losun en á sér stað í gegnum viðskiptaheimildir, millilandasamgöngur og landnotkun. Umhverfisstofnun stendur því að fullu við fyrri yfirlýsingu.“

Umhverfisstofnun segir að ástæðan fyrir því að upplýsingum um losun á ábyrgð stjórnvalda sé miðlað er vegna þeirra skuldbindinga sem ríkið hefur gengist við gagnvart ESB.

„Ísland fær sem sagt úthlutað „losunarkvóta“ og ef losun verður meiri þá mun ríkið þurfa að greiða fyrir losun sem fer umfram kvóta. Losun sem fellur undir viðskiptakerfi ESB er ábyrgð rekstraraðila og hefur ekki áhrif á „losunarkvóta“ ríkisins. Það er því verkefni ríkisins að draga úr losun sem er á beinni ábyrgð stjórnvalda svo sem frá samgöngum, sjávarútvegi, úrgangsmeðhöndlun og landbúnaði.“

Að lokum nefnir stofnunin að losunarbókhald Íslands er árlega rýnt mjög ítarlega af sérfræðingum ESB og Rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál (UNFCCC).

„Þannig er tryggt að losunarbókhaldið sé rétt, nákvæmt og fullnægjandi. Umhverfisstofnun ætlar að láta ógert að svara sérstaklega gífuryrðum um „talnafalsanir“ Umhverfisstofnunar í losunarbókhaldi.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt