Í nýjasta þættinum af Íslenska drauminum fer Magnús Sverrir Þorsteinsson yfir ótrúlega sögu sína og Blue Car Rental, en bílaleigan hefur stækkað gríðarlega hratt síðustu ár.
Íslenski draumurinn er hlaðvarp sem þeir Sigurður Sindri Magnússon og Eyþór Jónsson standa á bak við, en í þáttunum tekur Sigurður viðtöl við íslenska frumkvöðla og viðskiptamenn og fer yfir þeirra feril.
Sigurður Sindri Magnússon er stjórnandi og annar framleiðandi þáttanna. Sigurður stofnaði sitt fyrsta fyrirtæki árið 2013 og hefur síðan verið í fyrirtækjarekstri ásamt því að útskrifast sem viðmótsforritari frá Vefskólanum árið 2017. Í dag rekur hann ferðaþjónustufyrirtækið Deluxe Iceland. Deluxe Iceland var stofnað árið 2015 og sérhæfir sig í prívat lúxusferðum um Ísland með ferðamenn sem vilja upplifa það besta af landinu á sem þægilegastan hátt.
„Mér fannst vanta nánari innsýn í heim þeirra aðila sem hafa stofnað og rekið sitt eigið fyrirtæki á Íslandi. Við fórum af stað með fjóra viðtalsþætti þar sem ég vel í þættina viðmælendur sem vekja áhuga minn og hafa náð góðum árangri á sínum viðskiptaferli. En við munum einnig gefa út umræðuþætti, þar sem við leggjum áherslu á ákveðið umræðuefni og fáum til okkar góða gesti til þess að kafa dýpra í hvert umræðuefni fyrir sig. Umræðuþættirnir eru um allt sem tengist fyrirtækjarekstri, hugarfari og hvernig þú getur náð lengra í lífinu. Þetta er bara byrjuninn,“ segir Sigurður.
Fer yfir söguna
Magnús Sverrir Þorsteinsson er stofnandi og eigandi bílaleigunnar Blue Car Rental og Blue Apartments. Magnús fer yfir söguna, allt frá fyrstu dögum í rekstri til þess hvernig það er að reka eina stærstu bílaleigu landsins.
Magnús, eða Maggi í Blue eins og hann er stundum kallaður, fór af stað með aðeins fimm bíla árið 2010 en síðan þá hefur bílaleigan vaxið gríðarlega og telur bílaflotinn yfir tvö þúsund bíla í dag, en það gerir Blue Car Rental eina af stærstu bílaleigum landsins.
Blue Car Rental var stofnað árið 2010 af Magnúsi og eiginkonu hans, Guðrúnu Sædal Björgvinsdóttur. Það má segja að vöxtur bílaleigurnar hafi verið ævintýralegur en velta fyrirtækisins tvöfaldaðist ár frá ári og hefur bílaleigan alltaf skilað hagnaði sem telst mikið afrek á markaði sem svona gríðarlega mikil samkeppni ríkir á.
Hægt er að sjá alla næstu þætti og lesa meira um viðmælendur á síðunni islenskidraumurinn.is, en Íslenska drauminn er einnig hægt að nálgast á öllum helstu streymisveitum.