fbpx
Mánudagur 22.júlí 2024
Fréttir

Erna Ýr segist hafa mætt til opinberrar aftöku – Þetta gerðist eftir að slökkt var á myndavélinni

Máni Snær Þorláksson
Fimmtudaginn 21. nóvember 2019 10:07

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Borgarafundur RÚV um loftslagsmál hefur vakið mikla athygli síðasta sólarhringinn. Erna Ýr Öldudóttir, blaðamaður og efasemdarmanneskja um loftslagsmál, var meðal viðmælenda á fundinum.

Afstaða Ernu til loftslagsmála hefur verið mikið í umræðunni eftir að þátturinn var sýndur en hún er á því máli að hamfarahlýnun og loftslagsváin sé stórlega ýkt. Margir hafa gagnrýnt hana á netinu eftir að þættinum lauk en Erna opnaði sig um þáttinn í pistli sem hún skrifar á Viljanum, þar sem hún vinnur sem blaðamaður. Hún segir fundinn hafa verið opinbera aftöku í beinni útsendingu.

„Margir hafa eflaust horft á Borgarafund Kastljóss Ríkissjónvarpsins (RÚV) um loftslagsmál í gærkvöldi. Sú sem þetta skrifar var ein af þeim sem boðið var að vera þar í pallborði, sem önnur af tveimur einstaklingum úr hópi efasemdarmanna um að loftslagsbreytingar séu af mannavöldum. Ég átti nú svo sem ekki von á að þetta yrði sanngjörn eða hlutlaus samkoma, þar sem þeir sem trúa á loftslagsvandann voru aftur á móti tólf talsins – og RÚV er þekkt fyrir eitthvað annað en að fjalla hlutlaust eða af rósemi um þessi mál. En ég lét mig þó hafa það og ákvað að mæta til opinberrar aftöku, með hrútskýringum og kennivaldshroka í beinni útsendingu á ríkisfjölmiðlinum.“

Erna gagnrýnir það að hún og Magnús Jónsson veðurfræðingur hafi verið endurtekið „uppnefnd afneitunarsinnar“. Erna segir í pistlinum að af þeim sökum kalli hún þá sem trúa að um raunverulega hættu sé að ræða vegna loftslagsmála, „hina heitttrúuðu“.

„Eitt af því sem ég tók eftir var að flestir hinna heittrúuðu var fólk sem hefur beinlínis hagsmuni af því að vera staðföst og boða trúna á loftslagsvána, en í því samhengi ætla ég að telja upp hverjir það voru.“

Áhyggjur af hagsmunum

Erna byrjar á að nefna Guðmund Inga Guðbrandsson umhverfisráðherra en hún segir hann eiga stóra drauma um „skattpíningar“ og boð og bönn í þágu umhverfismála. Hún hefur miklar áhyggjur af því að fólk sem var á fundinum hafi hagsmuni að gæta þegar kemur að loftslagsvánni.

„Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, sem þarf að koma borgarbúum í strætó og selja þeim hugmyndina um borgarlínu. Andri Snær Magnason, rithöfundur, sem verður að selja bók um loftslagsvána fyrir jólin. Sævar Helgi Bragason, jarðfræðingur, sem fékk sæti í loftslagsráði stjórnvalda. Halldór Björnsson, sem var titlaður loftslagsfræðingur og hefur atvinnu af því, en er raunverulega jarðeðlisfræðingur. Elín Björk Jónasdóttir, veðurfræðingur – sem vinnur m.a. við loftslagsrannsóknir. Berglind Rán Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Orku náttúrunnar. Jakob Björgvin Jakobsson, bæjarstjóri í Stykkishólmi, sem gengið hefur hart fram í umhverfismálum í sveitarfélaginu og Eggert Benedikt Guðmundsson, formaður loftslagsráðs stjórnvalda.

Aðrir voru efasemdamennirnir tveir, auk Gunnhildar Fríðu Hallgrímsdóttur, nema og aðgerðasinna í loftslagsmálum, dr. Guðni Elísson, bókmenntafræðiprófessor og Þóra Margrét Þorgeirsdóttir, titluð sem „sorpbloggari“.“

Erna segir að henni hafi liðið eins og hún væri stödd í sjónvarpssal á trúarlegri sjónvarpsstöð á borð við Omega þar sem hún var „sitjandi á meðal loftslagskvíðinna barna í áhorfendahópnum, áður en það kom að mér að tala, og eftir á.“. Hún er ósátt við það að rætt var um málið eins og það væri staðreynd að hlýnun loftslagsins væri af mannavöldum.

Líkir Stykkishólmi við Kína undir stjórn Maó

Erna nefnir síðan „brot af því besta úr þættinum“ og tekur nokkur dæmi. „John Kerry, f.v. forsetaframbjóðandi í Bandaríkjunum, sendi skilaboð á fundinn – þar sem hann krafðist þess að loftslagsmálin yrðu kosningamál á Íslandi. Er fólki alvara með þessum afskiptum af innanríkismálum í Kastljósþætti hins „hlutlausa“ ríkisfjölmiðils? Andri Snær talaði um að svefnleysi yfir mögulegum vám skili árangri. Hann bar ótta fólks við kolefniseldsneyti, sem þó má þakka fyrir velmegun og uppbyggingu í heiminum, saman við óttann við kjarnorkustyrjaldir og gjöreyðingarvopn,“ segir Erna og heldur áfram. Hún gengur svo langt að líkja Stykkishólmi við Kína þegar það var undir stjórn Maó.

