Arion banki hyggst fjalla um Samherjamálið á stjórnarfundi og mun Íslandsbanki líklega gera hið sama í dag, að sögn Morgunblaðsins. Vill Landsbankinn ekki gefa upp upplýsingar um einstaka viðskiptavini. Verða viðskipti bankanna við Samherja skoðuð ítarlega, en ekki er vitað hversu umfangsmikil viðskiptin við Samherja eru erlendis.
Hefur starfandi forstjóri Samherja, Björgólfur Jóhannsson, sagst ætla að upplýsa bankanna eins og kostur sé, þeir hafi ekkert að fela.
DNB bankinn í Noregi hefur einnig tekið Samherjamálið til skoðunar, en bankinn kemur víða við í Samherjaskjölunum og er talinn hafa millifært 70 milljónir dollara, eða um 8.6 milljarða króna, í gegnum félagið Cape cod FS á Marshall-eyjum. Millifærslan var stöðvuð sem leiddi til rannsóknar á félaginu og lét DNB loka reikningnum í kjölfarið og hætti þjónustu við félagið í fyrra.