Laust eftir kl. 8 í morgun voru björgunarsveitir á Suðurlandi kallaðar út vegna rútu sem farið hafði útaf þjóðveginum við Hafurshól undir Eyjafjöllum. Rútan endaði út í á en ekkert amar að farþegunum 23 sem eru um borð.
Viðbragðsaðilar eru komnir á vettvang og þarf að selflytja farþegana með björgunarsveitarbílum úr rútunni, þeir verða fluttir í fjöldahjálparstöð sem Rauði krossinn hefur opnað í Heimalandi.
Snarvitlaust veður er á svæðinu og fer vindur upp í 40 m/s í mestu hviðunum. Í gildi er gul viðvörun frá Veðurstofu Íslands.
Meðfylgjandi eru myndir frá vettvangi.