„Þóra Margrét, talaði um að fólk þurfi að „forrita sig upp á nýtt“ og sagði að líf okkar eigi ekki að vera neitt umfram grunnþarfirnar – það sé heillandi heimssýn. Jakob Björgvin segir að sveitarfélagið Stykkishólmur fylgist með flokkun sorps hjá íbúunum, og hafi farið á hvert einasta heimili þar til að ræða við íbúana um það. Svona svipað og Maó formaður lét kanna hjá fólki í Kína hvort það væri nógu hreint heima hjá þeim. Einar þáttastjórnandi spyr mig hvort ég „semji“ fréttir.“

„Ósannaðar tilgátur“

Erna gefur það í skyn að niðurstöður vísindamanna haldi engu vatni vegna svokallaðrar „vinarýni“ (e. pal review). Hún gerir lítið úr orðum Elínar Bjarkar veðurfræðings þar sem hún tekur þessa „vinarýni“ ekki með inn í reikninginn.

„Elín Björk hélt því fram að vísindamenn hafi engra hagsmuna að gæta í loftslagsrannsóknum, þó að háskólar og vísindamenn séu háðir styrkjum pólitískra ríkisstjórna og alþjóðastofnana. Hún talar um rýni vísindamanna á vísindagreinum (e. peer review), án þess að taka með í reikninginn að vísindamenn rýna oft fyrir vini sína og kunningja, sem veita þeim rýni á móti, svokölluð vinarýni (e. pal review). Vinarýni er vaxandi vandamál í vísindaheiminum sem hefur valdið hrakandi gæðum birtra vísindaniðurstaðna. Vildi svo að „gripið yrði til aðgerða“, á grundvelli vísindalega ósannaðrar tilgátu um hlýnun jarðarinnar af mannavöldum.“

Rétt er að benda á það að þó svo að um ósannaða kenningu sé að ræða þá þýðir það ekki að hún sé gripin úr lausu lofti þar sem um 97% vísindamanna eru sammála um ágæti hennar. Það þýðir að einungis brot af vísindamönnum eru ósammála eða 3% þeirra. Til samanburðar má nefna að um 3% vísindamanna trúa einnig ekki á þróunarkenninguna.

Erna gagnrýnir Sævar Helga harðlega fyrir að segja að það sé „mýta“ að það séu hagsmunir í loftslagsvísindum, þar sem hann hefur „fengið starf og peninga til að gera áróðursþættina „Hvað höfum við gert?“ á kostnað skattgreiðenda.

„Auk þess starfar hann nú sem barnafréttamaður í KrakkaRÚV, við að koma inn loftslagskvíða og ranghugmyndum hjá börnum, byggðum á hinni fyrrnefndu ósönnuðu tilgátu. Að lokum fékk hann sæti í loftslagsráði stjórnvalda. Hann sagði einnig að „peningarnir séu í olíujarðfræði“, og lét sem að óteljandi milljarðar dollarar loftslagsiðnaðarins, teknir af neytendum og skattgreiðendum, séu ímyndun ein.

Hann sagði jafnframt „heimskulegt“ að fólk vilji ekki kalla koldíoxíð „gróðurhúsalofttegund“ – þó það sé gildishlaðið orð – og tekur ekki mark á öðrum en sjálfum sér varðandi það hvort ósannaðar tilgátur vísindanna um loftslagsvá, geti verið til umræðu á þeim grundvelli að þær séu aðeins ósannaðar tilgátur. Enda hentar sú umræða illa trúarlegum málstað hans.“

Það sem gerðist eftir að slökkt var á myndavélinni

Erna segir að Halldór Björnsson loftslagsfræðingur hafi boðið sér að læra meira málið þegar þáttinum hafi lokið. „Eftir að slökkt var á myndavélinni bauð hann mér að koma í endurmenntunarkúrs sem hann kennir um loftslagsmálin uppi í Háskóla Íslands – og loftslagsbloggarinn Sveinn Atli Gunnarsson, sem hafði setið á áhorfendabekk, óð með þjösnaskap upp að mér til að koma í veg fyrir að fólk ætti við mig orðastað.“.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Flugi til Íslands aflýst vegna bilunar á síðustu stundu – Vélin var komin út á flugbrautina

Flugi til Íslands aflýst vegna bilunar á síðustu stundu – Vélin var komin út á flugbrautina
Fréttir
Í gær

Gestrisni Íslendinga kom spænsku pari gríðarlega á óvart – „Þetta fólk þekkti okkur ekki neitt“

Gestrisni Íslendinga kom spænsku pari gríðarlega á óvart – „Þetta fólk þekkti okkur ekki neitt“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Costco reiknar ekki með að „heimsendafatan“ verði til sölu hérlendis – Aðeins ákall neytenda gæti breytt því

Costco reiknar ekki með að „heimsendafatan“ verði til sölu hérlendis – Aðeins ákall neytenda gæti breytt því
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Árásin á Yönu og fjölskyldu hennar – Emmanuel gekkst undir langa aðgerð í gær

Árásin á Yönu og fjölskyldu hennar – Emmanuel gekkst undir langa aðgerð í gær
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Flutningur ráðuneytanna langt kominn í glæsihýsið við Austurbakka – Óvíst um endanlegan kostnað

Flutningur ráðuneytanna langt kominn í glæsihýsið við Austurbakka – Óvíst um endanlegan kostnað
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Bandarískur blaðamaður dæmdur í 16 ára fangelsi fyrir njósnir í Rússlandi

Bandarískur blaðamaður dæmdur í 16 ára fangelsi fyrir njósnir í Rússlandi