Í vikunni var ég að klæða mig eftir tíma í ræktinni og á leiðinni út þegar alls ókunnug kona vindur sér upp að mér og segir:
„Við erum ekki nógu duglegar að segja allt það fallega sem kemur upp í hugann stundum, en mig langar til þess að segja þér að þú er glæsileg í þessum fallega bláa kjól. Langaði bara að segja þér það.“
Ég roðnaði alveg í kaf en hrósið tók ég með mér inn í daginn og hann varð betri fyrir vikið.
Í dag var ég í apóteki í kringlunni þar sem gullfalleg rauðhærð stúlka afgreiddi mig svo ég tók eftir. Ég mundi eftir kjólahrósinu og sagði við þessa stúlku:
„Við erum ekki nógu duglegar að segja allt það fallega sem kemur upp í hugann, en mikið ertu með fallegan háralit og hvað hann klæðir þig ofsalega vel.“ Sem var sko alveg satt!
Ég vona nú að þessi rauðhærða fallega kona segi næst eitthvað fallegt við konu sem hún þekkir ekki neitt. Bara vegna þess að henni flaug það í hug… því það er bara extra gaman að heyra falleg orð úr alls óvæntri átt!
– Sesselja Thorberg